Alþingi samþykkti þann 18. maí 1981 lög um hollustuhætti og hollustuvernd. Í þessum lögum var lagður grunnur að heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna sem haldist hefur lítið breyttur til dagsins í dag. Í lögunum segir m.a: „Ekkert sveitarfélag skal vera án viðhlítandi hollustueftirlits og þjónustu hollustufulltrúa.“ Lögin hafa síðan tekið miklum breytingum, eins og gefur að skilja, þó svo að grunnkjarninn sé sá sami. Haustið eftir, nánar tiltekið þann 20. október 1982, var fyrsti fundur sameinaðrar heilbrigðisnefndar Suðurnesja (sem þá hét hollustunefnd) og má því segja að það sé stofndagur Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja (HES). Starfssvæði Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja eru sveitarfélögin fjögur á Suðurnesjum ásamt varnarsvæðum sem lúta yfirstjórn utanríkisráðherra.
Í heilbrigðisnefnd Suðurnesja sitja eftirfarandi fulltrúar
Suðurnesjabær – Haraldur Helgason, formaður (Jón Ragnar Ástþórsson til vara).
Reykjanesbær – Hanna Björg Konráðsdóttir (Jóhann Snorri Sigurbergsson til vara).
Ingvi Þór Hákonarson (Andri Freyr Stefánsson til vara).
Sveitarfélagið Vogar – Inga Rut Hlöðversdóttir (Áshildur Linnet til vara).
Grindavík – Birgitta Káradóttir (Jóna Rut Jónsdóttir til vara).
Fulltrúi atvinnurekanda á Suðurnesjum er Bergþóra Sigurjónsdóttir.
Í málum er varða varnarsvæðin í landinu gegnir Utanríkisráðuneytið hlutverki heilbrigðisnefndar.
Mannauður
Hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja starfa 6 starfsmenn í 5,7 stöðugildum. Þessu til viðbótar nýtur embættið þjónustu frá skrifstofu Sambands Sveitarfélaga á Suðurnesjum sem felst í leigu húsnæðis og kaupum á almennri skrifstofuþjónustu.
Starfsmenn embættisins á árinu 2020 voru: Magnús H. Guðjónsson, framkvæmdastjóri.
Ásmundur E. Þorkelsson, hollustuháttaeftirlit. Stefán B. Ólafsson, dýraeftirlit og meindýraeyðing
Sonja Hrund Steinarsdóttir, matvælaeftirlit. J. Trausti Jónsson, mengunareftirlit.
Helgi Haraldsson, umhverfiseftirlit.
Verkefni HES
Skipta má verkefnum HES í tvennt. Annarsvegar er eftirlit sem embættinu er skylt að sinna samkvæmt lögum og hinsvegar verkefni sem sveitarfélögin hafa falið embættinu að sinna sérstaklega. Lögboðið hlutverk HES er þrenns konar: Í fyrsta lagi að hafa eftirlit með allri framleiðslu, dreifingu og sölu á matvælum á Suðurnesjum þ.m.t. drykkjarvatni, í öðru lagi að hafa eftirlit með hollustuháttum og smitvörnum og í þriðja lagi að hafa eftirlit með allri umhverfismengandi starfsemi. Undanskilið þessu er eftirlit Matvælastofnunar með frumframleiðslunni og Umhverfisstofnunar með stóriðjunni.
Eftirlit með hollustuháttum felst í athugun og eftirfylgni með smitvörnum, hreinlæti, loftgæðum, hljóðvist, öryggismálum og tengdum þáttum á stöðum þar sem almenningur leitar þjónustu. Dæmi um starfsemi sem er leyfis- og eftirlitsskyld eru skólar, leikskólar, íþróttahús, sundstaðir, gististaðir, snyrtistofur, nuddstofur, heilbrigðisstofnanir, dvalarheimili, leiksvæði og samkomuhús. Veitingasalir veitingahúsa og skyndibitastaða falla einnig undir hollustuháttaeftirlit en eftirlit þar er að jafnaði samþættað reglubundnu matvælaeftirliti.
Um framleiðslu og dreifingu matvæla gilda lög nr. 93/1995 um matvæli og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Tilgangur laganna er að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar séu fullnægjandi. Dæmi um starfsemi sem fellur undir matvælaeftirlit eru matvöruverslanir, veitingahús, mötuneyti, söluturnar, bakarí, vöruflutningamiðstöðvar og kaffibrennslur. Eftirlit með neysluvatni er umfangsmikið og margþætt. Sýni eru tekin úr vatnsveitum, hjá notendum og í vatnsbólum í hverjum mánuði og flutt til rannsóknar. Dæmi um rekstur sem fellur undir þetta eftirlit eru vatnsveitur, vatnsból og aðilar sem annast afgreiðslu á neysluvatni til flugvéla.
Mengunarvarnaeftirlit felst í vinnslu starfsleyfistillagna og eftirliti með fyrirtækjum sem eru eftirlitsskyld samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Mengunarvarnaeftirlit tekur til eftirlits með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr umhverfismengun, eftirlits með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðslu um þessi mál, auk vöktunar umhverfisins. Dæmi um rekstur sem fellur undir umhverfiseftirlit eru fiskvinnslur, bifreiðaverkstæði, alþjóðaflugvellir, bílaþvottastöðvar, jarðvarmavirkjanir og þauleldi.
Fjármögnun
Sveitarfélögin eiga og bera ábyrgð á Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja og er þeim skylt að fjármagna starfsemina. Heimild er í lögum um að leggja gjöld á eftirlitsskyld fyrirtæki og skulu þau standa undir kostnaði við eftirliti með þeim. Þessa heimild hafa sveitarfélögin á Suðurnesjum nýtt sér frá árinu 1987. Gjaldskrá HES er birt í Stjórnartíðindum.
Önnur verkefni
Ýmis lögboðin verkefni HES tengjast ekki fyrirtækjum beint. Má þar til dæmis nefna eftirlit með umgengni á lóðum, húsnæðisskoðanir og samskipti við borgarana, oftast vegna ýmiskonar kvartana, matareitrana og mengunarslysa. Slík verkefni eru fjármögnuð af sveitarfélögunum. Ýmis önnur verkefni tilheyra rekstri embættis sem þessa, t.d. vinna við skipulagstillögur, þátttaka í fundum, vinnuhópum og ráðstefnum að ógleymdri endurmenntun starfsmanna.
Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur tekið að sér eftirlit með hundahaldi og meindýraeyðingu fyrir sveitarfélögin þó svo að slík verkefni falli ekki undir lögboðnar skyldur embættisins. Innheimt eru gjöld af hundaeigendum sem eiga að standa undir kostnaði við skráningarvinnu, ábyrgðartryggingu vegna skaða sem hundar geta valdið og eftirliti með lausagöngu. Hvað meindýraeyðinguna varðar greiða sveitarfélögin sérstaklega fyrir það.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd