Markmið Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) er að veita þeim sem til hennar leita áhrifaríka og góða heilbrigðisþjónustu sem er samfelld, aðgengileg og heildræn.
Í því skyni rekur HH fimmtán heilsugæslustöðvar sem eru dreifðar um höfuðborgarsvæðið og einnig starfstöðvar sem veita sérhæfðari þjónustu til viðbótar við þjónustu heilsugæslustöðvanna. Sérþjónustan er ýmist á landsvísu, fyrir höfuðborgarsvæðið eða hluta þess. Gildi HH eru virðing, samvinna, fagmennska.
Umfang
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er næst stærsta heilbrigðisstofnunin á landinu.
Starfsmenn stofnunarinnar í árslok 2019 voru 652 í 522 ársverkum. Meirihluti ársverka er unnin hjá heilsugæslustöðvunum eða 341 og 181 í sérþjóunustu. Starfsstöðvar HH eru í 21 húsi í fimm sveitarfélögum. Þá eru ótaldir tugir skóla þar sem um 25.000 þúsund börn fá heilsuvernd skólabarna, nokkur hjúkrunarheimili þar sem HH kemur að læknisþjónustu og fangelsi. Á hverju ári eru þúsundir einkaheimila heimsótt í vitjunum starfsmanna, einkum í heimahjúkrun og ung- og smábarnavernd.
Heilsugæsluþjónusta
Heilsugæslustöðvarnar sinna fjölbreyttum verkefnum á sviði heilsugæslu sem byggja á traustum grunni en hafa þróast í takt við tímann og bestu fáanlega þekkingu. Þar á meðal eru hefðbundin verkefni svo sem almenn læknisþjónusta, mæðravernd, ung- og smábarnavernd, heilsuvernd skólabarna, heilsuvernd eldra fólks og ónæmisaðgerðir. Meðal nýrri verkefna á heilsugæslustöðvum eru sálfræðiþjónusta og aðkoma sjúkraþjálfara í hreyfiseðlameðferð.
Heilsugæslustöðvarnar eru allar með opna móttöku á dagvinnutíma þar sem veitt er bráðaþjónusta vegna skyndilegra veikinda og smáslysa. Undanfarin ár hefur verið unnið að því í samstarfi við Landspítala að beina ákveðnum erindum frá Bráðamóttöku til heilsugæslustöðvanna öllum til hagsbóta. Þetta átak hefur borið mælanlegan árangur.
Heilsugæslustöðvarnar leggja áherslu á þverfaglega samvinnu. Fagleg afstaða er tekin til allra erinda og þau annað hvort leyst á stöðinni eða komið í viðeigandi farveg.
Heilsugæslustöðvar HH í Reykjavík eru: Heilsugæslurnar Árbæ, Efstaleiti, Efra-Breiðholti, Glæsibæ, Grafarvogi, Hlíðum, Miðbæ og Mjódd. Í Hafnarfirði eru Heilsugæslan Fjörður og Heilsugæslan Sólvangi og í Kópavogi eru Heilsugæslan Hamraborg og Heilsugæslan Hvammi. Heilsugæslan Garðabæ, Heilsugæslan Mosfellsumdæmi og Heilsugæslan Seltjarnarnesi og Vesturbæ eru í bæjunum sem þær draga nafn sitt af. Skráð samskipti á heilsugæslustöðvunum 15 á árinu 2019 voru 895.122.
Geðheilsuþjónusta
Nú starfa sálfræðingar á öllum heilsugæslustöðvum HH, oftast tveir á hverri stöð, annar fyrir börn og hinn fyrir fullorðna. Þetta er bylting á örfáum árum og er í takt við forgangsröðun heilbrigðisyfirvalda. Það eru sex geðheilsuteymi hjá HH. Þessi þjónusta hefur verið í þróun undanfarin ár en byggir líka á starfi eldri eininga. Geðheilsuteymi HH Austur og Geðheilsuteymi HH Vestur sinna Reykjavík og Geðheilsuteymi HH Suður veitir þjónustu fyrir Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Geðheilsuteymi fangelsa, Geðheilsuteymi fjölskylduvernd og Geðheilsuteymi taugaraskana starfa á landsvísu með sérhæfða þjónustu. Eldri eining hjá HH er Þroska- og hegðunarstöð sem sinnir greiningu þroska- og hegðunarfrávika, ráðgjöf, fræðslu, meðferð og eftirfylgd í þjónustuúrræði. Einnig er boðið þar upp á sérhæfð námskeið fyrir fagfólk og fjölskyldur. Bæði Þroska- og hegðunarstöð og geðheilsuteymin eru annars stigs heilbrigðisþjónusta.
Önnur sérþjónusta
Heimahjúkrun HH í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi (HHH) er stærsta einstaka starfsstöðin hjá stofnuninni. HHH þjónar höfuðborgarsvæðinu öllu nema Reykjavík.
Bylting varð á starfseminni árið 2016 þegar heimahjúkrun í þessum bæjum var sameinuð og rekin sem ein eining í stað fjögurra áður. Með sameiningunni var stefnt að markvissri, faglegri, sérhæfðri og skilvirkri heimahjúkrun sem kemur til móts við þarfir þeirra sem njóta þjónustunnar. Vitjanir í heimahjúkrun (HHH og Heilsugæslan Mosfellsumdæmi) árið 2019 voru 122.965. Nýjung hjá Heimahjúkrun HH er endurhæfingarteymi sem leggur áherslu á stuðning til að ná aukinni færni með markvissri tímabundinni þjálfun og aðstoð. Með því að grípa fyrr inn í með leiðbeiningar og aðstoð fagfólks er talið að auka megi færni og draga úr þörf fyrir þjónustu um leið og lagður er grunnur að auknum lífsgæðum.
Göngudeild sóttvarna annast m.a. berklavarnir, ferðamannaheilsuvernd og heilbrigðisskoðun innflytjenda frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, þar með talið hælisleitenda. Umsvif deildarinnar hafa aukist mikið undanfarin ár, m.a. vegna samnings við utanríkisráðuneytið um heilbrigðisþjónustu fyrir hælisleitendur.
Fagleg þróun
Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu (ÞÍH) er staðsett hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en starfar á landsvísu. Þróunarmiðstöðin, sem var stofnuð 2018, vinnur að samræmingu verklags og samhæfingar milli fagfólks á heilsugæslustöðvum, gæðaþróun og framförum í heilsugæslu í samráði við heilbrigðisstofnanir sem reka heilsugæslustöðvar og sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar. Sérnám í heimilislækningum og sérnám í heilsugæsluhjúkrun sem ÞHÍ hefur umsjón með hefur skipt sköpum fyrir heilsugæslustöðvarnar.
COVID-19
Árið 2020 var óvenjulegt ár hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna áskorana sem fylgdu COVID-19. Annars vegar gegndi HH lykilhlutverki í sýnatökum, fyrst á heilsugæslustöðvum og annars staðar, utanhúss í fyrstu. Svo bættist við umsjón með skimun á landamærum í júni og í júlí var opnuð sýnatökustöð á Suðurlandsbraut 34 fyrir seinni skimun og síðar einkennasýni. Þar voru oft tekin mörg þúsund sýni á dag.
Hinsvegar þurfti að veita alla venjulega þjónustu samhliða því að vernda starfsmenn og skjólstæðinga fyrir smiti. Það tókst með samstilltu átaki starfsmanna. Í mars í fyrstu bylgju faraldurins var starfseminni umbylt nánast á einni nóttu. Öll erindi sem hægt var að leysa í fjarþjónustu komu ekki inn á stöðvarnar og starfsmenn skiptust á um að vinna heima þegar samfélagssmit voru sem mest.
Rafræn þjónusta
Eitt af markmiðum HH er að notuð sé viðeigandi og skilvirk upplýsingatækni. Mikil þróun hefur verið í rafrænni þjónustu heilsugæslunnar.
Heilsuvera er sameiginlegt verkefni HH og Embættis landlæknis. Árið 2014 byrjaði fyrsta heilsugæslustöðin að nota Mínar síður en fljótlega voru allar stöðvar HH farnar að nota þessa tækni til að veita betri þjónustu, fyrst fyrir tímabókun, lyfjaendurnýjun og yfirlit yfir bólusetningar. Svo bættust við möguleikar á öruggum samskiptum við heilbrigðisstarfsmenn.
Árið 2020 var ár framfara í rafrænni þjónustu. Þá bættist við ýmislegt tengt COVID-19, t.d. pöntun á sýnatökum. Þá var líka byrjað með myndsamtöl á Mínum síðum Heilsuveru en þannig getur heilbrigðisstarfsmaður boðið skjólstæðingi upp á myndsamtal í öruggu umhverfi.
Netspjall Heilsuveru þar sem hjúkrunarfræðingar veita ráðgjöf og leiðsögn um heilbrigðiskerfið byrjaði í árslok 2017. Eldskírnin var í mislingafaraldrinum 2019 og þegar COVID-19 brast á var þjónustan tilbúin til að leika lykilhlutverk í upplýsingagjöf til almennings. Þegar mest var voru 19 hjúkrunarfræðingar á vöktum á spjallinu, og allt að 8 samtímis. Samskiptin náðu hámarki í 12 viku ársins 2020 þegar spjöllin voru 5.579.
Fræðsluhlutinn á heilsuvera.is fer sívaxandi og er búin að festa sig í sessi með yfir milljón flettingar á mánuði í árslok 2020. Á heilsuvera.is er einnig þjónustutvefsjá yfir heilsugæslu á landinu öllu á íslensku, ensku og pólsku.
Vefur HH heilsugaeslan.is er kjarninn í upplýsingagjöf um þjónustu stofnunarinnar til skjólstæðinga og annara. Hluti hans er líka á ensku og pólsku í árslok 2020. Auk eru samfélagsmiðlar, greinaskrif og sjónvarpsþættir nýtt til kynningar og heilbrigðisfræðslu.
Leiðandi í heilbrigðisþjónustu
Verkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eru fjölmörg og hefur fjölgað undanfarin ár þar sem stofnuninni hefur verið treyst til góðra verka af stjórnvöldum. Mikil og góð samvinna er við aðrar stofnanir í heilbrigðis- og velferðarþjónustu og fleiri aðila.
Til viðbótar við það sem nú þegar hefur verið tíundað má nefna nokkur dæmi um verkefni sem HH tekur þátt í eða sér um.
Ískrá sjúkraskárkerfi fyrir heilsuvernd skólabarna er þróað og rekið af HH
Leiðandi hlutverk í þróun SÖGU fyrir heilsugæsluna
Samhæfingastöð krabbameinsskimana hefur störf í janúar 2021
Framkvæmdastjóri lækninga er sóttvarnalæknir höfuðborgarsvæðisis
Héraðsvaktin stafar innan HH
Færni og heilsumatsnefnd höfuðuborgasrvæðisins hefur aðsetur hjá HH
Læknisþjónusta fyrir nokkur hjúkrunarheimili
Vísndanefnd HH og HÍ
Lykilhlutverk í starfsþjálfun heilbrigðisstétta
Jafnlaunavottun í ársbyrjun 2020
Virk þátttaka í ýmsum umbótaverkefnum, s.s. persónuverndarmálum og grænum skrefum í ríkisrekstri
HH tekur þátt í samstarfi um Heilsueflandi samfélag
Framtíðarsýn
Heilsugæsla er grunnstoð heilbrigðisþjónustu. Hún er fyrsti viðkomustaðurinn og oftast er ekki þörf á að fara lengra í heilbrigðiskerfinu. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins veitir fjölbreytta, samfellda og þverfaglega þjónustu með áherslu á samvinnu milli starfseininga og samvinnu í samfélagi með kjörorðið: „Hér fyrir þig“ að leiðarljósi.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd