Heilbrigðisstofnun Austurlands

2022

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) sinnir heilbrigðisþjónustu á Austurlandi, á alls um
16.200 ferkílómetra svæði allt frá Bakkafirði til Álftafjarðar, frá hálendi til strandar. Íbúafjöldi á Austurlandi er um 13 þúsund manns. HSA er ríkisrekin þjónustustofnun sem hóf starfsemi sína 1. janúar 1999 og veitir alhliða heilsugæslu-, sjúkra- og hjúkrunarþjónustu. Að auki heyra sjúkraflutningar svæðisins undir stofnunina.

Þjónusta
Við tilurð hennar sameinuðust átta heilbrigðisstofnanir á Austurlandi í eina. Markmiðin með stofnun HSA voru m.a. að tryggja íbúum góða heilbrigðisþjónustu og styrkja þjónustusvæðið sem stofnunin nær til, t.d. með bættri mönnun, samvinnu og samnýtingu. Meginhlutverk HSA er að veita íbúum Austurlands og öðrum er þar dvelja, aðgengilega og eftir megni sam- fellda og alhliða heilbrigðisþjónustu á sviði heimilislækninga, hjúkrunar og heilsuverndar, sem og almenna sjúkrahúsþjónustu, í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Hver starfsstöð og starfsmenn hennar gegna mikilvægu hlutverki sem hlekkur í samfelldri þjónustukeðju HSA, sem byggja skal á þekkingu, þverfaglegri samvinnu og þjónustulund og á þátt í að skapa ímynd HSA.
Hjá HSA starfa um 420 manns og starfsstöðvar eru 13 talsins. Umdæmissjúkrahús Austurlands er í Neskaupstað. Í stærri þéttbýliskjörnum eru heilsugæslustöðvar auk ýmissar stoðþjónustu og svonefnd heilsugæslusel á minni stöðunum.

Helstu viðfangsefni HSA
Lækningar og hjúkrun – Hjúkrunarþjónusta við aldraða – Heimahjúkrun – Fæðingarþjónusta og ungbarnavernd – Endurhæfing – Skólaheilsugæsla – Rannsóknir – Kennsla.
Lögð er rík áhersla á þverfaglegt starf innan stofnunarinnar, undir einkunnarorðunum:
Samvinna um velferð. Allt starf HSA miðar að því að eiga samvinnu um velferð íbúa Austurlands.

Stjórnendur
Í framkvæmdastjórn HSA árið 2021 sitja eftirtaldir: Guðjón Hauksson forstjóri, Pétur Heimisson framkvæmdastjóri lækninga, Nína Hrönn Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar, Emil Sigurjónsson framkvæmdastjóri mannauðs, Svava Ingibjörg Sveinbjörnsdóttir framkvæmdastjóri fjármála.

Markmið
Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur tekið þá ákvörðun að marka stefnu sem varðar þjónustu stofnunarinnar til framtíðar og verður þar stuðst við heilsueflandi áherslur. Meginmarkmið er að efla menningu sem stuðlar að betri heilsu og vellíðan (e. salutogenic culture) í öllu starfi HSA. HSA hefur unnið undir handleiðslu Institute for Positive Health í Hollandi og haustið 2019 fóru nokkrir starfsmenn HSA í heimsókn og þjálfum með þann tilgang að efla stofnunina sem heilsueflandi vinnustað og þjónustustofnun. Í janúar 2020 fengu síðan bæði stjórnendur og starfsmenn HSA fræðslu um heilsueflandi stjórnunarhætti og hvernig standa megi að innleiðingu þeirra.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd