Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) samanstendur af átta starfsstöðvum og veitir almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæmi Vesturlands í samræmi við lög og reglur á hverjum tíma. Þjónustan er veitt íbúum umdæmisins og öðrum sem eftir henni leita. Kjarnastarfsemin skiptist á þrjú málefnasvið eftir meginviðfangsefnum; heilsugæslusvið, hjúkrunarsvið og sjúkrasvið.
Heilbrigðisumdæmi Vesturlands nær yfir sveitarfélögin Akraneskaupstað, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshrepp, Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshrepp, Snæfellsbæ, Grundarfjarðarbæ, Helgafellssveit, Stykkishólmsbæ, Dalabyggð, Reykhólahrepp, Strandabyggð, Kaldrana-neshrepp, Árneshrepp og Húnaþing vestra. Íbúafjöldi svæðisins er um 18.700.
Starfsfólk og aðsetur
Á Heilbrigðisstofnun Vesturlands starfa 426 starfsmenn í 260 stöðugildum. Starfsmannavelta á árinu 2019 var 4,5%. Aðalskrifstofa HVE er að Merkigerði 9 á Akranesi.
Heilsugæslusvið
Hlutverk heilsugæslusviðs er að veita læknisþjónustu, hjúkrun, geðheilbrigðisþjónustu, heilsuvernd, forvarnir, slysa- og bráðaþjónustu og annast sjúkraflutninga. Áhersla er á góða og skilvirka þjónustu, aukna þverfaglega teymisvinnu, rétta nýtingu mannafla og leiðir til að virkja notendur heilbrigðisþjónustunnar betur. HVE rekur átta heilsugæslustöðvar, þ.e. á Akranesi, í Borgarnesi, í Búðardal, í Grundarfirði, á Hólmavík, á Hvammstanga, í Stykkishólmi og í Ólafsvík. Umfang og þjónustuþörf helst í hendur við íbúafjölda sem hver heilsugæslustöð sinnir og er á bilinu 609 til 8.159 íbúar. Þjónustuþörf hefur vaxið mest á heilsugæslustöð HVE á Akranesi þar sem íbúum hefur fjölgað um tæplega 1.000 frá árinu 2010. Heildarfjöldi samskipta á heilsugæslusviði á árinu 2019 var 128.560 og vitjanir í heimahjúkrun voru 19.434. Á heilsugæslusviði eru 95 starfsmenn í 69 stöðugildum auk 42 sjúkraflutningamanna á bakvöktum.
Starfsemin
Starfsemi flestra heilsugæslustöðva hefur breyst undanfarin ár með tilkomu fleiri starfssétta og aukinni teymisvinnu. Farin er að sjást breyting vegna tilflutnings verkefna milli starfsstétta og enn frekari tækifæri felast í að nýta þekkingu og getu hverrar heilbrigðisstéttar betur. Farið er að hylla undir innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu innan heilsugæslusviðs.
Hjúkrunarsvið
Hlutverk hjúkrunarsviðs er að starfrækja hjúkrunarrými á starfsvæðinu þar sem slík þjónusta er ekki veitt af öðrum. Á Hólmavík og á Hvammstanga eru hjúkrunardeildir. Lögð er áhersla á að veita góða þjónustu í heimilislegu umhverfi í samræmi við lög um málefni aldraðra. Boðið er upp á hvíldar- og endurhæfingarinnlagnir til að styðja við möguleika einstaklinga til að búa á eigin heimili eins lengi og kostur er. Lögð er áhersla á að fylgja þróun og nýjungum innan öldrunarþjónustu og að fylgst sé með gæðum og öryggi þjónustunnar. Samhliða hjúkrunarrýmum er eitt sjúkrarými á Hólmavík, tvö á Hvammstanga og nokkur á sjúkradeildinni í Stykkishólmi sem nýtt eru fyrir vægari sjúkdómstilfelli er krefjast innlagnar, fyrir dvöl að lokinni meðferð á Landspítala, Akranesi og öðrum heilbrigðisstofnunum, fyrir endurhæfingu og líknandi meðferð. Heilsugæslulæknar sinna læknisþjónustu á þessum deildum. Á árinu 2019 voru 2.652 legudagar á Hólmvík, 5.399 á Hvammstanga og 1.527 á sjúkradeildinni í Stykkishólmi.
Sjúkrasvið
Hlutverk sjúkrasviðs er að starfrækja umdæmissjúkrahús með almennri sjúkrahúsþjónustu og sérfræðiþjónustu, endurhæfingu og almenn sjúkrarými. Á Akranesi er öflugt umdæmis-sjúkrahús sem þjónar íbúum heilbrigðisumdæmis Vesturlands og öðrum sem eftir þjónustu leita. Auk almennrar sjúkrahúsþjónustu er þar veitt fjölbreytt sérfræðiþjónusta á sviði lyflækninga, almennra skurðlækninga, bæklunarlækninga, kvensjúkdómalækninga og fæðingahjálpar fyrir inniliggjandi sjúklinga og á göngudeildum. Sérstök áhersla er lögð á örugga sólarhringsþjónustu. Á árinu 2019 voru 603 innlagnir á handlækningadeild, 818 á lyflækningadeild og á kvennadeild voru 586 innlagnir og 348 fæðingar. Gerðar voru 2072 skurðaðgerðir á skurðastofu og samtals 23.809 komur voru á slysa- og göngudeildir sjúkrahússins. Í Stykkishólmi er sérhæfð endurhæfingardeild sem sinnir meðferð við háls- og bakvandamálum sem stendur öllum landsmönnum til boða. Deildin hefur rými fyrir 11 sjúklinga í senn og alls 207 fengu meðferð þar árið 2019. Á hjúkrunar- og sjúkrasviði eru 289 starfsmenn í 191 stöðugildi. Á HVE er lögð er áhersla á virðingu, traust og fagmennsku. Velferð skjólstæðinga skal höfð að leiðarljósi. Stuðlað er að virkri sí- og endurmenntun starfsfólks.
HVE tekur þátt í menntun heilbrigðisstétta í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og aðrar menntastofnanir.
HVE – Akranesi, Merkigerði 9, 300 Akranes
HVE – Akranesi skiptist í sjúkrahús og heilsugæslustöð.
Heilsugæslustöðin veitir almenna heilsugæsluþjónustu fyrir íbúa í heilsugæsluumdæmi Akraness.
Sjúkrahúsið er deildaskipt sjúkrahús. Aðalupptökusvæðið er vestur- og norðvesturhluti landsins. Veitt er fjölþætt sérfræðiþjónusta með viðbúnaði til móttöku og meðferðar bráðveikra allan sólarhringinn. Íbúum höfuðborgarsvæðisins og öðrum landsmönnum er í vaxandi mæli boðin sérfræðiþjónusta í tilteknum greinum.
HVE tekur þátt í menntun heilbrigðisstétta í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og aðrar menntastofnanir. Starfsmenn HVE Akranesi eru um 220 talsins. Íbúar í umdæminu eru ríflega 7.200.
HVE – Borgarnesi, Borgarbraut 54, 310 Borgarnes
Heilsugæslustöðin í Borgarnesi veitir almenna heilsugæsluþjónustu fyrir íbúa heilsugæsluumdæmisins sem samanstendur af Borgarbyggð, Skorradalshreppi og Eyja- og Miklaholtshreppi. Að auki eru innan umdæmisins tvö háskólaþorp, Bifröst og Hvanneyri, ásamt fjölda sumarbústaða þar sem íbúar eru almennt ekki skráðir með fasta búsetu.
Heilsugæslustöðin Borgarnesi var formlega opnuð 10. janúar 1976 og var fyrsta heilsugæslustöð landsins. Starfsmenn HVE í Borgarnesi eru um 20 talsins. Íbúafjöldi upptökusvæðisins er u.þ.b. 3.750.
HVE – Búðardal, Gunnarsbraut 2, 370 Búðardalur
Heilsugæslustöðvarnar í Búðardal og á Reykhólum veita íbúum Dalabyggðar og Reykhólahrepps almenna heilsugæsluþjónustu.
Læknishéruðin í Búðardal og á Reykhólum voru sameinuð í eitt hérað með lögum árið 1974 og þannig stofnuð Heilsugæslustöðin Búðardal. Starfsemin flutti í nýtt húsnæði í Búðardal þann 1. nóvember 1978 og í núverandi húsnæði við Hellisbraut á Reykhólum í september 1983. Við HVE Búðardal starfa nú um 10 manns. Íbúafjöldi á svæði HVE Búðardals er u.þ.b. 1.000 talsins.
HVE – Grundarfjörður, Hrannarstíg 7, 350 Grundarfjörður
Heilsugæslustöð hefur verið starfrækt í Grundarfirði frá árinu 1974. Heilsugæslustöðin í núverandi húsnæði var tekin í notkun árið 1994.
Starfssvæði stöðvarinnar nær frá Berserkseyri að Búlandshöfða í Eyrarsveit á Snæfellsnesi.
Fjöldi íbúa á starfssvæðinu er ríflega 900 manns. Starfsfólk stöðvarinnar eru 10 manns.
HVE – Hólmavík, Borgabraut 6 8, 510 Hólmavík
HVE á Hólmavík skiptist í heilsugæslustöð og hjúkrunardeild.
Heilsugæslustöð hefur verið starfrækt í núverandi húsnæði frá árinu 1985. Heilsugæslustöðin þjónar íbúum Árneshrepps, Kaldrananeshrepps og Strandabyggðar.
Hjúkrunardeildin var byggð á árunum 1948-50 sem læknabústaður og sjúkraskýli. Árið 2003 var tekin í notkun ný viðbygging, samhliða því voru gerðar endurbætur á eldra húsnæði. Starfsmenn eru 28 og íbúar á upptökusvæðinu eru u.þ.b. 650.
HVE – Hvammstanga, Spítalastíg 1, 530 Hvammstangi
HVE á Hvammstanga skiptist í hjúkrunardeild og heilsugæslustöð og þjónar Hvammstangalæknishéraði sem er Húnaþing vestra að meðtöldum Bæjarhreppi sem sameinaðist Húnaþingi Vestra 1. janúar 2012. Einnig er boðið upp á dagþjónustu fyrir eldra fólk í héraðinu. Starfsmenn HVE Hvammstanga eru í kringum 45 talsins Fjöldi íbúa á starfssvæðinu er u.þ.b. 1.200.
HVE – Ólafsvík, Engihlíð 28, 355 Ólafsvík
Heilsugæslustöð hefur verið starfrækt í Ólafsvík frá árinu 1971. Fyrsta húsnæðið var að Hjarðartúni 6, síðan flytur stöðin í núverandi húsnæði í lok árs 1986. Starfssvæði stöðvarinnar er Snæfellsbær sem er Fróðárhreppur, Staðarsveit, Breiðuvík, Hellissandur, Rif og Ólafsvík. Við stöðina starfa nú um 10 manns. Fjöldi íbúa á starfssvæðinu er um það bil 1.700.
HVE – Stykkishólmi, Austurgötu 7, 340 Stykkishólmur
HVE – Stykkishólmi skiptist í sjúkradeild og heilsugæslustöð. Umdæmi heilsugæslunnar í Stykkishólmi nær yfir Stykkishólmsbæ og Helgafellssveit. Árið 1936 tók St. Franciskusspítali til starfa og um árabil bjuggu og störfuðu kaþólskar nunnur í tengslum við spítalann. Á þeirra vegum var m.a. sett á laggirnar prentsmiðja og leikskóli og hvorutveggja starfrækt um árafjöld. Árið 2006 festi ríkissjóður kaup á eignarhluta reglunnar í St. Franciskusspítalanum í Stykkishólmi.
Sérhæfð deild fyrir háls- og bakvandamál tekur við sjúklingum á landsvísu.
Við HVE Stykkishólmi starfa í kringum 60 manns. Fjöldi íbúa á starfssvæðinu er u.þ.b. 1.160.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd