Hólmadrangur ehf

2022

Rækjuvinnsla hófst á Hólmavík árið 1965 með handpillun á rækju að frumkvæði Þorgeirs Guðmundssonar kaupfélagstjóra og Jóhanns Guðmundssonar útgerðarmanns. Í upphafi var búnaður mjög frumstæður og var til að mynda gamall aflóga gufuketill dreginn upp á land úr flæðamálinu til að nota við suðu á rækjunni. Síðan þá hefur rækjuvinnsla verið starfrækt á Hólmavík og vaxið ásmegin. Búnaður er orðinn mjög fullkominn og gæði framleiðslunnar eins og best gerist á heimsvísu, enda fer framleiðslan eftir ströngustu stöðlum og vottunum. Lengst af var vinnslan á forræði Kaupfélags Steingrímsfjarðar en 13. október 1978 var Hólmadrangur hf. stofnaður um rækjuvinnsluna og lét meðal annars smíða skuttogarann Hólmadrang ST 70 árið 1983 en útgerðarhlutanum hefur verið hætt í dag. Í desember 2001 var félaginu breytt í einkahlutafélag. Kaupfélag Steingrímsfjarðar fór út úr rekstrinum árið 2019 þegar að dótturfélag Samherja hf., Snæfell ehf. keypti reksturinn og rekur nú vinnsluna á Hólmavík. Fljótlega eftir að rækjuvinnslan hófst árið 1965 varð vinnslan einn helsti burðarás atvinnulífsins á Hólmavík og er Hólmadrangur ehf. einn af stærstu vinnustöðum á Strandabyggð.

Starfsemin
Árið 2020 störfuðu 23 fastráðnir starfsmenn við fyrirtækið. Vinnslugeta Hólmadrangs ehf. er um 5.000 tonn á ári af ópillaðri rækju. Í verksmiðjunni er rækjan soðin, pilluð, hreinsuð, fryst, stærðarflokkuð, íshúðuð og pökkuð í ýmsar pakkningastærðir eftir þörfum kaupenda. Rækjan er afhent frá Hólmadrangi frosin og tilbúin til neyslu við þýðingu, t.d. beint í salöt, súpur, pastarétti, samlokur, eggjakökur, djúpsteikt eða á pönnuna með hvítlauk. Stærstu viðskiptavinir Hólmadrangs ehf. eru dreifingaraðilar inn á smásölumarkað í Bretlandi, s.s. til stórra verslunarkeðja, veitingaþjónustu, hótela og veitingastaða, enda er rækjan vinsæl á veisluborðið og í allskonar heilsurétti. Árið 2020 dróst framleiðslan saman vegna minnkandi eftirspurnar á mörkuðum í skugga COVID-19 faraldurs, en afurðin er flutt út að mestu til Bretlands. Búist er við því að markaðir glæðist aftur um mitt árið 2021 þegar sól hækkar á lofti og fólk sækir á ný veislur og veitingastaði. Við vinnsluna fellur til rækjuskel sem er nýtt til margra hluta og er send til áframvinnslu, í vinnsluvatninu leynast einnig ónýttir möguleikar.

Stjórnendur
Rekstrarstjóri Hólmadrangs ehf. er Sigurbjörn Rafn Úlfarsson, Gestur Geirsson er fram-kvæmdastjóri landvinnslu Samherja hf. sem Hólmadrangur ehf. heyrir undir. Stjórnarformaður Hólmadrangs ehf. er Viktoría Rán Ólafsdóttir.

Framtíðin
Stjórnendur og starfsfólk Hólmadrangs horfir bjartsýnum augum til framtíðar með auknum markaðsmöguleikum og þróunar á vörum úr rækjunni.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd