Heimabakarí

2022

Heimabakarí á Húsavík var stofnað árið 1923 eða fyrir tæpum 100 árum. Það var staðsett á Garðarsbraut 15 og hét þá Brauðgerð Páls Jónssonar. Næstu eigendur voru þau Sigtryggur Pétursson og Helena Líndal en þau kaupa brauðgerðina árið 1936. Kaupfélag Þingeyinga kemur svo inn í reksturinn hjá þeim árið 1947 og fékk fyrirtækið þá nafnið Brauðgerð
K.Þ hf.. Síðan hafa um það bil 3 til 4 mismunandi eigendur verið að fyrirtækinu uns hjónin Hálfdán Sveinbjörn Kristinsson og Brynja Ósk Stefánsdóttir kaupa fyrirtækið af Bakaríinu við brúna á Akureyri um áramótin 2014/2015. Þau eru semsagt núverandi eigendur og reka bakaríið en Brynja er framkvæmdastjóri Heimabakarís. Bakaríið hefur ávallt verið handverksbakarí og fagnað jafnri þróun gegnum árin. Steingrímur Sigurðsson fyrrum eigandi fyrirtækisins tók á leigu sal við hlið þess og opnaði þar kaffihús árið 2012. Núverandi eigendur keyptu svo þennan sal árið 2016 og er hann nú hluti af bakaríinu og enn er þar rekið kaffihús, sem nýtur vinsælda bæjarbúa.

Starfsemin
Heimabakarí selur vörur og sendir til nokkurra fyrirtækja í í bænum og nágrenni. Má þar nefna sjúkrahúsið, elliheimilið, Norðlenska og Norðursiglingu. Ennfremur njóta Nettó og Krambúðin á Húsvaík og í Mývatnssveit slíkrar þjónustu frá Heimabakaríi.
Heimbakaríið fær aðföng sín og hráefni frá heildsölum innanlands. Vöruval er fjölbreytt og eru vörunúmerin yfir 200 talsins. Helstu vöruflokkar eru brauðin sem telja 8 til 10 tegundir og eru í boði daglega, ilmandi fersk og nýbökuð. Þá verður sérstaklega að nefna laufabrauðið sem fylgt hefur Heimabakaríi í fjölda ára. Það nýtur mikilla vinsælda og er sent til viðskiptavina víða um land. Þeir sem bragðað hafa laufabragðið láta það ekki framhjá sér fara og kaupa það árlega.
Heimabakarí er eina bakarí Húsavíkur.

Starfsfólk og aðsetur
Að jafnaði starfa 8 til 10 manns við fyrirtækið allt árið en bætt er í yfir sumarið og þá fjölgar startfsmönnum í 15 til 18 manns. Reyndar hefur bæst við starfsmannafjöldan í takt við vöxt fyrirtækisins. Heimabakarí er til húsa að Garðarsbraut 15 á Húsavík og er opið frá kl. 7 á morgnana til kl. 17 alla virka daga. Á laugardögum er opið frá kl. 8 til kl. 16. Lokað er á sunnudögum á veturna. Bakaríinu var haldið opnu á með heimsfaraldurinn geisaði og farið var að reglum Almannavarna um sóttvarnir. Sætum var fækkað á kaffihúsinu sem og starfsfólki.

Framtíðarsýn
Heimabakarí stendur traustum fótum í dag og eigendur eru bjartsýnir á framtíð þess.

Samfélagsmál
Heimabakarí hefur sýnt samfélagslega ábyrgð í verki með stuðningi við íþróttafélagið Völsung sem og ýmis góð málefni.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd