Saga heilbrigðisráðuneytisins í núverandi mynd nær aftur til 1. janúar 1970 þegar lög um Stjórnarráð Íslands tóku gildi og ráðuneyti heilbrigðis- og tryggingamála varð til. Þótt ýmsar breytingar hafi orðið á verkefnum ráðuneytisins frá stofnun þess eru þau enn í grundvallaratriðum þau sömu.
Núverandi heilbrigðisráðherra er Willum Þór Þórsson og tók hann við embættinu í nóvember 2021. Ráðuneytisstjóri er Ásta Valdimarsdóttir. Stöðugildi starfsfólks í heilbrigðisráðuneytinu eru tæplega 60. Í lögum um heilbrigðisþjónustu er kveðið á um grunnskipulag heilbrigðisþjónustunnar og að heilbrigðisráðherra fari með yfirstjórn heilbrigðismála og stefnumörkun. Verkefni ráðuneytisins varða einnig sjúkratryggingar, almannatryggingar, lífvísindi, lífsiðfræði, lýðheilsu og forvarnir. Þingsályktun um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi í júní 2019. Þar er sett fram sýn og markmið í þessum viðamikla málaflokki. Til að hrinda stefnunni í framkvæmd leggur ráðherra árlega fyrir Alþingi aðgerðaáætlun til næstu fimm ára.
Skipulag heilbrigðisþjónustunnar
Landinu er skipt upp í sjö heilbrigðisumdæmi og í hverju þeirra starfa heilbrigðisstofnanir og í sumum þeirra eru sjúkrahús. Heilbrigðisþjónusta fer einnig fram á starfsstofum heilbrigðisstarfsfólks, hjúkrunarheimilum og fjölmörgum öðrum stöðum. Rekstrarformið er fjölbreytt og áhersla er lögð á samvinnu milli heilbrigðistengdra úrræða og annarra úrræða utan heilbrigðiskerfisins. Mikilvægt er að öll ákvarðanataka og veitt þjónusta sé með þarfir einstaklingsins sem þarfnast þjónustunnar í forgrunni.
Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu er þjónustunni í megin atriðum skipt í þrjú stig. Markmiðið er að almenn grunnheilbrigðisþjónusta skuli veitt á fyrsta stigi innan heilsugæslunnar sem sé jafnan fyrsti viðkomustaður þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Annars stigs heilbrigðisþjónusta er nokkru sérhæfðari og er m.a. veitt á sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum og starfsstofum heilbrigðisstarfsfólks. Þriðja stigs heilbrigðisþjónusta er veitt á sjúkrahúsum og krefst sérstakrar kunnáttu, háþróaðrar tækni, dýrra og vandmeðfarinna lyfja og aðgengis að gjörgæslu.
Stofnanir heilbrigðisráðuneytisins
Fimmtán stofnanir heyra undir heilbrigðisráðuneytið. Þar af eru heilbrigðisstofnanir í hverju heilbrigðisumdæmanna sjö. Landspítali er aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús. Landspítali annast kennslu nema í grunn- og framhaldsnámi, veitir háskólamenntuðum starfsmönnum sérmenntun í heilbrigðisgreinum og stundar rannsóknir á heilbrigðissviði. Sjúkrahúsið á Akureyri veitir annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu, það er kennslusjúkrahús og hefur einnig það hlutverk að vera varasjúkrahús Landspítala.
Sjúkratryggingar Íslands annast meðal annars samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir sjúkratryggða fyrir hönd heilbrigðisráðuneytisins og framkvæmd sjúkratrygginga. Embætti landlæknis annast eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsfólki, sinnir forvörnum og heilsueflingu og vinnur að gæðaþróun auk margra annarra verkefna. Lyfjastofnun gefur út markaðsleyfi fyrir lyf á Íslandi, hefur eftirlit með lyfjaiðnaðinum á Íslandi og sinnir upplýsingagjöf til heilbrigðisstarfsfólks og neytenda. Aðrar stofnanir ráðuneytisins eru Geislavarnir ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og Vísindasiðanefnd.
Áskoranir og áherslur
Verkefnin á sviði heilbrigðismála eru margvísleg og viðamikil. Þróun heilbrigðisþjónustunnar, fjármögnun og mönnun hennar til framtíðar eru viðvarandi verkefni. Tæpur þriðjungur af árlegum heildarútgjöldum ríkissjóðs rennur til heilbrigðismála. Því skiptir máli hvernig þeim fjármunum er varið. Í heimsfaraldri COVID-19 kom berlega í ljós hversu öflug heilbrigðisþjónusta er á Íslandi og hversu miklu máli skiptir fyrir almenna velferð að stoðir heilbrigðiskerfisins séu traustar. Þjóðin eldist, landsmönnum fjölgar og þörf fyrir heilbrigðisþjónustu heldur áfram að aukast.
Heilbrigðisráðuneytið hefur sett nýsköpun, vísindi og tækninýjungar í forgrunn. Einnig stendur yfir uppbygging nýs Landspítala við Hringbraut sem er eitt stærsta uppbyggingarverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi. Unnið er að byggingu nýrra hjúkrunarheimila til að mæta vaxandi þörf fyrir hjúkrunarrými en samhliða er unnið að því að fjölga úrræðum sem auka möguleika fólks á að búa sem lengst heima í sjálfstæðri búsetu.
Til framtíðar
Eitt af meginmarkmiðum heilbrigðisráðuneytisins er að gera fólki betur kleift að huga að eigin heilsu með því að nýta alla þá þekkingu og úrræði sem eru fyrir hendi í samfélaginu. Líkt og bent er á í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru það sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, efnahags- og félagslegir, að aukin áhersla sé lögð á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál. Aukin áhersla heilbrigðisráðuneytisins á lýðheilsu mun bæði endurspeglast í aðgerðaáætlun í lýðheilsumálum og hinu árlega heilbrigðisþingi í nóvember 2022 sem verður helgað lýðheilsu. Þá er ekki síður mikilvægt að markviss áætlun um aðgerðir í geðheilbrigðismálum hefur verið mótuð og mun koma fyrir þingið sem þingsályktun. Að lokum má nefna aukna áherslu á endurhæfingu og tengd úrræði því fátt er verðmætara en að aðstoða einstaklinga við að ná upp tapaðri færni til að geta haldið sjálfstæði sínu, lífsgæðum og virkni í samfélaginu.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd