Höfðavélar ehf. var stofnsett á Húsavík á vordögum 2002, þegar vinnuvélarekstur sá er Jóhannes Geir Einarsson hafði rekið áratugina á undan, var færður í hlutafélagaformið. Á sama tímapunkti gekk sonur hans, Vilberg Njáll Jóhannesson, inní reksturinn. Félagið á sér langa og farsæla sögu. Vorið 1963 stofnuðu feðgarnir Einar M. Jóhannesson (eldri) og Jóhannes Geir Einarsson félag sem nefnt var Jarðvinnuvélar hf. utan um rekstur á nýrri Ferguson traktorsgröfu. Fyrsti vinnudagurinn á hinni nýju vél var 3. júní 1963 og fyrsta verkefnið í húsgrunni að Garðarsbraut 44 á Húsavík. Jóhannes sá um vélavinnuna, 16 ára gamall.
Fyrirtækið og þróun þess
Félagið óx og við bættust vélar og bílar, ásamt því að yngri bróðir Jóhannesar, Baldur Einarsson, bættist í hluthafahópinn. Unnið var mest í Suður-Þingeyjarsýslu og á Húsavík, en einnig farið eftir verkefnum í Öxarfjörð og á Melrakkasléttu. Meðal verkefna má nefna grunn undir birgðageymslu Kísliliðjunnar við Húsavíkurhöfn, vinnu við hitaveituvæðingu Húsavíkurkaupstaðar og björgun á síldarmjölsfarmi úr strönduðu flutningaskipi við Raufarhöfn, ásamt fjölmörgum öðrum verkefnum tengdum uppbyggingu svæðisins.
1971 var félaginu svo skipt upp og hélt Jóhannes einn áfram rekstrinum á Húsavík, undir eigin nafni. Fékk hann í sinn hlut Ferguson vélina sem markaði upphafið árið 1963 og notaði hana þangað til ný vél, Ferguson 50 B, var keypt 1974. Einar fékk í sinn hlut tæki sem hann flutti með sér til Akureyrar og gerði út þar í nokkur ár. Baldur hvarf til annara starfa.
Ekki var því að fagna að næg vinna væri fyrir vélina á ársgrundvelli, enda ekki orðið til siðs á þessum árum að allar götur þyrftu að vera orðnar greiðfærar þegar bæjarbúar risu úr rekkju á snjóþungum vetrarmorgnum. Því var vélinni oft lagt á haustin og bilið brúað með vinnu í línuflokki Símans, skipavinnu og öðru sem til féll.
1982 var fyrsta JCB traktorsgrafan af mörgum keypt og jafnframt sú fyrsta með framdrifi. Uppúr þessu fór einnig verklag á svæðinu að breytast og kröfurnar um snjómokstur að aukast. Þetta gerði reksturinn allan auðveldari. Á þessum sama tíma fóru einnig synir Jóhannesar að sýna rekstrinum áhuga og var sá eldri, Einar var um tíma vélamaður á Ferguson vélinni, en hún var gerð út samhliða hinni nýju JCB vél um tíma. Sá yngri, Vilberg, sem þarna var að vísu aðeins þriggja ára gamall, gerðist hinsvegar sérlegur aðstoðarmaður föður síns og hélst það fyrirkomulag allt þangað til að drengurinn hóf grunnskólagöngu. Var stráksi vakinn flesta morgna og dröslað út í vél, þar sem hann tók þátt í verkefnum fullorðna fólksins yfir daginn. Útbúið var bæli fyrir drenginn í hægri hlið stýrishússins og gat hann lagt sig þar, ef þreytan sótti á.
1989 er enn komið að endurnýjun á tækjakostinum og ný JCB traktorsgrafa keypt. Á þessum árum var botnlaus vinna, snjóþungir vetur og mikil endurbygging á innviðum Húsavíkurkaupstaðar. Var þessi vél notuð gríðarlega mikið þau fjögur ár sem hún var í notkun hjá Jóhannesi og svo mikið að undrun vakti hjá kollegum hans annarsstaðar á landinu. Var vinnuframlagið að langmestu aðeins á herðum Jóhannesar. Næstu ár voru góð og gáfu svigrúm fyrir hraðari endurnýjun og eflingu flotans. Mörkuð var sú stefna að endurnýja traktorsgröfuna á þriggja ára fresti og hélt það kerfi næstu árin, með reglulegum sendingum frá JCB í Bretlandi. Vorið 1995 markar svo upphafið af því sem nú er. Keypt er fyrsta JCB mini-grafan og Vilberg, sem þarna var aðeins 16 ára, gerður ábyrgur fyrir henni. Fékk þessi vél og hinn ungi vélamaður strax góðar viðtökur og voru verkefnin næg. Áfram var unnið að frekari þróun rekstursins og urðu töluverðar breytingar á næstu árum. Keypt var verkstæði 1996 og komst þá reksturinn í fyrsta skipti undir eigið þak frá tímum Jarðvinnuvéla sf. Einnig var hafin útgerð á götusóp og keypt var hjólaskófla, sem fyrst og fremst var hugsuð fyrir snjómoksturinn. Var nú umfangið orðið það mikið að það stóð undir tveimur ársverkum. Verkefnin voru svipuð og áður og byggðust helst á vinnu fyrir hið opinbera, fyrirtæki og einstaklinga á Húsavík og þar í kring.
Höfðavélar verða til
Á vordögum 2002 var ákveðið að breyta fyrirkomulaginu. Vilberg hafði eytt nokkrum árum þar á undan við að kanna litinn á grasinu annarsstaðar og hafði snúið til baka. Tóku menn ákvörðun um að komin væri tími til að breyta rekstrinum, færa hann uppá næsta stig og tryggja hann til framtíðar. Stofnað var einkahlutafélagið Höfðavélar ehf. og urðu eigendur hjónin Jóhannes Geir Einarsson og Vilborg Njálsdóttir, með um helming hlutafjár og sonurinn Vilberg Njáll Jóhannesson með hinn helminginn. Næstu ár einkenndust af öruggri uppbyggingu, þar sem hver króna sem afgangs var, var nýtt til eflingar fyrirtækisins. Hóf fyrirtækið rekstur vöru- og kranabifreiða, ásamt því að styrkja vélaflotann og auka fjölbreytni hans. Hlutfall stærri verkefna hefur aukist mikið hin síðar ár og samsetning vélaflotans fylgt því. Fyrirtækið á í dag góðan flota vinnuvéla og er með hátt hlutfall af nýlegum tækjum í sinni þjónustu. Meðal helstu tækja má nefna 25 tonna beltagröfu m/gps, 16 tonna hjólagröfu m/gps, tvær hjólaskóflur, traktorsgröfu, fjórar beltagröfur frá 1,5 tonni og uppí 10 tonn, valtara, þrjá götusópa í mismunandi stærðum, þrjár vörubifreiðar í ýmsum útfærslum og annan búnað sem svona rekstri fylgir.
Hlutfall útboðsverkefna hefur aukist verulega hin síðari ár. Þó hefur gamli grunnurinn alltaf verið til staðar og lögð áhersla á að gleyma ekki grunngildunum og gæta þess að vera áfram til staðar fyrir þá verkkaupa sem haldið hafa tryggð við okkur alla tíð. Meðal stærstu verkefna sem Höfðavélar hafa unnið undanfarin ár má nefna að fyrirtækið var aðalverktaki við glæsilegan gervigrasvöll Húsvíkinga. Er þar, samkvæmt „hlutlausu“ mati, einn allra glæsilegasti íþróttavöllur landsins. Einnig vann fyrirtækið stórt gatnagerðarverkefni fyrir Norðurþing, í tengslum við uppbyggingu innviða bæjarins samhliða byggingu stóriðju á Bakka og hluta af nýjum vegi að Þeistareykjum. Ýmis smærri gatnagerðarverkefni, þjónusta við byggingarverktaka, veitustofnanir og Vegagerðina.
Fyrirtækið stendur á traustum grunni og engin ástæða til að ætla að nokkuð breytist í þeim efnum á komandi árum. Feðgarnir Jóhannes og Vilberg sinna áfram daglegum rekstri eins og verið hefur og dregur sá eldri ekkert af sér, þó orðinn sé 72 ára gamall. Starfsmannafjöldi er nokkuð breytilegur, en kjarni 6-10 einstaklinga hefur fylgt fyrirtækinu síðustu ár. Fyrirtækið hefur aðsetur að Höfða 1a á Húsavík.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd