Hjartavernd

2022

Hjarta-og æðasjúdómar eru í dag næst algengasta orsök ótímabærra dauðsfalla á Íslandi, en voru um tíma algengasta dánarmeinið, sérstaklega meðal karla. Árið 2015 létust 20% kvenna og 27% karla af slíkum völdum. Þessi óboðni fylgifiskur aukinnar velmegunar á Vesturlöndum var þegar orðinn að miklu heilbrigðisvandamáli fyrir um 60 árum. Af þeim ástæðum höfðu margir misst heilsuna í blóma lífsins og enn aðrir áttu um sárt að binda eftir að hafa horft á eftir sínum nánustu lúta í lægra haldi fyrir þessum geigvænlega vágestum. Hér dugði því ekki eingöngu að greina sjúkdómana, heldur líka að stilla saman strengi og snúa vörn í sókn með fyrirbyggjandi aðgerðum.Landsamtökin Hjartavernd voru stofnuð árið 1964, en helstu frumkvöðull þeirra var Dr. Sigurður Samúelsson (1911-2009), þáverandi læknir á Landspítalanum og prófessor við Háskóla Íslands. Á þessum tíma höfðu verið starfrækt um 20 hjarta- og æðaverndarfélög á landinu, en þau sameinuðust opinberlega undir einu merki Hjartaverndar þann 25. október þetta sama ár. Í fimmtíu ár hefur meginmarkmið og tilgangur samtakanna snúist um að stunda rannsóknir til greiningar á orsakavöldum hjarta- og æðasjúkdóma, tíðni þeirra og þróun, byggja upp fræðsluefni út frá því og leita leiða til að sporna við öllum mögulegum sjúkdómsvöldum í þessa veru. Með Öldrunarrannsókn Hjartaverndar hefur Hjartavernd einnig rannsakað aðra algenga langvinna sjúkdóma sem fyrst og fremst herja á aldraða eins og beinþynning, heilabilun og lungnasjúkdómar. Frá árinu 2005 hefur Hjartavernd verið rekin í formi sjálfseignarstofnunar með eigin stjórn og fulltrúaráð. www.hjarta.is

Rannsóknarstöð Hjartaverndar
Hjarta- og æðasjúkdómar geta grafið um sig í líkamanum alveg frá barnæsku og því er ekki ráð nema í tíma sé tekið. Frá árinu 1967 hefur verið starfrækt sérstök Rannsóknastöð Hjartverndar þar sem fram fara vísindalegar athuganir og skipulegar hópleitir að meinsemdum. Frá upphafi hefur viðamesti þáttur starfseminnar verið svonefnd Hóprannsókn Hjartaverndar þar sem sem megintilgangurinn er að greina helstu einkenni hjarta- og æðasjúkdóma. Reglan var sú að þátttakendur væru ákveðið slembiúrtak úr þjóðskrá af fólki sem er fætt er á árunum 1907-1935. Á löngum tíma hefur Hóprannsókn Hjartaverndar gefið af sér mjög gagnlegar niðurstöður frá rúmlega 30.000 Íslendingum og á þeim byggst um mikill grundvöllur þekkingar á helstu áhættuþáttum kransæðasjúkdóma. Samfara rannsóknum hafa verið þróuð ítarleg reiknilíkön eða áhættureiknir þar sem innbyrðis vægi áhættuþáttanna er skoðað og hægt að reikna líkurnar á kransæðasjúkdómi á næstu 10 árum. Úr sama úrtaki byggist Öldrunarrannsókn Hjartaverndar, en fyrsti áfangi hennar höfst 2002. Áhættuþáttakönnun Hjartaverndar hófst árið 2006 með þátttakendum sem fæddir eru á árunum 1935-1985. Rannsakaðir voru 7000 einstaklingar með ítarlegum æðarannsóknum. Í samvinnu við heilsugæsluna og var útbúinn nýr áhættureiknir sem finnur æðaskellur hjá einstaklingum sem hafa lága- eða miðlungsáhættu á að fá kransæðasjúkdóm og hafa oftast enga áþreifanlega áhættuþætti um æðakölkun. Þessir einstaklingar fengu klapp á bakið en lentu svo í því að fá áfall. Unnið er að því að þessi nýi áhættureiknir verði innleiddur um allt land. Hjartavernd er í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi og stór hluti rannsókna er styrktur erlendis frá eins og af Evrópusambandinu og Bandaríska heilbrigðisstofnuninni.

Áhættumat Hjartarannsóknar ehf.
Á árinu 2005 stofnaði Hjartavernd einkahlutafélagið Hjartarannsókn til að annast áhættumat Hjartaverndar og fer starfsemi þess fram í húsnæði móðurfélagsins í Kópavogi. Meginhlutverk Hjartarannsóknar ehf. er að standa fyrir opnu og vísindalega stöðluðu áhættumati fyrir almenning. Í slíkum athugunum fara fram mælingar á helstu áhættuþáttum hjá einstaklingum og síðan er lagt fyrir þá heildstætt og persónulegt mat á því hverjar líkurnar eru á hjarta- og æðasjúkdómum síðar á lífsleiðinni. Áhættumatið hefur tekið miklum breytingum í áranna rás, enda hefur það fylgt öflugu vísindastarfi Hjartaverndar. Í dag miðast helstu grundvallarþættir matsins við reykingar, blóðfitu- og blóðþrýstingsmælingar, ættarsögu, offitu, sykursýki og hreyfingaleysi. Við áhættumatið er notaður fyrrnefndur áhættureiknir Hjartverndar.

Áhættuþættir sem eru notaðir í Áhættureikni Hjartaverndar:
Aldur
Hæð og þyngd
Kólesteról, HDL og þríglýseríð
Efri mörk blóðþrýstings
Reykingar
Hreyfing
Fjölskyldusaga (faðir, móðir eða systkin)
Sykursýki

Myndgreining Hjartaverndar
Árið 2017 stofnaði Hjartavernd Myndgreiningu Hjartaverndar ehf. Þar eru hvoru tveggja gerðar þjónusturannsóknir samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands sem og vísindarannsóknir með tækjabúnaði í fremstu röð í heiminum.

Útgáfa og fræðsla
Til að sinna hlutverki sínu sem best hefur Hjartavernd staðið fyrir útgáfu ýmissa ritaðra fræðslubæklinga um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma. Að auki er mikil áhersla lögð á að koma niðurstöðunum rannsókna út til almennings og heilbrigðisstarfsfólks. Árið 2007 var gefin út yfirgripsmikil handbók sem inniheldur samanteknar rannsóknaniðurstöður úr starfsemi Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar (www.hjarta.is). Unnið er jöfnum höndum að uppfæra handbókina en þar eru upplýsingar um áhættuþætti, algengi og afleiðingar kransæðasjúkdóma á Íslandi. Þar kemur t.d. fram að miklir áfangasigrar hafa náðst í baráttunni fyrir tilstilli framþróunar í læknavísindum en samt eru tugþúsundir Íslendingar lifandi með fyrirbyggjanlegar afleiðingar æðasjúkdóma. Því er enn mjög mikilvægt að halda áfram leit að óþekktum áhættuþáttum.

Aðsetur og mannafli
Frá árinu 2002 hefur Hjartavernd verið í vistlegu húsnæði í Holtasmára 1 í Kópavogi. Þar starfa 25 manns. Starfsfólkið samanstendur að mestu af læknum og hjúkrunarfræðingum með áralanga reynslu í greiningu og meðferð hjarta- og æðasjúkdóma. Að öðru leyti er um að ræða breiðan hóp fólks með ólíka menntun að baki, en innan raða samtakanna má t.d. finna líf-, lífeinda-,töl-, verk- og geislafræðinga ásamt sjúkraliðum og fólki úr ýmsum öðrum starfsstéttum. Allir vinna að því sameiginlega markmiði að ástunda sínar rannsóknir af áreiðanleika og vísindalegri nákvæmni. Verkefni starfsmanna eru fjölbreytileg og tengjast hóp- og öldrunarrannsóknum á sviði erfðafræði, myndgreiningu, úrvinnslu gagna og gæðastjórnun. Fræðsla hefur alltaf verið fyrirferðamikill hluti í starfseminni og Hjartavernd lagt mikla áherslu á að koma niðurstöðum rannsókna sinna til heilbrigðisfagfóks og almennings.

Fjáröflunarleiðir Hjartaverndar
Til að styrkja gjöfult starf Hjartaverndar eru ýmsir möguleikar í boði. Hægt er að panta minningarkort og fylla það út á heimasíðunni, en einnig er hægt að gerast beinn styrktaraðili með reglulegum greiðslum. Að þessu leyti hefur þó mestu munað um nokkra velunnara sem hafa arfleitt stofnunina að hluta eða öllum sínum eigum. Slíkur hlýhugur er seint metinn til fulls og er skýrasta dæmið um þann velvilja sem Hjartavernd nýtur meðal þjóðarinnar.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd