Helgafellssveit

2022

Helgafellssveit er á norðanverðu Snæfellsnesi og liggur á milli tveggja fjarða, Hraunsfjarðar og Álftafjarðar. Hreppamörkin í austri eru við Dalabyggð, áður Skógarstrandarhrepp, í suðri Eyja- og Miklaholtshrepp, Grundarfjörð í vestri og Stykkishólm í norðri. Stykkishólmur var áður hluti Helgafellssveitar en varð sjálfstætt sveitarfélag 1892.Helstu kennileiti eru tignarleg Ljósufjöllin, Drápuhlíðarfjall með sinn sérstaka lit, Helgafell á miðju Þórsnesinu, einn af fyrstu áfangastöðum ferðamanna á Íslandi og með sögn um möguleika á uppfylltum óskum ef farið er að ákveðnum reglumá leiðinni upp. Einnig nokkrar fallega kúlulagaðar eldstöðvar og frá þeim úfin apalhraun.

Atvinnumál
Hefðbundinn landbúnaður hefur í gegnum tíðina verið aðalatvinnuvegurinn en hefur á undanförnum árum látið undan síga og annað tekið við, einkum ferðaþjónusta bæði sem aðal atvinna eða með búskap og öðrum störfum. Fjölbreyttir gistimöguleikar eru í boði og einnig veitingastaðir. Með bættum samgöngum hafa skapast skilyrði til að sækja atvinnu út fyrir sveitarfélagið. Í Sauraskógi hefur byggst upp sumarbústaðahverfi á hlýlegum stað í miðri sveitinni í náttúrulegum birkiskógi. Nokkrar jarðir eru nýttar sem frístundabyggð. Veitur, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur nýtir vatn undan Svelgsárhrauni til dreifingar um hluta sveitarinnar og Stykkishólm og heitt vatn úr borholu við Hofstaði fyrir Stykkishólm. Tvær litlar vatnsaflsvirkjanir eru í sveitinni sem framleiða rafmagn inn á raforkukerfið.

Sveitarfélagið
Íbúar í sveitafélaginu 1. desember 2020 voru 65. Helgafellssveit tekur þátt í rekstri grunnskóla, leikskóla, tónlistarskóla og íþróttamannvirkja í Stykkishólmi og á aðild að Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Helgafellssveit er hluti af Svæðisgarðinum Snæfellsnes og tekur ásamt hinum sveitarfélögunum á Snæfellsnesi þátt í EarthCheck verkefninu sem er einstakt hér á landi. Sveitarfélagið lagði og rekur ljósleiðarakerfi um alla sveitina.

Eyrbyggja
Íslendingasagan Eyrbyggja gerist að miklu leyti í Helgafellssveit, hún er góð lýsing á lífsbaráttu forfeðra okkar fyrr á öldum. Öll örnefni sem koma fram í sögunni eru notuð ennþá og þar að leiðandi mjög gott að glöggva sig á staðháttum sögunnar.

Hreppsnefnd
Hreppsnefnd Helgafellssveitar kjörtímabilið 2018-2022 skipa Guðrún Reynisdóttir oddviti, Sif Matthíasdóttir varaoddviti, Karín Bæringsdóttir ritari, Guðlaug Sigurðardóttir og Guðmundur Hjartarson.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd