Herrahúsið var stofnað 8. ágúst 1965 og fagnar því 55 ára afmæli sínu á þessu ári. Aðalsmerki Herrahússins frá upphafi hefur verið að bjóða afbragðs herrafatnað af ýmsum stærðum og gerðum. Að auki er leitun að verslun sem býður svo mikið úrval herrafatnaðar í yfirstærðum. Kjólföt og smókingföt eru einnig meðal sérgreina Herrahússins og hefur það m.a. séð meðlimum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og félögum í Frímúrarareglunni og Oddfellow fyrir klæðnaði við hæfi um langt árabil. Stærsti viðskiptavinahópurinn frá upphafi er hins vegar „maðurinn af götunni“ – og þeir menn eru á öllum aldri. Konur eru líka tíðir gestir, stundum í fylgd eiginmannsins eða kærastans, en stundum einar og þá er erindið að kaupa fallega gjöf handa einhverjum karlmanni sem þeim þykir vænt um. www.herrahusid.is
Framleiddi og seldi hin landsfrægu Kórónaföt
Herrahúsið var í upphafi systurfyrirtæki Sportvers hf., sem framleiddi sportfatnað og annan fatnað úr íslenskri ull og var frumkvöðull á því sviði. Sportver framleiddi m.a. hin landsfrægu Kórónaföt – sem eiga ekkert skylt við Kórónaveiruna alræmdu sem setti heiminn á hliðina árið 2020! Þess má geta að Bessi Bjarnason leikari gerði Kórónafötin landsfræg í fyrstu sjónvarpsauglýsingunni á Íslandi haustið 1966. Sportver framleiddi einnig hinar þekktu Lee Cooper gallabuxur og fleiri gæðavörur. Stofnandi Sportvers var Margrét Árnadóttir, oft kennd við Hánefsstaði í Seyðisfirði. Þorvarður bróðir hennar kom svo að stofnun Herrahússins með henni árið 1965, ásamt fleirum. Fyrsta verslunin var opnuð í Aðalstræti 4, önnur í Bankastræti 7 og sú þriðja á Laugavegi 47, en það var sérverslun fyrir ungt fólk og fékk nafnið Adam. Þegar mest var störfuðu um 100 manns hjá Sportveri og Herrahúsinu.
Flutti úr 101 Reykjavík eftir 54 ára samfellda sögu
Árið 1987 bauðst Herrahúsinu að kaupa verslunarhúsnæði í Kringlunni, sem þá var í smíðum, en ákveðið var að byggja frekar yfir starfsemi fyrirtækisins að Laugavegi 47. Þar var Herrahúsið með verslun sína í 32 ár – og þar með samfellt í 101 Reykjavík í 54 ár. Í mars 2019 urðu svo þau miklu þáttaskil í rekstrinum að verslunin var flutt í glæsilegt húsnæði í Ármúla 27 þar sem Herrahúsið hefur verið síðan og verður væntanlega um ókomna tíð… Þess ber að geta að árið 1990 keypti Sverrir Bergmann kaupmaður rekstur Herrahússins af Þorvarði Árnasyni og félögum. Sverrir byggði upp Herraríki á sínum tíma, sem var í eigu Sambands íslenskra samvinnufélaga og rak þegar mest var 4 verslanir á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem Sverrir rak heildverslun með herrafatnað um nokkurra ára skeið. Hann þekkir því vel til á þessu sviði. Sverrir hefur rekið Herrahúsið með miklum myndarbrag allar götur síðan, eða í 30 ár.
Blómstrar sem aldrei fyrr í Ármúlanum
Sverrir segir ákvörðunina um að flytja verslunina úr póstnúmerinu 101 yfir í Ármúla 27, sem er í póstnúmeri 108, hafa verið „þvingaða“. „Borgarstjórnin í Reykjavík, með Dag B. Eggertsson fremstan í flokki, hefur þrengt jafnt og þétt að kaupmönnum við Laugaveg og annars staðar í gamla miðbænum. Borgaryfirvöld lokuðu götum og fækkuðu bílastæðum ár eftir ár. Loks var svo komið að ég sá mér ekki annað fært en að flytja Herrahúsið af Laugaveginum. Það var sárt í ljósi langrar og glæstrar sögu verslunarinnar í póstnúmeri 101 en eftir á að hyggja er þetta langbesta rekstrarákvörðun sem ég hef tekið á ævinni,“ segir Sverrir.
Hann segir Herrahúsið blómstra sem aldrei fyrr í Ármúlanum. „Gamlir viðskiptavinir, sem gáfust upp á bílastæðaskorti og þrengslum á Laugaveginum, hafa snúið aftur. Og svo hafa fjölmargir nýir bæst í hópinn, ekki síst úr þessu stóra og vaxandi viðskiptahverfi hér í nágrenninu,“ segir Sverrir.
Verslunin í Ármúla 27 er á einni hæð, í stað þriggja á Laugaveginum, og gjaldfrjáls bílastæði við innganginn. Sverrir segir ólíku saman að jafna og í raun hafi Herrahúsið öðlast nýtt og enn betra líf við flutninginn.
Landsfrægar auglýsingar
Herrahúsið hefur líka markað sín spor í sögu auglýsinga á Íslandi. Sem fyrr segir var auglýsingin um Kórónafötin fyrsta íslenska sjónvarpsauglýsingin. Þá voru stjörnur á borð við Valgeir Guðjónsson, Stuðmann; Gísla Rúnar Jónsson, leikara og þúsundþjalasmið, Kristin Sigmundsson, stórsöngvara og Þröst Leó Gunnarsson, leikara fyrirsætur í blaðaauglýsingum Herrahússins og Adam á árum áður.
Enn fremur má nefna að „útsölukarl“ Herrahússins er löngu orðinn landsfrægur en hann hefur prýtt hverja einustu útsöluauglýsingu verslunarinnar frá árinu 1970, eða í 50 ár! Auglýsingin kom á sínum tíma frá Kristínu Þorkelsdóttur og hennar fólki á Auglýsingastofu Kristínar, AUK. „Blessaður útsölukarlinn minn. Ég held mig við hann sem jafnan fyrr, enda er hann hluti af ímynd fyrirtækisins og klikkar aldrei!“ segir Sverrir.
Gott orðspor er besta auglýsingin
Herrahúsið er tvímælalaust ein þekktasta og virtasta herrafataverslun landsins og eldist ákaflega vel. En hver er leyndardómurinn á bak við velgengnina í öll þessi ár?
„Lykillinn að því að verslun vaxi og dafni eru ánægðir viðskiptavinir. Við kappkostum að bjóða úrvalsvöru á sanngjörnu verði. Svo leggjum við mikinn metnað í að veita eins góða þjónustu og unnt er. Það eru gömul sannindi og ný að gott orðspor er besta auglýsing sem í boði er og segja má að það hafi verið „mottó“ Herrahússins frá upphafi. Ég hef líka verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa frábæra samstarfsmenn í versluninni öll þessi ár – sem er auðvitað ómetanlegt,“ segir Sverrir Bergmann, hæstánægður með hina glæsilegu verslun Herrahússins í Ármúla á 55 ára afmæli fyrirtækisins.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd