Hefilverk ehf.

2022

Hefilverk var stofnað árið 1989 þegar Hilmar Guðmundsson og Elín Ívarsdóttir fjárfestu í sínum fyrsta veghefli, Caterpillar 12F árgerð 1971. Síðan þá hefur fyrirtækið tekið þátt í bæði stórum og smáum verkefnum. Á sama tíma og fyrirtækið var stofnað voru fest kaup á tveimur fjögurra kílóa NMT farsímum sem ávallt voru með í för og þótti sérstakt á sínum tíma. Hefilstjórinn gat því sjálfur tekið við pöntunum og fullnýtt daginn án þess að koma við á skrifstofunni til að fá upplýsingar um næstu verkefni. Verkefnum fór fjölgandi og tveimur árum síðar keypti fyrirtækið nýjan veghefil af gerðinni Komatsu GD621. Hefillinn var pantaður hjá P. Samúelssyni og afhentur 5. apríl 1991.
Árið 1998 hóf Ívan Örn Hilmarsson, sonur Hilmars og Elínar, störf hjá Hefilverki sem skóflumaður á hæl. Hann gekk með veghefli föður síns í tæp tvö ár áður en hann öðlaðist vinnuvélaréttindi. Árið 2000 hóf hann störf sem veghefilsstjóri hjá Hefilverki og vinnur þar enn í dag.

30 ára afmæli
Í tilefni af 30 ára afmæli fyrirtækisins voru fest kaup á glænýjum veghefli, Komatsu GD675, og 315 fermetra iðnaðarhúsnæði í Bugðufljóti í Mosfellsbæ. Á þessum 30 árum hefur Hefilverk vaxið og dafnað sem fjölskyldufyrirtæki. Í dag eru starfræktir þrír vegheflar, allir útbúnir fullkomnum vélstýringum sem skila mun nákvæmara verki.

Verkefnin
Frá stofnun fyrirtækisins hefur Hefilverk komið að mörgum krefjandi framkvæmdum. Fyrsta verkefnið var 17. apríl 1989 í Skeifunni þar sem lagfæringar voru gerðar á plani Hagkaups. Í beinu framhaldi af því urðu verkefnin stærri. Má þar nefna tvöföldun vega á Bústaðarvegi, Reykjanesbraut og Hellisheiði. Einnig stækkun á Keflavíkurflugvelli, gerð Ártúnsbrekku, jarðgangavinna í Noregi og gatnagerð í kringum þau. Að auki hefur Hefilverk komið að gerð helstu íþróttamannvirkja landsins. Á veturna sinnir fyrirtækið snjómokstri þegar þess er þörf.
Hilmar hefur um árabil setið í stjórn Félags vinnuvélaeigenda sem varaformaður og tekið þátt í að efla samstarf félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra. Undanfarin misseri hefur hann komið að undirbúningi á námsefni í véla- og mannvirkjagerð en stefnt er að því að kenna fagið í Tækniskólanum.

Markmið
Hefilverk hefur frá upphafi skapað sér sérstöðu og gott orðspor með faglegum vinnubrögðum og persónulegri þjónustu enda unnið undir formerkjunum þekking – reynsla – nákvæmni.
Fyrirtækið hefur komist á lista Framúrskarandi fyrirtækja að mati Creditinfo síðastliðin 6 ár.
Heimasíða fyrirtækisins er www.hefilverk.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd