Þann 1. október 2014 tók Heilbrigðisstofnun Norðurlands til starfa en þá voru sex heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi sameinaðar. Þetta voru Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Heilbrigðisstofnunin Fjallabyggð, Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki, Heilbrigðisstofnunin Blönduósi, Heilsugæslan á Akureyri og Heilsugæslan á Dalvík.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands hefur það hlutverk að þjóna íbúum á svæðinu allt frá Blönduósi í vestri og til Þórshafnar í austri, en á þessu svæði búa um 37.000 manns. Stofnunin veitir heilsugæslu- og sjúkrahúsþjónustu auk þess að veita öldrunarþjónustu í formi hjúkrunar- og dvalarrýma. Stofnunin samanstendur af 19 starfseiningum og er með um 590 starfsmenn í 384 stöðugildum, ársvelta hennar er um 7,5 milljarðar.
Heilsugæslusvið HSN
Undir heilsugæslusvið HSN heyrir heilsuvernd og lækningar í þágu íbúa svæðisins með því að tryggja grunnþjónustu á sviði heilsuverndar, læknis- og hjúkrunarþjónustu sem byggir á þverfaglegu samstarfi. Nær þjónustan yfir móttöku og vaktþjónustu heilsugæslulækna, heimahjúkrun og hjúkrunarþjónustu. Auk þess að sjá um ungbarna- og mæðravernd og heilsuvernd í skólunum. Þar að auki nær þjónustan yfir sjúkraflutninga, þjónustu sérfræðilækna og annarrar heilsuverndar. Þjónustan sem heilsugæslusviðið veitir miðar að því efla, bæta og viðhalda heilbrigði sem svo eykur vellíðan og velferð.
Meðgönguvernd fellur í hlut ljósmæðra en þær eiga gott samstarf við lækna HSN og fæðingarlækna á Sjúkrahúsinu á Akureyri. En hún miðar að því að fylgjast með og stuðla að heilbrigði móður og barns á meðgöngutímanum, sem og veita stuðning og ráðgjöf til verðandi foreldra. Eins er reynt að fyrirbyggja og greina áhættuþætti og brugðist við þeim.
Eftir að barnið kemur í heiminn þá tekur við ung- og smábarnavernd, þar er lögð áhersla á stuðning við fjölskylduna en með því er stuðlað að bestu uppvaxtarskilyrðum hverju sinni. Boðið er upp á heimavitjun fyrstu vikurnar en að þeim tíma loknum þá fara allar skoðanir fram á heilsugæslustöðvum.
Heilsuvernd grunnskólabarna er með það að markmiði að efla heilbrigði þeirra og stuðla að vellíðan. Skipulagri heilbrigðisfræðslu er sinnt og hvatt til heilbrigðra lífshátta. Unnið er náið með forráðamönnum barnanna sem og öðrum er koma að málefnum þeirra með velferð þeirra að markmiði. En í því flest að veita fræðslu og ráðgjöf, heilsufarsskoðanir og bólusetningar.
Á vegum heilsugæslustöðvanna er heimahjúkrun sem er þjónusta fyrir einstaklinga sem hennar þarfnast. En markmiðið með henni er að gera fólki, á öllum aldri, það mögulegt að búa sem lengst heima hjá sér. Fólki sem þarf á að halda einstaklingsmiðaðri og markvissri hjúkrun til að geta lifað sem eðlilegustu lífi og með því að styrkja andlegt og líkamlegt heilbrigði ásamt því að draga út félagslegri einangrun.
Sjúkrasvið HSN
Heilbrigðisstofnun Norðurlands sér um rekstur sjúkrasviðs á Húsavík, SIglufirði, Sauðárkróki og Blönduósi. Það er hlutverk sjúkrahúsanna að veita almenna sjúkrahúsþjónustu og fjölbreytta sérfæðiþjónustu, móttöku á bráðveiku fólki, sem og langveikum og öldruðum sem næst heimabyggð. Eins má þar finna viðeigandi stoðþjónustu eins og aðstöðu fyrir rannsóknir og röntgenmyndatöku. Einnig eru starfrækt 128 hjúkrunar- og dvalarrými á Húsavík, Siglufirði, Sauðárkróki og Blönduósi, ásamt rýmum á Hvammi, dvalarheimili aldraðra.
COVID-19
Baráttan við COVID-19 fór ekki framhjá neinum og sér í lagi heilbrigðisþjónustan, en hún hafði margvísleg áhrif á starfsemi HSN. Ferðamaður lét lífið á Húsavík og setti í kjölfarið 21 starfsmenn í sóttkví en frá þeim tímapunkti þá breyttist umhverfið og var farið í margvíslegar breytingar á starfseminni. Aðalverkefnið var að halda allri þjónustu gangandi þrátt fyrir hinar ýmsu hömlur sem voru settar á. Fjöldi fólks sinnti störfum að heiman, starfsfólki var skipt upp í hópa til að lágmarka samgang og ýmsar hamlandi reglur settar svo sem heimsóknarbann á legudeildir.
Stjórnendur
Forstjóri: Jón Helgi Björnsson
Framkvæmdastjórar: Þórhallur Harðarson, framkvæmdastjóri fjármála og stoðsviða
Guðný Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar
Örn Ragnarsson, framkvæmdastjóri lækninga
Bryndís Lilja Hallsdóttir, mannauðsstjóri.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd