Heilbrigðiseftirlit Suðurlands

  • 2022
    Samantekt úr Ísland 2020, atvinnuhættir og menning
    [acf_repeater_gallery repeater="company_timeline" gallery="section_images"]

    Heilbrigðiseftirlit Suðurlands bs. (HSL) er rekið sameiginlega af sveitarfélögunum á Suðurlandi og hefur starfað síðan 1. janúar 1984. Núverandi skipulag var innleitt með lögum nr. 7/1998 þ.e. með einni heilbrigðisnefnd fyrir svæðið allt, en fram að því voru á svæðinu 9 heilbrigðisnefndir undir einni svæðisnefnd. Heilbrigðisnefnd Suðurlands er málsvari HSL á milli aðalfunda og framfylgir samþykktum nefndarfunda og aðalfundar. Heilbrigðisnefndin vinnur að stefnumarkandi málum og gerir tillögur um ný mál er leggja skal fyrir aðalfund til ákvörðunar. Heilbrigðisnefndin fer jafnframt með yfirstjórn á rekstri HSL og ber ábyrgð á að rekstur sé innan þeirra fjárheimilda sem aðalfundur HSL hefur samþykkt. Á aðalfundi í kjölfar sveitarstjórnarkosninga eru 5 kosnir í Heilbrigðisnefnd til 4 ára. HSL er byggðasamlag 14 sveitarfélaga á Suðurlandi í samræmi við ákvæði í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 og taka þau fjárhagslega ábyrgð á rekstri þess. Rekstur heilbrigðiseftirlits er lögbundið verkefni sveitarfélaganna sem að því standa skv. ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 m.s.br. Þar segir m.a. „Ekkert sveitarfélag skal vera án heilbrigðiseftirlits“ og „Landið skiptist í eftirlitssvæði og skal heilbrigðisnefnd, kosin eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar“. Umdæmi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands nær frá Vífilfelli í vestri og að Skeiðarársandi í austri. Starfssvæðið nær upp á hálendið þar sem starfsleyfisskyld starfsemi er, t.d. sala gistingar í fjallaskálum og einstaka veitingastaðir. Vestmannaeyjar eru útvörður svæðisins í suðri. Sveitarfélögin sem standa að Heilbrigðiseftirliti Suðurlands eru: Ásahreppur, Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Skaftárhreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Sveitarfélagið Ölfus og Vestmannaeyjabær.

    Starfsemi
    Helstu verkefni Heilbrigðiseftirlits Suðurlands eru:
    Reglubundið eftirlit og leyfisveitingar. – Sýnataka og rannsóknir á neysluvatni, matvælum og umhverfi. – Umsagnir um veitinga- og gististaði vegna rekstrarleyfa og vegna tækifærisleyfa sem sýslumenn veita. – Umsagnir vegna skipulagsmála til skipulags- og byggingafulltrúa.
    Umsagnir vegna brennuleyfa sem sýslumenn veita. – Vöktun loftgæða og önnur umhverfis-vöktun. – Hreinsun á lóðum og lendum. – Skráning á framkvæmd eftirlits og niðurstöðum mælinga.
    Á árinu 2020 var fjöldi eftirlitsskyldra aðila 1538 sem er skipt gróflega upp í þrjú svið: Hollustuháttafyrirtæki, matvælafyrirtæki og mengandi fyrirtæki. Eftirlitsferðir vegna þeirra í reglubundnu eftirliti voru skv. eftirlitsáætlun alls 1016. Til viðbótar reglubundnu eftirliti eru heimsóknir vegna nýrra umsókna, ferðir vegna tilfallandi eftirlits, eftirfylgni vegna athugasemda og kvartana. Skráðar eftirlitsferðir á árinu voru alls 1172 talsins.

    Heildarfjöldi eftirlitsskyldra fyrirtækja skipt eftir sviðum og samanburður á fjölda milli ára.

    Undir hollustuháttafyrirtæki falla m.a. gististaðir, samkomustaðir, menntastofnanir, sund- og baðstaðir, náttúrulaugar, tjaldsvæði, snyrtistofur, heilbrigðisstofnanir, íþróttastöðvar o.fl. Fjöldi fyrirtækja á sviði hollustuhátta var 804 í lok árs 2020. Í flokki matvælafyrirtækja eru stóreldhús á hótelum, veitingastöðum og vinnustöðum, neysluvatnsveitur, matvöruverslanir, framleiðsla matvæla, s.s. bakarí o.fl. og ræktun og pökkun garðávaxta svo eitthvað sé nefnt. Í árslok 2020 var fjöldi fyrirtækja í þessum flokki 408, þar af er heildarfjöldi starfsleyfa vegna neysluvatnsveitna 144. Á árinu 2020 voru 326 aðilar með gilt starfsleyfi á umhverfis- og mengunarvarnarsviði sem eru, t.d. bensínstöðvar, jarðvarmavirkjanir, bílaverkstæði, alifuglabú og fráveitumannvirki. Mynd sýnir þróun í fjölda milli ára sem sýnir fjölgun verkefna hægt og sígandi milli ára og munar þar mest um aukningu í ferðaþjónustu á Suðurlandi. Þó má greina fækkun á árinu 2019 sem er væntanlega samdráttur í ferðaþjónustu og aftur 2020 sem er hægt skrifa á COVID-19 heimsfaraldurinn.
    Heilbrigðiseftirlitið heldur úti heimasíðu www.hsl.is sem er í stöðugri þróun. Þar eru umsóknareyðublöð og leiðbeiningar ýmiskonar ásamt fréttum o.fl. Á heimasíðunni eru birtar allar umsóknir vegna mengandi starfsleyfa jafnóðum og þær berst. Jafnframt eru auglýst þar starfsleyfisskilyrði fyrir mengandi starfsemi, sem og öll útgefin leyfi ásamt greinargerðum skv. reglugerð nr. 550/2018 um losun frá iðnaði og mengunarvarnareftirlit. Á heimasíðunni er jafnframt að finna lista yfir öll starfsleyfi í gildi hjá embættinu.
    Heilbrigðiseftirlit hefur lögbundnar skyldur við varðveislu skjala. Það er mikilvægur hluti starfseminnar að halda utan um mál og öll skjöl sem tengjast starfseminni.
    Á hverju ári taka heilbrigðisfulltrúar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands fjölda sýna með megináherslu á neysluvatn. Jafnframt er vel fylgst með sund- og baðstöðum og farið að jafnaði a.m.k. einu sinni á ári í sýnatökur á sund- og baðstaði og oftar ef þörf er á. Einnig er fylgst með fráveitum, matvælum og öðrum þáttum sem þurfa þykir hverju sinni. Sum sýni eru tekin sem hluti af samræmdum eftirlitsverkefnum á landsvísu en önnur sem hluti af reglubundnu eftirliti og sumar sýnatökur eru tilfallandi eða að sérstakar ástæður kalla á sýnatöku. Sýnatökur eru endurteknar standist sýni ekki þær gæðakröfur sem til þeirra eru gerð í viðeigandi reglugerð. Rekstraraðilum er gefinn frestur til endurbóta áður en til endurtekningar á sýnatöku kemur nema þegar verið er að staðfesta hugsanlega mengun eða smit. Í þeim tilfellum er ný sýnataka framkvæmd svo fljótt og auðið er eftir að niðurstöður liggja fyrir.

    Starfsmenn
    Framkvæmdastjóri er Sigrún Guðmundsdóttir. Starfsmenn hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands sem störfuðu við heilbrigðiseftirlit á árinu 2020 voru 8, allir með leyfisbréf sem heilbrigðisfulltrúar. Fjölbreytt menntun starfsmanna styður við hin fjölbreyttu verkefni sem við er að eiga og starfsreynsla starfsmanna er dýrmæt.

    Heilbrigðisnefnd
    Heilbrigðisnefnd Suðurlands 2018-2022

    Formaður:
    Helgi S. Haraldsson, Sveitarfélaginu Árborg
    Varaformaður:
    Guðrún S. Magnúsdóttir, Bláskógabyggð
    Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Hveragerðisbæ
    Páll Tómasson, Mýrdalshreppi
    Sigurhanna Friðþórsdóttir, Vestmannaeyjabæ
    Fulltrúi atvinnurekenda:
    Oddur Árnason, Rangárþingi eystra
    Varamenn:
    Guðbjörg Jónsdóttir, Sveitarfélaginu Árborg
    Sigurður Sigurjónsson, Hrunamannahreppi
    Grétar Ingi Erlendsson, Sveitarfélaginu Ölfusi
    Lilja Einarsdóttir, Rangárþingi eystra
    Arna Huld Sigurðardóttir, Vestmannaeyjabæ
    Varafulltrúi atvinnurekenda:
    Sigurður Rafn Hilmarsson

    Vefsíða: www.hsl.is

Stjórn

Stjórnendur

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands

Austurvegi 65
800 Selfossi
4808250

Atvinnugreinar

Upplýsingar

1 / ?

Lesa bókina