Hjallastefnan í þrjá áratugi
Hjallastefnan er framsækið félag á sviði uppeldis og menntunar sem starfrækir sjálfstæða leik- og grunnskóla undir merkjum jafnréttis, lýðræðis og sköpunar. Þann 25. september árið 1989 tók Margrét Pála Ólafsdóttir við rekstri leikskólans Hjalla í Hafnarfirði og markaði það upphafið að starfsemi Hjallastefnunnar. Árið 1999 var Hjallastefnan ehf. stofnuð í því skyni að halda formlega utan um sjálfstæðan rekstur um hugmyndafræðina á leik- og grunnskólastigi.
Stofnendur og stjórnendur
Hjallastefnan er í dag að stærstum hluta í eigu Margrétar Pálu Ólafsdóttur ásamt framkvæmda-stjóra og nokkrum öðrum smærri hluthöfum. Það hefur aldrei verið greiddur út hagnaður en öll tækifæri nýtt til að styðja við áframhaldandi uppbyggingu á starfi. Stjórnarformaður Hjallastefnunnar er Margrét Pála Ólafsdóttir og framkvæmdastjóri Þórdís Jóna Sigurðardóttir.
Vöxtur og valdefling Hjallastefnunnar
Alls starfrækir Hjallastefnan 15 leikskóla á landinu í 11 sveitarfélögum, sex á höfuðborgarsvæðinu, tvo í Reykjanesbæ, einn í Suðurnesjabæ (Sandgerði) auk sex leikskóla á landsbyggðinni; á Skagaströnd, í Ísafirði, á Akureyri, á Bifröst í Borgarfirði, Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum. Einnig rekur Hjallastefnan þrjá grunnskóla í þremur sveitarfélögum fyrir börn á aldrinum
5-12 ára; Barnaskólann í Reykjavík, Garðabæ og Hafnarfirði. Hjá Hjallastefnunni starfa tæplega 500 manns og eru nemendur tæplega 2000 talsins. Allir 18 skólar Hjallastefnunnar starfa sjálfstætt undir stjórn skólastjóra sem ber ábyrgð á daglegum rekstri skólans. Hver skóli hefur sína eigin menningu en allir starfa þeir að sameiginlegu markmiði og eftir sömu námskrá en skapa sitt einstaka andrúmsloft og menningu. Skólastjórnendur starfa einnig í náinni samvinnu sín á milli og við rekstrarskrifstofuna, Hjallamiðstöð, sem þjónar skólunum rekstrarlega og fjárhagslega. Allir skólarnir starfa samkvæmt hugmyndafræði Hjallastefnunnar, eiga sameiginlegt markmið sem byggja á stoðum og meginreglum stefnunnar. Þá er valdefling kvenna enn fremur eitt af leiðarljósum Hjallastefnunnar enda var skólinn stofnaður af konu, allur reksturinn er í höndum kvenna, nær allir stjórnendur eru konur, meirihluti eiganda eru konur og starfsfólk leik- og grunnskóla er að meirihluta konur.
Meginreglurnar sex og kynjanámskrá
Frá upphafi var sýnin fyrir nýjan skóla skýr og einföld. Hún var sú að tryggt skyldi að hverju einasta barni liði vel í skólanum. Hjallastefnan setti sér því snemma meginreglur sem enn þann dag í dag marka allt skólastarfið, þar sem jafnrétti er grunnstefið í allri nálgun í starfseminni. Lýðræði meðal barna og starfsmanna er í hávegum haft og kraftur sköpunar er nýttur börnunum til handa. Hjallastefnan byggir á sex meginreglum sem hafa það markmið að byggja upp jákvæða og kærleiksríka skólamenningu. Mikilvægasta meginreglan er þó sú að mæta skuli hverju barni eins og það er og af virðingu en Hjallastefnan viðurkennir ólíkar þarfir aldurshópa, kynja og einstaklinga. Önnur meginregla er sú að stuðla skuli að því að jákvæðni, gleði og kærleikur séu ráðandi öfl í samskiptum starfsfólks og í öllum samskiptum við börn, foreldra og aðra sem koma að málefnum skólans. Að auki búa skólarnir að sérstakri kynjanámskrá sem er í forgrunni í öllu skólastarfinu og unnið er kerfisbundið að jafnrétti kynjanna, allt skólaárið. Kynjaskipting er notuð til að tryggja jafnræði stúlkna og drengja og gefa báðum kynjum uppbót á þeim sviðum sem ekki tilheyra hefðbundnum kynjahlutverkum. Þannig hafa kynin farið á mis við ólíka þjálfun í samfélagi sem ekki hefur enn náð jafnréttis- markmiðum sínum.
Hjalli-model
Hjalli-model er systurfyrirtæki Hjallastefnunnar sem rekið hefur skólann Elmwood í Glasgow síðan 2018. Skólinn starfar samkvæmt hugmyndafræði Hjallastefnunnar og hafa skoskir foreldrar og börn tekið þessum nýja valkosti opnum örmum. Til Hjallastefnunnar streyma reglulega gestir úr öllum heimsálfum og hafa margir gert skólastarfinu góð skil í fjölmiðlum. Áframhaldandi þróun er á Hjalli-model en mikill áhugi erlendis ber vott um aukna eftirspurn eftir nýjum hugmyndum í skólastarfi á alþjóðavísu.
Stofnandi Hjallastefnunnar Margrét Pála Ólafsdóttir
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að fyrsti leikskólinn var stofnaður á Hjalla í Hafnarfirði. Frá upphafi hefur sýnin verið skýr, að tryggja velferð hvers einasta barns, mæta því og þeirra þörfum og stuðla að vellíðan í skólanum. Árangur Hjallastefnunnar hefur verið ótrúlegur vöxtur og telur nú 18 skóla. Kannanir sýna að ánægja starfsfólks og foreldra er með hæsta móti hérlendis. Faghlutfall kennara er einnig með því hæsta sem gerist á Íslandi. Sýna langir biðlistar skólanna fram á mikla eftirspurn foreldra eftir inngöngu í Hjallastefnuskóla.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd