Heilsustofnun NLFÍ

2022

Berum ábyrgð á eigin heilsu
Heilsustofnun er í Hveragerði, sem er lifandi og blómlegur bær, rétt austur af Reykjavík. Aksturinn frá Reykjavík að þessum friðsæla og fallega stað tekur aðeins um það bil 30 mínútur eftir þjóðvegi 1. Það sem gerir Hveragerði sérstakan bæ er nábýli hans við jarðhitann, því bærinn er byggður á hverasvæði og af því dregur hann nafn sitt. Fáir bæir í heiminum geta státað af virku jarðhitasvæði í hjarta bæjarins, vellandi hverum, hvæsandi gufuaugum og á sumrin iðandi blómahafi. Heilsustofnun tók til starfa í júlí árið 1955. Jónas Kristjánsson læknir, sem var einn af brautryðjendum náttúrulækningastefnunnar á Íslandi, hafði forystu um undirbúning og uppbyggingu Heilsuhælis NLFÍ, eins og stofnunin hét þá. Fljótlega eftir opnun 1955 var hægt að taka á móti 40 gestum, en starfsemi stofnunarinnar hefur aukist og húsakostur stækkað hægt og bítandi og er í dag um 170 rúm í 122 herbergjum. Heilsustofnun er í eigu Náttúrulækningafélags Íslands.

Náttúrulækningastefnan
Náttúrulækningastefna Heilsustofnunar er byggð á heildrænum lækningum. Heilsuvandi einstaklinganna er skoðaður með það í huga að líta þurfi á andlegt, líkamlegt og félagslegt ástand í samhengi. Meðferðarstefnan felur m.a. í sér þá viðleitni að koma á og viðhalda eðlilegum og heilbrigðum tengslum á milli einstaklingsins og umhverfis hans og efla varnir líkama og sálar gegn hverskonar vanheilsu og sjúkdómum.
Meginhlutverk Heilsustofnunar er að stuðla að heilsuvernd, endurhæfingu og fræðslu. Gestir þurfa að hafa fótavist og geta bjargað sér að mestu leyti sjálfir við daglegar athafnir. Við meðferð er lögð áhersla á markvissa hreyfingu, hollt mataræði, slökun og hvíld. Fræðsla og fagleg ráðgjöf er stór þáttur í starfinu og þar er lögð mest áhersla á heilsuvernd og bætta lífshætti. Náttúrulækningastefna Heilsustofnunar NLFÍ er í fullu samræmi við markmið Alþjóðaheilbrigðistofnunarinnar um bætt heilbrigði og heilsufarsþróun í heiminum og fellur hún vel að íslenskri heilbrigðisstefnu.

Stefna
Stefna Náttúrulækningafélags Íslands hefur ávallt verið sú að auka og efla þátt hugtakanna heilbrigði og heilsuvernd í umræðu og verkum, og víkja frá hinni einlitu sjúkdómaumræðu. Það eflir heilbrigði og þroska að fara eftir stefnunni, m.a. með fræðslu, neyslu holls fæðis, líkamsþjálfun, slökun og hvíld. Tilgangur og takmark náttúrulækningastefnunnar er því annars vegar heilsuvernd og hinsvegar heilsubót. Þessi markmið eru enn í fullu gildi. Heilsustofnun forðast kennisetningar sem ekki standast vísindalega gagnrýni. Hófsemi í líferni og skilningur á heildstæðum lausnum læknisfræðinnar, heilbrigt líferni í víðum skilningi, verður meginhlutverk félagsins í nútíð og framtíð, auk umhverfisverndar.

Þverfagleg endurhæfing
Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði er endurhæfingarstofnun. Endurhæfing er veitt einstaklingum á landsvísu í samræmi við lög nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Heilsustofnun er með þjónustusamning við Sjúkratryggingar Íslands. Samkvæmt honum ber Heilsustofnun að veita 1.350 einstaklingum endurhæfingu á ári, í samtals 37.800 gistinætur, á 10 meðferðarlínum.

Samningur Heilsustofnunar og Sjúkratrygginga Íslands
Samningur er á milli Sjúkratrygginga Íslands og Heilsustofnunar um þverfaglega endurhæfingu fyrir sjúkratryggða einstaklinga skv. lögum um sjúkratryggingar 112/2008 og slysatryggða einstaklinga skv. lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.
Meðferðarlínur:

Bæklun
Geðsjúkdómar
Gigtsjúkdómar
Hjarta- og lungnasjúkdómar
Krabbamein
Offitu- og efnaskiptasjúkdómar
Streita
Taugasjúkdómar
Verkir
Öldrun

Á árinu 2020 var innleidd og þróuð meðferð vegna afleiðinga COVID-19 sjúkdómsins sem bættist við aðra endurhæfingarstarfsemi. Innleidd var virkniaðlögun og önnur meðferð við hæfi þessara sjúklinga.

Aðsetur og mannauður
Á síðustu misserum hefur verið leitað leiða til þess að bæta húsakost og aðstöðu fyrir endurhæfingarstarf Heilsustofnunar. Hluti af húsnæðinu er allt frá árinu 1955 og verður lögð áhersla á að byggja meðferðarhús til að mæta þeim kröfum sem gerðar eru til þeirrar starfsemi sem Heilsustofnun sinnir í endurhæfingu. Baðhúsið Kjarnalundur sem var reist á árunum 2004-2006 býður upp á góða aðstöðu fyrir vatnsmeðferðir, heit og köld böð, kaldar bunur, vatnsleikfimi og vatnsþrek auk slökunar í vatni, sauna og blautgufu. Bygging baðhússins var mikil lyftistöng fyrir starfsemina. Gistiaðstaða fyrir dvalargesti í elsta hluta hússins er komin til ára sinna og er gert ráð fyrir að byggja nýja aðstöðu á komandi árum.
Á Heilsustofnun starfa um 100 manns í 83 stöðugildum. Helstu faghópar sem koma að þjónustu við endurhæfingu eru: Læknar, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, sjúkraþjálfarar, íþróttafræðingar, nálastungulæknir, næringafræðingar, iðjuþjálfi, sjúkranuddarar og heilsunuddarar. Í faghópum er einnig fólk með sérmenntun, t.a.m. geðhjúkrunarfræðingar, jógakennarar, sérfræðingar varðandi svefn, streitu, kulnun o.fl. Aðrir mikilvægir starfshópar sinna ræstingu, starfsfólk í eldhúsi, skrifstofu, sundlaug, heilsu- og leirböð, garðyrkja, og viðhald húsnæðis.
Heilsustofnun er aðili að Heilsulindasamtökum Evrópu sem eru regnhlífarsamtök í 20 löndum
og hefur hlotið nýsköpunarverðlaun fjórum sinnum frá árinu 2014.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd