Hitaveitufélag Hvalfjarðar sf

2022

Hitaveitufélag Hvalfjarðar er sameignarfélag sem var stofnað 23. ágúst 1988. Tilgangur félagsins er að leggja hitaveitu að heimilum félagsmanna og víðar eftir því sem hagkvæmt þykir hverju sinni. Félagar í Hitveitufélaginu voru 18 í upphafi og áttu þeir 50% hlut í félaginu á móti 50% hlut Hvalfjarðarstrandarhrepps. Sú breyting hefur nú orðið á að með sameiningu hreppa hér á svæðinu á nú Hvalfjarðarsveit 50% hlut á móti félagsmönnum.
Stjórn félagsins er skipuð tveim fulltrúum úr hópi félagsmanna og einum tilnefndum af Hvalfjarðarstrandarhreppi. Núverandi stjórnendur eru; Karl Ingi Sveinsson, Kalastaðakoti, Guðjón Jónasson, Bjarteyjarsandi og Sæmundur Víglundsson, Beitistöðum.

Sagan
Á árunum 1988 og 1989 var lokið við leggja flestar lagnir til félagsmanna. Síðar fjölgaði félagsmönnum og árið 1995 var búið að leggja lagnir til þeirra sem höfðu þá gerst félagsmenn í félaginu. Í upphafi var leitað til Fjarhitunar hf. um ráðgjöf vegna virkjunar og nýtingu heitu borholunnar, og var þeim síðan falið að hanna fyrsta áfanga veitunnar og jafnframt ráðgjöf varðandi áframhaldið. Sumarið 1988 var samið við Reykjalund um kaup á lagnaefni í fyrsta áfanga veitunnar. Haustið 1988 var lögð stofnlögnin frá borholu að Strönd, gengið frá virkjun holunnar og byggð dæluhús við borholu, Ferstiklu og Strönd. Lagningu þessarar stofnlagnar lauk fyrir áramót með hjálp suðumanna frá Reykjalundi. Um vorið 1989 var haldið áfram lagnavinnu við fyrsta áfanga veitunnar, lagt að Ferstiklubæjum, Ferstikluskála, Hlöðum og að húsum í Hlíðarbæ. Jafnframt var á þessum tíma lagt í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Vatni var hleypt á þessar lagnir 15. júní 1989.
17. apríl 1989 lagði Fjarhitun fram nýja áætlun um lagningu næsta áfanga veitunnar. Í framhaldi af því var keypt lagnaefni frá fyrirtækjunum Hulu og Hjúps á Flúðum til áframhaldandi lagningar veitunnar. Hafist var handa við lagningu næsta áfanga frá Strönd að Eyri, í sept. 1989 en fyrstu rörin komu á staðinn 5 september. Næstu vikur og mánuði var unnið af krafti við lagningu veitunnar, jafnað undir, rörin soðin saman og einangrað jafnóðum og grafan fylgdi á eftir og mokaði yfir. Um 20 október. var lögnin komin að Miðfellsmúlahorninu. Á sama tíma var unnið að lagningu frá borholu að Hrafnabjörgum og Bjarteyjarsandi. Allar heimtaugar að bæjunum voru lagðar nokkurn veginn jafnóðum og stofnlögnin. Dæluhús voru byggð á sama tíma á Hrafnabjörgum, Kalastöðum, Tungu og Hlíðarfæti. Lagning heimtaugarinnar að Svarfhóli var nokkuð vandasöm, vegna þess að lögnin var lögð þvert yfir Laxá á milli Hlíðarfótar og Svarfhóls. Það var gert með þeim hætti að lögnin var dregin einangruð inn í 250 m. langt kápurör sem síðan var grafið niður í árbotninn og þyngt niður með steinrörum og steypu sem sett var í strigapoka og síðan hlaðið yfir lögnina. Eftir það var mokað vandlega yfir lögnina í árbotninum. Vandlega var síðan gengið frá tengibrunnum við báða enda lagnarinnar. Lagning þessa áfanga veitunnar gekk mjög vel og áfallalaust. Vatni var hleypt á í áföngum, fyrst 30 nóvember. Þá var hleypt á að Kalastöðum og á innri leiðina að Hrafnabjörgum og Bjarteyjarsandi. Daginn eftir að Tungu og að dæluhúsið á Hlíðarfæti. Fljótlega eftir það að Eyri og Svarfhóli.
Stofnlagnir veitunnar voru í upphafi lagðar í plaströrum og einangraðar með políúretan einangrunarskeljum. Nú á seinni árum hafa stofnlagnir veitunnar mikið verið endurnýjaðar og hefur þá verið lagt í foreinangruðum stálrörum.
Framkvæmdir við lagningu veitunnar voru unnar af félagsmönnum í Hitaveitufélaginu og þeirra fólki, við þennan áfanga eins og þann fyrri. Vélavinna var unnin með gröfu frá Ræktunarsambandi Hvalfjarðar og vélum frá JG vinnuvélum á Bjarteyjarsandi. Þeir sem unnu með þessar vélar voru félagsmenn í Hitaveitufélaginu.

Kaupendur vatns
Kaupendum vatns frá veitunni hefur fjölgað jafnt og þétt á starfstíma hennar. Sumarbúðirnar í Vatnaskógi tengdust veitunni árið 1992. Alifuglabú á Hurðarbaki og Ferstiklu hafa verið tengd veitunni í allmörg ár. Um 1998 var byrjað að leggja lagnir og tengja hús í sumarbústaðalöndum á starfssvæði veitunnar í Svarfhólsskógi, Kambshóli og Bjarteyjarsandi og hafa nú verið tengdir á annað hundrað bústaðir við veituna. Þegar ráðist var í lagningu veitunnar í sumarhúsalöndin í Svarfhólsskógi og Kambshóli þurfti að endurnýja lögnina frá Strönd yfir hálsinn niður í Vatnaskóg og þaðan yfir ósa Laxár. Var það gert með stállögn. Með þessari framkvæmd var komin næg flutningsgeta fyrir sumarhúsalöndin á Svarfhóli og Kambshóli ásamt Vatnaskógi.
Uppbygging veitunnar var með þeim hætti að eigendur greiddu allan kostnað við lagningu og frágang hennar. Hitaveitufélagið stofnaði ekki til skulda við uppbygginguna og hefur þessari reglu verið haldið síðan, tengigjöld hafa greitt kostnað við lagningu heimæða þegar lagt hefur verið til nýrra notenda. Nú í seinni tíð hefur kaupendum vatns á starfssvæði veitunnar fjölgað mikið. Munar þar mest um fjölgun sumarbústaða í notendahópi veitunnar og hefur félagið af því góðar tekjur til að standa undir rekstri og viðhaldi.

Sérstaða
Sérstaða Hitaveitufélags Hvalfjarðar er sú eins og áður hefur verið nefnt, að aldrei hefur verið stofnað til langtímaskulda vegna uppbyggingar, reksturs eða viðhalds. Skammtímalán hafa verið tekin þegar staðið hefur verið í fjárfrekum framkvæmdum og hafa þau verið fljótt greidd með tekjum af rekstri. Enginn fastur starfsmaður er hjá veitunni, stjórnarmenn félagsins annast rekstur og viðhald veitunnar. Þetta fyrirkomulag hefur verið frá upphafi og hefur reynst vel og er ekki fyrirhugað að breyta því.

Framtíðarsýn
Framtíðarsýn félagsins er að halda áfram að reka félagið með svipuðum hætti og verið hefur. Halda áfram að veita góða þjónustu, bæta veituna og byggja upp eftir þörfum.
Hitaveitufélagið er nú fullkomlega sjálfbært fyrirtæki og stendur vel undir rekstri og viðhaldi.
Ekki verður annað sagt en framtíð Hitaveitufélags Hvalfjarðar sé björt.

Bjarteyjarsandi 3 (Kalastaðakot)
301 Akranesi
8640746
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd