Heilbrigðisstofnun Suðurlands

2022

Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) var stofnuð 1. október 2014, við sameiningu Heilbrigðisstofnunar Suð-Austurlands, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Heilbrigðis-stofnunarinnar í Vestmannaeyjum. Formleg sameining tók gildi 1. janúar 2015. Starfsemin á Höfn í Hornafirði var fyrst um sinn rekin af Sveitarfélagi Hornarfjarðar en sameinaðist HSU í ársbyrjun 2020. Markmið með sameiningu heilbrigðisstofnana á Suðurlandi var að styrkja heilbrigðisþjónustu á svæðinu, samnýta fagþekkingu og hæfni starfsfólks ásamt því að veita betri og hagkvæmari þjónustu.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands starfar samkvæmt lögum, reglugerðum og fyrirmælum stjórnvalda um heilbrigðisþjónustu. Íbúafjöldi í umdæminu er um 31.000 þúsund manns og fer samfélagið ört vaxandi. Á Suðurlandi eru nokkrir fjölsóttustu ferðamannastaðir landsins sem hefur haft í för með sér mikla umferð ferðafólks. Þá eru hátt í sjö þúsund frístundahús á svæðinu sem mörg hver eru nýtt stóran hluta ársins.

Hlutverk
Hlutverk HSU er að móta, þróa og útfæra heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæminu og tryggja íbúum Suðurlands og öðrum þjónustuþegum jafnan aðgang að bestu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er tök á að veita.

Mannauður
Styrkleikar HSU er mannauðurinn en hjá stofnuninni starfa um 560 manns. Þetta er stór og öflugur hópur af bæði faglærðum og ófaglærðum starfsmönnum. Innan HSU er lögð áhersla á öfluga teymisvinnu til að auka starfsánægju starfsfólks, tryggja gæði þjónustunnar ásamt því að auka ánægju sjúklinga.

Heilsugæslustöðvar HSU
HSU starfrækir 9 heilsugæslustöðvar á 10 starfsstöðvum, tvö sjúkrahús, eitt á Selfossi og annað í Vestmannaeyjum. Á Höfn í Hornafirði eru 3 bráðarými. Að auki eru hjúkrunar- og hvíldarrými rekin á Selfossi og Vestmannaeyjum. Á Selfossi er opin bráðamóttaka allan sólarhringinn og á öllum heilsugæslustöðvum HSU er bráðavakt fyrir neyðartilfelli. Á þessu herrans ári 2020 hefur heimsfaraldurinn COVID-19 haft veruleg áhrif á þjónustu heilsugæslunnar og sett sinn svip á starfsemi HSU.
Heilsugæslustöðvar HSU eru staðsettar í Þorlákshöfn, Hveragerði, Laugarási, Selfossi, Hellu, Hvolsvelli, Vestmannaeyjum, Vík í Mýrdal, Kirkjubæjarklaustri og Höfn í Hornafirði. Á öllum stöðvunum er veitt grunnþjónusta með áherslu á forvarnir og fræðslu. Þar er einnig móttaka sjúklinga, bráða-og slysaþjónusta, vaktþjónusta, skólaheilsugæsla, heimahjúkrun, mæðra- og ungbarnavernd, hjúkrunarfræðiþjónusta, sálfræðiþjónusta og móttaka ýmissa sérfræðilækna.

Starfsemin
Stofnunin annast alla sjúkraflutninga á Suðurlandi. Aðalstarfsstöð sjúkraflutninga er á Selfossi, en alls eru starfsstöðvarnar 6 talsins sem saman sinna víðfeðmasta svæði landsins.

Á lyflækningadeildum HSU fer fram almenn lyflækningaþjónusta og bráðaþjónusta í lyflækningum. Flestir sjúklingar sem leggjast inn koma vegna bráðra veikinda, endurhæfingar eða vegna legu í kjölfar skurðaðgerða, meðferðar vegna langvinnra sjúkdóma eða líknandi meðferðar.

Á hjúkrunardeildunum HSU er veitt einstaklingshæfð hjúkrun og unnið er eftir Eden-hugmyndafræðinni. Starfsfólk metur meðferð og úrræði í samvinnu við aðstandendur viðkomandi. Vinafélag hjúkrunardeildanna á Selfossi styðja við tómstunda- og afþreyingarstarf heimilisfólksins en framlag þeirra hefur fært tilbreytingu inn í daglegt líf þeirra.

Göngudeildir lyflækninga eru reknar á Selfossi og í Vestmannaeyjum. Þar fara m.a fram lyfjagjafir, krabbameinsmeðferðir og blóðskilun.

Við HSU starfa sjúkraþjálfarar sem sinna m.a. endurhæfingu á lyflækningadeild og á hjúkrunardeildum auk þess að sinna hjólaþjálfun þeirra sem koma í blóðskilun. Iðjuþjálfi sinnir iðjuþjálfun barna á Suðurlandi í samstarfi við skólaþjónustu á Suðurlandi og þjónustusvæði um málefni fatlaðra á Suðurlandi.

Rannsóknarstofur og myndgreiningardeildir eru á Selfossi og í Vestmannaeyjum. Á rannsóknarstofum HSU eru framkvæmdar rannsóknir í blóðmeinafræði, klínískri lífefnafræði og sýklafræði. Á myndgreiningardeildunum eru framkvæmdar almennar röntgenrannsóknir og tölvusneiðmyndarannsóknir.

Á Selfossi eru ljósmæðrastýrðar fæðingar í boði en ljósmæðravakt HSU sinnir m.a. fæðingum og mæðravernd. Ljósmæður annast einnig allt meðgöngueftirlit og konur með meðgöngutengd vandamál sem þurfa stutta innlögn eða göngudeildarþjónustu. Innkaupadeild er rekin á Selfossi og sinnir innkaupum fyrir allar deildir HSU. Heilbrigðisgagnafræðingar sinna skráningu, meðhöndlun, utanumhald og frágangi á heilbrigðisupplýsingum í rafræna sjúkraskrá. Móttökuritarar starfa á öllum stöðvum við símvörslu, almenna móttöku og tímabókanir. Eldhús er starfrækt á Selfossi og í Vestmannaeyjum en þar er matreiddur matur fyrir alla sjúklinga og heimilismenn og rekin mötuneyti fyrir starfsfólk. Umsjónarmenn fasteigna sjá um viðhald fasteigna, bílaflota stofnunarinnar, stórra tækja og kerfa. Þvottahús er rekið á Selfossi og fjöldi starfsmanna starfar við ræstingar á öllum deildum og stöðvum HSU
.
Stjórn
Framkvæmdastjórn starfar á skrifstofu HSU og fer með faglega og rekstrarlega ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar. Skrifstofan sinnir öllum fjármálum, áætlunum, upplýsingamálum, bókhaldi, innheimtu og uppgjörum, útreikningum launa og starfsmannamálum.

Markmið
Þjónustumarkmið HSU byggja á gildum stofnunarinnar um fagmennsku, virðingu og samvinnu. Velferð og þarfir þjónustuþega er leiðarljós starfsmanna HSU.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd