Heimavellir / Heimstaden

2022

Heimavellir hf. var stofnað árið 2014 þegar þrjú lítil leigufélög voru sameinuð undir hatti Heimavalla. Stofnandi félagsins var Sturla Sighvatsson sem hafði að leiðarljósi skipulag og starfsemi Norrænna leigufélaga sem búa við mun þroskaðri íbúðaleigumarkað en hafði áður þekkst á Íslandi. Hópur öflugra fjárfesta stóð á bak við félagið sem að tryggði félaginu fjármagn og brautargengi til frekari framkvæmda. Í fyrstu stjórn félagsins sátu Magnús Magnússon, Magnús Pálmi Örnólfsson, Halldór Kristjánsson og Þórður Már Jóhannesson. Framkvæmdastjóri félagsins fyrstu tvö árin var Sturla Sighvatsson.
Á tímabilinu 2015 til 2017 keyptu Heimavellir um 20 starfandi leigufélög og til viðbótar um 500 íbúðir í nýbyggingarverkefnum. Vorið 2016 tók Guðbrandur Sigurðsson við sem framkvæmdastjóri félagsins og fékk það hlutverk að undirbúa félagið fyrir skráningu í Kauphöll Íslands. Í byrjun árs 2018 áttu Heimavellir 2300 íbúðir í 20 dótturfélögum og var auk þess búið að festa sér lóð á svokölluðum Veðurstofureit fyrir 100 hagkvæmar leiguíbúðir. Þann 24. maí 2018 var svo félagið tekið til skráningar aðalmarkaði NASDAQ á Íslandi.

Tíminn í Kauphöllinni
Þriggja ára undirbúningsferli að skráningu í Kauphöllina lauk í maí 2018. Ferlið fólst í því að byggja upp félagið og innviði þess þannig að það væri tilbúið til skráningar og að gæti staðið undir þeim miklu kröfum sem gerð eru til skráðra félaga. Á þessu þriggja ára tímabili byggði félagið upp jákvæða rekstrarsögu á sama tíma og félagið var fjármagnað til að geta staðið fyrir uppbyggingu á rúmlega 500 nýjum íbúðum ásamt því að koma þeim í leigu. Samhliða þessu voru innviðir félagsins byggðir upp þar sem áhersla var sett á að nýta nýjustu tækni og innleiða góða stjórnarhætti hjá félaginu. Upphafsgengi bréfa félagsins við skráningu í kauphöll var 1,39 en en því miður brugðust vonir og gengi bréfanna lækkaði nokkuð eftir skráningu og fór um tíma undir gengið 1,00. Miðað við eigið fé félagsins á þessum tíma var nafnvirði bréfanna 1,70. Ofangreindar aðstæður á fjármálamörkuðum, andstaða sumra innan verkalýðshreyfingarinnar, stefnubreyting Íbúðalánasjóðs og fleira varð til þess að hópur af hluthöfum félagsins taldi að það væri best fyrir alla hlutaðeigandi að afskrá félagið og selja eignasafnið á frjálsum markaði. Þessi hluthafahópur fór því af stað með valfrjálst yfirtökutilboð með það að markmiði að afskrá hlutabréf félagsins úr Kauphöllinni. Kauphöllin samþykkti hins vegar ekki beiðni þessa hóps um afskráningu þrátt fyrir að það lægi fyrir samþykki rúmlega 80% hluthafa. Þegar sú niðurstaða lá fyrir að félagið yrði áfram skráð félag ákvað stjórn félagsins að selja eignir, skila lóðinni við Veðurstofuna og hrinda af stað endurkaupaáætlun á hlutabréfum félagsins fyrir þann pening sem yrði losað um með eignasölum. Guðbrandur Sigurðsson sagði starfi sínu lausu í apríl 2019 og var Arnar Gauti Reynisson ráðinn framkvæmdastjóri félagsins og hefur gegnt því starfi síðan. Arnar Gauti gegndi áður starfi fjármálastjóra hjá Heimavöllum.

Starfsemin
Heimavellir hafa frá árinu 2016 rekið skrifstofu að Lágmúla 6 í Reykjavík. Á skrifstofunni starfa 9 manns sem sinna útleigu íbúðanna, bókhaldi og samskiptum við leigjendur. Til viðbótar starfa hjá félaginu 8 starfsmenn sem sinna viðhaldi og umhirðu með íbúðum félagsins. Tæpur helmingur íbúðanna er á Ásbrú í Reykjanesbæ og hafa tveir starfsmenn aðsetur þar og einn er á Akureyri. Allar íbúðir eru auglýstar á heimasíðu félagsins og sækja áhugasamir leigjendur þar um íbúðir sem þeim líst vel á. Í boði er að leigja íbúðir tímabundið, þó að lágmarki til eins árs eða ótímabundið og er þá gagnkvæmur uppsagnarfrestur að lágmarki 6 mánuðir. Allar íbúðir eru afhentar í mjög góðu ástandi og nýmálaðar til leigjenda og þegar leigjandi flytur inn er framkvæmd skoðun á íbúðinni sem er síðan höfð til hliðsjónar þegar leigjandi flytur út. Heimavellir leggja áherslu á örugga leigu sem felst í því að leigusambandið er álitið til langs tíma og að leigjendur geti búið sér til öruggt heimili í því húsnæði sem Heimavellir bjóða uppá. Ef aðstæður fólks breytast, til dæmis það þarf að minnka við sig eða stækka, þá ganga núverandi leigjendur fyrir þegar kemur að úthlutun annarra íbúða.

Framtíðaráform
Í byrjun árs 2020 keypti félagið Fredensborg Ice ehf. í eigu norska fjárfestisins Ivar Tollefsen um 10% hlut í Heimavöllum hf. Vorið 2020 gerði félagið svo yfirtökutilboð til annarra hluthafa sem að lauk með innlausnarferli í september 2020. Stuttu seinna var hlutafé Heimavalla tekið úr viðskiptum hjá íslensku Kauphöllinni. Ivar á einnig félagið Heimstaden ásamt öðrum sænskum stofnanafjárfestum. Heimstaden er norrænt leigufélag sem rekur og leigir út rúmlega 100.000 íbúðir í 6 löndum. Eftir að Fredensborg Ice ehf. keypti allt hlutaféð í félaginu hafa Heimavellir unnið statt og stöðugt að því að aðlaga sig að því norræna rekstrarlíkani sem Heimstaden vinnur eftir. Í því felst rík áhersla á ánægju viðskiptavina, ýmsum sjálfbærnimarkmiðum, aukinni umhverfisvitund ásamt öðrum þáttum. Með nýju eignarhaldi á Heimavöllum hf. er fyrirséð að félagið verður framvegis rekið sem leigufélag, búið er að fella söluáætlun félagsins á íbúðum úr eignasafninu úr gildi, endurkaupaáætlun félagsins á ekki lengur við og þeir fjármunir sem verða til í rekstri félagsins verða nýttir til að bæta hag þess. Mikil umbótavinna hefur staðið yfir hjá félaginu frá því í september 2020 bæði hvað varðar innleiðingu nýrra verkferla og kerfa, ráðningu á fleira starfsfólki og endurfjármögnun á langtímaskuldum til að aðlaga Heimavelli að Heimstaden samstæðunni. Framtíðarsýn félagsins er að stækka eignasafnið á næstu árum ásamt því að byggja upp nýjar stoðdeildir innan fyrirtækisins til að hækka þjónustustigið, endurskipuleggja fjármögnun félagsins og breyta nafni félagsins í Heimstaden Ísland. Aukin áhersla verður á ánægju viðskiptavina og að í rekstri félagsins sé lögð áherslu á málefni UFS (umhverfi, félagslegir þættir og stjórnarhættir) en Heimstaden er með skýr markmið í þeim efnum. Heimavellir bjóða nú þegar upp á afburðarþjónustu, hagkvæma leigu og húsnæðisöryggi.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd