Hjálpræðisherinn er alþjóðleg evangelísk hreyfing, hluti af hinni almennu kristnu kirkju. Boðskapurinn grundvallast á Biblíunni. Þjónustan er knúin af kærleika Guðs. Verkefnið er að boða fagnaðarerindi Jesú Krists og í hans nafni mæta þörfum fólks án mismununar. Þetta sjónarmið er grundvallað með orðunum „súpa, sápa og hjálpræði“ eða mettun hins hungraða, virðingu fyrir þann niðurbeygða og boðun hins frelsandi kærleika Guðs.
Hjálpræðisherinn starfar nú í 131 landi og starfsmenn á heimsvísu eru yfir 110.000. Starfsemin er fjölbreytt en auk kirkjustarfs rekur Hjálpræðisherinn meðal annars barnaheimili, meðferðarúrræði og gistiskýli fyrir heimilislausa í hinum ýmsu löndum. Hjálpræðisherinn starfar á þremur stöðum á Íslandi, í Reykjavík, Reykjanesbæ og á Akureyri og frá árinu 2012 hefur verið hægt að skrá sig í trúfélag Hjálpræðishersins. Hjálpræðisherinn á Íslandi er rekinn í sameiginlegu umdæmi með Noregi og Færeyjum. Höfuðstöðvar umdæmisins eru í Osló en höfuðstöðvar starfseminnar á Íslandi eru í Reykjavík. Upphafið að starfsemi Hjálpræðishersins má rekja til ársins 1865 þegar hjónin Catherine og William Booth hófu að bera út fagnaðarerindið í fátækrahverfi í London. Á fáum árum breiddist starfsemi Hjálpræðishersins út um allan heim og festi hreyfingin fætur hér á landi árið 1895. Frumherjar starfsins hér voru foringjarnir Christian Erichsen og Þorsteinn Davíðsson. Á upphafsárinu festu þeir kaup á steinhúsi í miðbæ Reykjavíkur sem hefur gjarnan verið kallað Herkastalinn. Árið 2016 var Herkastalinn seldur og nú standa yfir framkvæmdir við nýtt húsnæði við Suðurlandsbraut. Áætluð verklok eru haustið 2020. Nýja húsnæðið mun hýsa starfsemi Hjálpræðishersins í Reykjavík, aðalskrifstofu Hjálpræðishersins á Íslandi, Hertex verslun, kaffihús og velferðarstarf. www.herinn.is
Fjölbreytt starfsemi
Velferðarstarf: Meginmarkmið velferðarstarfs Hjálpræðishersins er að mæta öllum mannlegum þörfum með náungakærleik, óháð efnahag, þjóðerni, menningu eða trú viðkomandi einstaklings. Hjálpræðisherinn stendur fyrir alls kyns fjársöfnunum og fyrirbænum fyrir bágstadda skjólstæðinga.
Barna- og unglingastarf (BUH): Helsti tilgangur BUH er að breiða út fagnaðarerindið um Jesú Krist til barna og unglinga. Það er gert í gegnum ýmis konar viðburði, hópa o.fl., til dæmis sunnudagaskóla, barna- og unglingafundi. Starfið miðar að því að hjálpa börnum og unglingum að þroska hæfileika sína og byggja upp jákvætt samfélag með náungakærleika og virðingu að leiðarljósi.
Hertex nytjamarkaður: Hertex rekur þrjár verslanir, tvær í Reykjavík og eina á Akureyri. Þar er tekið við notuðum fatnaði og munum og ágóði starfseminnar rennur í velferðarsjóð. Umhverfisvernd er mikilvægur þáttur í starfsemi Hertex enda endurnýting mikilvægt skref í átt að bættri umgengni um jörðina. Í Hertex eru allir velkomnir og áhersla er lögð á að gefa fólki framtíðarvon með valdeflingu.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd