Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra (HNE) er samvinnuverkefni sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og á vettvangi Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) er í gildi sérstakur samstarfssamningur milli sveitarfélaga um heilbrigðiseftirlit.
Heilbrigðisnefnd er skipuð á aðalfundi SSNE að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Fimm nefndarmenn eru tilnefndir af sveitarstjórnunum samkvæmt samstarfssamningi og einn fulltrúi er tilnefndur af samtökum atvinnurekenda á eftirlitssvæðinu.
Samningur um heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga á Eyjafarðarsvæðinu var gerður árið 1983 og samningur milli sveitarfélaga á Norðaustursvæðinu var gerður árið1985 í samræmi við lög nr. 50/1981 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
Heilbrigðisnefnd er þannig skipuð
Frá Akureyri: Jón Ingi Cæsarsson, formaður, Anna María Jónsdóttir, varamaður, Anna Rósa Magnúsdóttir, Stefán Friðrik Stefánsson, varamaður.
Frá öðrum sveitarfélögum við Eyjafjörð: Lilja Guðnadóttir, Fjóla Stefánsdóttir, varamaður.
Frá Norðurþingi: Benedikt Kristjánsson.
Frá öðrum sveitarfélögum í Þingeyjarsýslu: Guðmundur Smári Gunnarsson, Þórarinn Þórisson, varamaður.
Frá samtökum atvinnurekanda: Kristín Halldórsdóttir, Sigurgeir Höskuldsson, varamaður.
Jón Torfi Halldórsson yfirlæknir heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri situr fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi.
Heilbrigðisnefnd heldur að jafnaði 10 fundi á ári.
Starfsstöðvar (skrifstofur) HNE eru tvær, á Akureyri og Húsavík
Á Akureyri, Furuvöllum 1, starfa þrír heilbrigðisfulltrúar í fullu starfi og samstarf er um skrifstofuhald við Matvælastofnun (héraðsdýralækni) og náið samstarf um matvælaeftirlit og önnur mál sem skarast. Rannsóknastofan Promat er í sama húsi. Alfreð Schiöth (dýra-læknir að mennt); starfar sem framkvæmdastjóri eftirlitsins og sinnir jafnframt sviðsstjórn umhverfiseftirlits. Steinn Oddgeir Sigurjónsson (mjólkurfræðingur að mennt); starfar sem sviðsstjóri matvælasviðs og annast matvælaeftirlit og eftirlit með hættulegum efnum sem því sviði tilheyra. Þórey Agnarsdóttir (hjúkrunarfræðingur að mennt); starfar sem sviðsstjóri hollustuháttaeftirlits og sér um eftirlit með þjónustustofnunum og hættulegum efnum á því sviði. Á Húsavík, Hafnarstétt 3, starfar einn heilbrigðisfulltrúi; Jóhannes Haukur Hauksson (mjólkurfræðingur að mennt); deildarstjóri austurdeildar og hann sinnir eftirliti allra sviða á austursvæðinu. Starfsmenn hafa góða menntun, mikla reynslu og hafa með sér samstarf og samráð og leysa hvern annan af á sviði matvælaeftirlits, hollusta- og mengunarvarnasviði eftir þörfum og taka virkan þátt í starfshópum í í samstarfi við Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og aðra opinbera aðila, s.s. Vinnueftirlit ríkisins, land-læknisembættið og skipulagsyfirvöld.
Lagagrunnur heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga
Lagagrunn heilbrigðisnefnda og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga (HES) er að finna í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir (nr. 7/1998 með breytingum), lögum um matvæli (nr. 93/1995 með breytingum) og lögum um tóbaksvarnir (nr. 6/2002 með breytingum).
Meginmarkmið laga um hollustuhætti og mengunarvarnir er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi.
Með mengun er átt við það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
Umhverfisstofnun (www.ust.is) og Matvælastofnun (www.mast.is) samræma og hafa yfirumsjón með störfum heilbrigðisnefnda. Á heimasíðum þessara stofnana er að finna margvíslegan fróðleik og fræðsluefni og einnig er þar greiður aðgangur að helstu lögum og reglum; flokkað undir mismunandi forsendum.
Starfsemi heilbrigðisnefnda heyrir þannig undir tvö ráðuneyti; Umhverfis- og auðlinda-ráðuneytið og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
Heilbrigðiseftirlitið hefur eftirlit með og gefur út starfsleyfi fyrir eftirtalin fyrirtæki:
Fyrirtæki sem framleiða, framreiða, selja, pakka, dreifa eða flytja matvæli nema slíkt eftirlit sé falið öðrum með sér lögum. Matvælastofnun (MAST) hefur eftirlit með frumframleiðslu og vinnslu landbúnaðarafurða, fiskvinnslum og innflutningi matvæla og fer með yfirumsjón matvælaeftirlits. Samstarf við MAST er náið. Matvæli eru hvers konar vörur sem ætlaðar eru mönnum til neyslu þar með talið neysluvatn (undanþegin eru lyf, tóbak og vímuefni önnur en áfengi). Fyrirtæki sem framleiða efni og hluti sem ætlað er að koma í snertingu við matvæli. Fyrirtæki sem veita persónulega þjónustu, svo sem gististaðir, skólar, leikskólar, samkomuhús, starfsmannabústaðir, starfsmannabúðir, fangelsi, rakarastofur, hárgreiðslustofur og aðrar snyrtistofur, íþróttahús, baðstaðir, sundlaugar, sólbaðsstofur, sjúkrastofnanir, læknastofur, dvalarheimili og almenn flutningstæki. Fyrirtæki sem geta haft í för með sér mengun. Þar undir kemur eftirlit með almennri umgengni við fyrirtæki og eftirlit með öllum þeim úrgangi sem valdið getur skaða, mengun eða lýtum á umhverfinu hvort sem er á svæðum sem ætlaðir eru fyrir almenning eða einkalóðir. Auk þess skal heilbrigðiseftirlitið gefa út tóbakssöluleyfi og hafa eftirlit með ákveðnum þáttum tóbaksvarna. Heilbrigðiseftirlitinu ber einnig að taka þátt í almennum sóttvörnum ef með þarf (sbr. Covid 19). Þá eru allar ábendingar og kvartanir kannaðar og fylgt eftir eftir. U.þ.b.1300 fyrirtæki eru með starfsleyfi heilbrigðisnefndar og þess utan er sinnt leiðbeiningum og eftirliti með ýmisskonar starfsemi sem varðar matvælaöryggi, umhverfismál, hollustuhætti og öryggismál. Heilbrigðisfulltrúar veita umsagnir og ráðgjöf um ýmiss málefni, s.s. vegna skipulags, laga- og reglusetningar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd