Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST) er byggðasamlag sem rekið er af sveitarfélögunum á Austurlandi sem er eitt tíu heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi.
Hlutverk HAUST er m.a að vinna að eftirliti og úrbótum á sviði hollustuhátta og mengunarvarna í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir (hollustuháttalaga) sem og eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla skv. matvælalögum nr. 93/1995.
Árið 1981 tóku gildi lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Þar var kveðið á um að á Íslandi skildu starfa 46 heilbrigðisnefndir á 13 svæðum. Á Austurlandssvæði voru 9 heilbrigðisnefndir með samanlagt 35 nefndarmenn. Innan hvers svæðis var starfrækt svæðisnefnd skipuð formönnum nefndanna og héraðslækni svæðisins, sem jafnframt var formaður svæðisnefndarinnar.
Þrátt fyrir ákvæði laganna frá 1981 var það ekki fyrr árið 1988 sem sátt náðist um það á vettvangi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) að ráða framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Austurlands. Fram til þess hafði svæðisnefnd Austurlands undir forystu Stefáns Þórarinssonar héraðslæknis lagt áherslu á að sveitarfélög á svæðinu sameinuðust um að ráða heilbrigðisfulltrúa. Þær hugmyndir hlutu hinsvegar ekki brautargengi og skemmst er frá því að segja SSA hafnaði að taka tillögu þess efnis til meðferðar á aðalfundi árið 1983.
Í maí 1989 var loks gengið frá ráðningu Kjartans Hreinssonar í starf framkvæmdastjóra með aðsetur á Reyðarfirði og var hann jafnframt heilbrigðisfulltrúi á Héraði, í Neskaupstað, á Eskifirði og á Reyðarfirði. Auk Kjartans störfuðu þau Helga Hreinsdóttir, Þórdís Bergsdóttir, Hákon Hansson og Birnir Bjarnason sem heilbrigðisfulltrúar á svæðinu. Í júlí 1994 tók Helga Hreinsdóttir við starfi framkvæmdastjóra af Kjartani.
Samningur um stofnun byggðasamlags um rekstur heilbrigðiseftirlits á Austurlandi var undirritaður í nóvember 1998. Að samningum stóðu sveitarfélögin 16 í Austurlandskjördæmi sem þá var og samanstóð af Norður-Múlasýslu, Suður-Múlasýslu og Austur-Skaftafellssýslu. Í stofnsamningi er kveðið á um að stjórn byggðasamlagsins skulu jafnframt vera heilbrigðisnefnd Austurlandssvæðis og var þá komin ein heilbrigðisnefnd í stað níu áður.
Fyrsti formaður Heilbrigðisnefndar Austurlands var Guðrún M. Óladóttir á Eskifirði. Framkvæmdastjóri HAUST var Helga Hreinsdóttir og auk hennar störfuðu þau Jón Guðmundsson, Hákon Hansson, Þórdís Bergsdóttir og Árni J. Óðinsson sem heilbrigðisfulltrúar á svæðinu.
Starfsemin
Meginstarfsemi HAUST felst lögbundnum verkefnum, s.s. útgáfu starfsleyfa og eftirliti með leyfisskyldri starfsemi skv. hollustuhátta- og matvælalögum. Af öðrum lögbundnum verkefnum má nefna aðkomu að gerð samþykkta sveitarfélaga sem settar eru á grunni hollustuháttalaga og eftirlit með því að þeim sé framfylgt, umsagnir um skipulagsmál sveitarfélaga, umsagnir um rekstarleyfi sem gefin eru út af sýslumannsembættum o.fl.
Rekstur HAUST er fjármagnaður með eftirlitsgjöldum af eftirlitsskyldri starfsemi sem stendur undir um það bil 70% af rekstarkostnaði embættisins það sem uppá vantar er innheimt af aðildarsveitarfélögunum í réttu hlutfalli við íbúafjölda.
Þeirri starfssemi sem HAUST hefur eftirlit með má skipta í þrjú svið, hollustuháttasvið, mengunarvarnasvið og matvælasvið. Árið 2020 voru rúmlega 1.400 starfsstöðvar á eftirlitsskrá HAUST þar af tæplega helmingur á hollustuháttasviði. Í þann flokk falla meðal annars gististaðir, menntastofnanir og íþróttamannvirki. Starfsstöðvar á mengunarvarnasviði eru tæplega fjórðungur starfsstöðva á eftirlitsskrá, í þann flokk falla til dæmis bensínstöðvar, bílaverkstæði og meðhöndlun úrgangs. Rúmlega fjórðungur starfsstöðva eru matvælafyrirtæki, í þann flokka falla til að mynda veitingastaðir, matvöruverslanir og vatnsveitur en árið 2020 voru um 150 vatnsveitur á eftirlitsskrá HAUST. Þá hefur HAUST um árutuga skeið sinnt eftirliti með sorpurðunarstöðum, fiskimjölsverksmiðjum á svæðinu svæðinu skv. sérstökum samningi við Umhverfisstofnun um framsal eftirlitsverkefna.
Mannauður
Formaður Heilbrigðisnefndar árið 2020 var Jón Björn Hákonarson í Fjarðabyggð, auk hans skipuðu nefndina þau Stefán Bogi Sveinsson og Helgi Hlynur Ásgrímsson úr Múlaþingi, Gunnhildur Imsland frá Hornafirði, Sandra Konráðsdóttir frá Vopnafirði, Benedikt Jóhansson tilnefndur af samtökum atvinnurekenda og Kristín Ágústsdóttir fulltrúi náttúruverndarnefnda.
Heimili HAUST er í Fjarðabyggð en að auki hefur embættið skrifstofuaðstöðu á Egilsstöðum, Djúpavogi og á Höfn. Starfssvæðið er landfræðilega stórt, það nær frá Skaftafelli í suðri og norður til Vopnafjarðar.
Framkvæmdastjóri HAUST árið 2020 var Leifur Þorkelsson auk hans störfuðu við embættið þau Lára Guðmundsdóttir, staðgengill framkvæmdastjóra, Dröfn Svanbjörnsdóttir sviðstjóri mengunarvarnasviðs, Ólöf Vilbergsdóttir heilbrigðisfulltrúi á Djúpavogi og Borgþór Freysteinsson sem sinnti heilbrigðiseftirliti á Hornafjarðarsvæðinu auk Elínborgar S. Pálsdóttur sem ráðin var í afleysingar. Starfsmenn voru því 6 í 4,8 stöðugildum. Árlega fara starfsmenn HAUST í eftirlit með um það bil 900 starfsleyfisskyldum starfsstöðvum, taka rúmlega 300 sýni og gefa út allt að 200 starfsleyfi. Að auki sinna þeir kvörtunum tengdum starfsleyfisskyldri starfsemi og samþykktum sveitarfélaga og fleiri fjölbreyttum verkefnum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd