Heilbrigðiseftirlit Vesturlands

2022

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands sem er eitt af tíu heilbrigðiseftirlitssvæðum á landinu var stofnað árið 1999 af sveitarfélögum á Vesturlandi. Árið 2020 er því 21. starfsár stofnunarinnar. Starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins sjá um daglegan rekstur heilbrigðiseftirlitsins og vinna þeir í umboði heilbrigðisnefndarinnar. Þeir sinna m.a. reglubundnu eftirliti og eftirfylgni með þeim úrbótum sem krafist er. Hlutverk heilbrigðiseftirlits er mjög fjölbreytilegt og spannar löggjöf sem snýr að matvælum, hollustuháttum og mengunarvörnum í landi og að stórstraumsfjörumörkum. Einnig sinna starfsmenn eftirliti skv. löggjöf sem snýr að veitinga- og gististarfsemi og tóbaksvörnum.

Heilbrigðisnefnd og starfsfólk
Heilbrigðisnefnd er staðbundið yfirvald á sínu sviði. Ákvarðanir nefndarinnar eru endanlegar í stjórnsýslunni sem þýðir að þær eru ekki bornar undir sveitarstjórnir. Í Heilbrigðisnefnd Vesturlands eru sjö fulltrúar, þar af fimm kosnir af sveitarstjórnum og einn tilnefndur af samtökum atvinnulífs á svæðinu. Auk þess á fulltrúi náttúruverndarnefnda áheyrnarrétt til setu á fundum nefndarinnar. Í Heilbrigðisnefnd Vesturlands sitja: Karítas Jónsdóttir, formaður, Auður Kjartansdóttir, Brynja Þorbjörnsdóttir, Jakob Björgvin Jakobsson og Silja Eyrún Steingrímsdóttir tilnefnd af sveitarstjórnum, Trausti Gylfason tilnefndur af atvinnulífi og Ragnhildur Sigurðardóttir tilnefnd af náttúruverndarsamtökum
Starfsmenn eftirlitsins eru þrír, Árni Gunnarsson heilbrigðisfulltrúi, Ása Hólmarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi og Þorsteinn Narfason, framkvæmdastjóri sem hóf störf í byrjun september 2020. Helgi Helgason, framkvæmdastjóri lét af störfum í lok apríl 2020 eftir 36 ára starf.

Staða heilbrigðisnefnda í stjórnsýslunni
Verkefni heilbrigðisnefnda sem snúa að matvælum falla undir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og hefur Matvælastofnun yfirumsjón með málaflokknum. Mengunarvarnir og hollustuháttamál heyra undir Umhverfis- og auðlindaráðuneyti og hefur Umhverfisstofnun yfirumsjón með þeim málum. Víðtækt samstarf er á milli aðila sem koma að borðinu m.a. til að samræma vinnubrögð og móta stefnu.

Starfsleyfi
Alls er 771 starfsleyfisskylt fyrirtæki á skrá hjá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands. Í starfsleyfum fyrirtækjanna er settur rammi utan um starfsemina eins og við á með tilvísun í löggjöf sem fyrirtækjunum ber að starfa eftir. Á bak við hvert fyrirtæki getur verð margþætt starfsemi sem þarf að fá eftirlit. Í leikskóla þarf til að mynda að taka út skólahúsnæði, mötuneyti og útileiksvæði. Heilbrigðiseftirlitið hefur einnig eftirlit með tímabundinni starfsemi, s.s. niðurrifi húsa og með færanlegri starfsemi eins og gæti átt við um malbikunarstarfsemi og matarvagna. Þá hefur heilbrigðiseftirlitið með höndum skoðun húsnæðis, s.s. vegna heilsuspillandi aðstæðna.

Eftirlitssvæði Heilbrigðiseftirlits Vesturlands er allt Vesturland.

Eftirlitsverkefni
Lögbundnu eftirliti er sinnt skv. eftirlitsáætlun þar sem tíðni eftirlits með fyrirtækjum er fyrir fram ákveðin og fer hún eftir áhættumati.
Í eftirlitsferðum ársins 2020 voru skilgreind 325 frávik þar sem fyrirtækjum var gefinn frestur til úrbóta. Heilbrigðisnefnd getur beitt tilteknum þvingunarúrræðum til þess að knýja á um framkvæmd í samræmi við lög um matvæli og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þeim aðilum sem ekki sætta sig við kröfur heilbrigðiseftirlits er heimilt að vísa málum til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál.

Eftirlit með matvælum
Til að gefa hugmynd um verkefni eftirlitsins þá má nefna að matvælaeftirlit felst í eftirliti skv. löggjöf um matvæli. Það felur í sér eftirlit með framleiðslu, flutningi, dreifingu, sölu og merkingu matvæla í þeim tilgangi að tryggja að matvæli séu örugg til neyslu og að upplýsingar um þau séu fullnægjandi fyrir neytendur. Eftirlit fer t.d. fram í matvöruverslunum, veitingahúsum og í vatnsveitum en neysluvatn er skilgreint sem matvæli. Vatnsveitur á svæðinu eru skoðaðar og reglulega eru tekin sýni af neysluvatni til að kanna gæði þess.

Eftirlit með hollustuháttum og öryggismálum
Eftirlit með hollustuháttum fer fram á hinum ýmsu stöðum þar sem almenningur leitar þjónustu. Á sundstöðum er haft er eftirlit með aðstöðu og heilnæmi sundlaugarvatns og aðstöðu og búnaði skóla, leikskóla og íþróttamannvirkja. Öryggismál þessara stofnana eru tekin út og m.a. kannað að leiktæki uppfylli kröfur sem gerðar eru. Einnig má nefna eftirlit með gistiaðstöðu, s.s. gistihúsum, sumarbúðum og starfsmannabúðum, aðstöðu og sóttvörnum í heilbrigðisþjónustu, s.s. á sjúkrahúsum, heilsugæslu, tannlæknastofum og snyrtistofum.

Eftirlit með starfsemi sem getur valdið mengun
Eftirlit með mengandi starfsemi felst m.a. í úttekt á að mengunarvarnabúnaður séu til staðar og virki. Að losun sé innan heimilda og að umgengni sé ásættanleg. Heilbrigðiseftirlitið hefur jafnframt aðkomu vegna loftgæða, hávaða og mengunar í umhverfi, s.s. í ám og vötnum, sem á við strandlengjuna.

Fræðsluhlutverk
Hlutverk heilbrigðisnefnda er að veita almenningi fræðslu á sínu sviði sem getur falist í að miðla leiðbeiningum og upplýsingum á útgefnu efni og af vef eftirlitsins. Unnið er í samvinnu við stjórnvöld og íbúa að því að uppfylla markmið laga og reglugerða. Stór hluti af verkefnum heilbrigðisfulltrúa er að veita umsagnir um nýja löggjöf, skipulagsmál og leyfisveitingu annarra stjórnavalda, s.s. sýslumanna og lögreglu.
Almenningur getur leitað til heilbrigðiseftirlits ef grunur er um að íbúðarhúsnæði sé heilsuspillandi og á hverju ári er farið í nokkrar slíkar heimsóknir. Helstu ástæður fyrir að húsnæði er metið heilsuspillandi er ef raki er til staðar í húsnæðinu sem getur verið grundvöllur fyrir myglu. Oftast er um að kenna lélegri loftræstingu þar sem loftun er gölluð, gluggar eru of litlir eða ekki opnaðir, ofnar bilaðir, loftræstikerfi er ekki til staðar eða bilað eða húsnæðið er ekki samþykkt til búsetu, t.d. með gluggalausum rýmum. Á vef Umhverfisstofnunar er að finna leiðbeiningar um raka og myglu.
Árið 2020 var unnið að því að útbúa áhættumatskerfi fyrir lítil vatnsból og tengja við gagnagrunn heilbrigðiseftirlitsins. Verkefnið var samstarfsverkefni nokkurra heilbrigðiseftirlitssvæða og Vatnaverkfræðistofu Háskóla Íslands. Verkefnið er aðkallandi þar sem talsvert algengara er að vatnsgæði lítilla vatnsbóla sé ábótavant. Algengustu áhættuþættir sem komið hafa í ljós í litlum vatnsbólum eru að þau eru ekki aðgengileg (t.d. niðurgrafin), yfirfallsrör vantar á vatnstökubrunn, dýraskítur finnst í næsta nágrenni við vatnsból og að meindýr geta mögulega komist í vatnsból. Það síðastnefnda á til dæmis við ef músanet vantar á útloftun. Ef brunnar sitja of neðarlega í landinu getur einnig við vissar aðstæður verið hætta á að ofanvatn komist í brunninn, t.d. í leysingum. Einnig er algengt að vatnsból séu óafgirt en gerð er krafa um að brunnsvæði sé afgirt með fjárheldri girðingu.
Heilbrigðiseftirlit Vesturlands heldur úti vefsetrinu www.hev.is, þar sem veittar eru upplýsingar um starfsemi eftirlitsins.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd