Hópferðamiðstöðin TREX ehf.

2022

Öryggi og þjónusta alla leið
Hópferðamiðstöðin hf. tók formlega til starfa 15. maí árið 1977 og fagnaði því 40 ára afmæli 2017. Hún var frá upphafi afgreiðslustöð fyrir hópferðabíla, en stofnendur voru fjörutíu hópferðaleyfishafar. Hópferðamiðstöðin hefur frá stofnun annast útleigu á bílum sem eru í eigu félagsmanna sjálfra. Eigendur hópferðabifreiða höfðu komið á fót afgreiðslu af sama tagi ellefu árum fyrr, en hún var einnig nefnd Hópferðamiðstöðin og starfaði í Skipholti 35. Hópferðamiðstöðin er því upphaflega stofnuð 1966, nánar tiltekið 2. júlí það ár, en samfelld saga hennar verður rakin frá árinu 1977. Þegar starfsemin var endurreist 1977 var henni fundinn staður við Suðurlandsbraut í fremur óhentugu húsnæði, en það aftraði ekki stöðinni frá því að flytja 45 þúsund farþega fyrstu tvö starfsárin. Fljótlega flutti Hópferðamiðstöðin í Skeifuna 8, en árið 1984 fékk hún úthlutaðri lóð við Bíldshöfða 2a og reisti þar hús yfir til starfsemina til bráðabirgða.
Umsvif fyrirtækisins hafa aukist jafnt og þétt undanfarna áratugi. Frá stofnun hefur verið stefnt að því að veita úrvalsþjónustu og þess vegna hafa verið takmarkanir á skráningu bifreiða hjá stöðinni. Viðskiptavinir eiga að geta treyst því að allir bílar stöðvarinnar séu vandaðir og öruggir, en um tíma notaðist Hópferðamiðstöðin við slagorðið: „Öryggi og þjónusta alla leið.“ Slagorð sem enn á vel við.
Hópferðamiðstöðin flutti árið 1996 í nýtt og sérhannað húsnæði við Hestháls 10. Aftan við skrifstofuhúsið var reist hús til að þjónusta og þvo bílana, en steinveggur skilur þar á milli. Húsið hefur þannig tvö andlit og hefur reynst ákaflega vel. Þar er auk skrifstofunnar biðstofa og kaffistofa fyrir bílstjóra og einnig gisti- og hvíldarþjónusta fyrir bílstjóra sem margir eiga heima utan Reykjavíkur.

Starfsemin
Þjónustan hefur aukist ár frá ári, en stærsta breytingin varð sumarið 2002 þegar Hópferða-wmiðstöðin sameinaðist Vestfjarðaleið, en það fyrirtæki var stofnað 1955. Þar með hófst formlegur ferðaskrifstofurekstur á vegum Hópferðamiðstöðvarinnar, en Vestfjarðaleið hafði starfrækt ferðaskrifstofu um árabil. Sumarið 2002 var boðið upp á ferðir til Genfar og Zürich í Sviss í samstarfi við svissneska aðila og líka til St. John´s á Nýfundnalandi, svo dæmi sé tekið. Vestfjarðaleið hafði upphaflega verið stofnað sem sérleyfisfyrirtæki sem annaðist akstur á sérleiðum á Vestfjörðum, eins og nafnið gefur til kynna. Þegar halla tók undan fæti í sérleyfisakstri sneru eigendurnir sér að ferðaskrifstofurekstri og árið 1993 öðlaðist Vestfjarðaleið fullt ferðaskrifstofuleyfi. Ferðaskrifstofan tók aðallega á móti ferðamönnum frá Austurríki og Þýskalandi, annað hvort í ferðir sem erlendar ferðaskrifstofur höfðu skipulagt eða þá að Vestfjarðaleið annaðist sjálf skipulagninguna frá grunni. Vestfjarðaleið bauð einnig upp á ýmsar eftirminnilegar ferðir innanlands fyrir Íslendinga, þar með talið á söguslóðir Njálu með Jóni Böðvarssyni fræðimanni, en þær nutu mikilla vinsælda. Að auki annaðist Vestfjarðaleið flutninga fyrir Ferðafélag Íslands allan ársins hring um langt árabil.

Hópferðamiðstöðin er með tengsl við þaulvana bílstjóra og hópferðabílaeigendur um land allt. Það er mikill kostur að hafa svo vítt net hópferðabíla og ævinlega á að vera hægt að fá bíl óski menn þess, jafnvel með mjög skömmum fyrirvara. Hópferðamiðstöðin er hvort tveggja í senn, afgreiðsla hópferðabíla og ferðaskrifstofa. Frá árinu 2006 hefur eiginlegt heiti starfseminnar verið TREX, sem er stytting á orðunum „Travel Experiences“ en í nútímanum er nauðsynlegt að notast við einfalt heiti sem er þjált í munni íslenskra sem erlendra ferðalanga.

Bílaflotinn
TREX hefur nú um 75 bifreiðar tiltækar til aksturs á sumrin og 55 bíla sem eru vel búnir til vetraraksturs. Fyrirtækið getur annast allt frá skutli innanbæjar upp í krefjandi hálendisferðir á fjallabílum. Hópferðabílar stöðvarinnar eru með frá 14 sætum og upp í 69 sæti og bílarnir eru búnir öryggisbeltum í öllum sætum.

Ferðaþjónusta
Yfir sumartímann býður Hóferðamiðstöðin upp á daglegar ferðir inn í Langadal og Bása í Þórsmörk og til baka samdægurs. Sumaráætlunin fyrir Þórsmörk hefst 15. júní og stendur yfir til 9. september. Brottför er frá þremur stöðum, kl. 7.30 frá Ráðhúsi Reykjavíkur, kl. 7.45 frá tjaldstæðinu í Laugardal og kl. 8.00 frá Miklubraut við Kringluna. Einnig er ekið með farþega inn í Landmannalaugar en sú áætlun hefst 21. júní og stendur til 9. september. Áætlunarbíllinn hefur einnig viðkomu í Hveragerði, á Selfossi, á Hellu, á Leirubakka og á Rjúpnavöllum, vilji farþegar taka sér far frá þessum stöðum. Hópferðamiðstöðin hefur um árabil annast sérhannaðar jarðfræðiferðir fyrir erlenda skólahópa sem notið hafa mikilla vinsælda. Mjög er vandað til alls undirbúnings með þarfir skólanna að leiðarljósi. Bretland hefur fram til þessa verið stærsti markhópurinn en verkefnið er kynnt árlega á sölusýningum þar í landi. Markhópunum fer fjölgandi og hafa hópar komið frá Norður-Ameríku, Evrópu, sem og Mið-Austurlöndum og hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér.
Starfsfólk ferðaskrifstofu TREX aðstoðar við skipulagninu hópferða innanlands. Við ökum skólahópum, íþróttafélögum, fyrirtækjum, starfsmannafélögum, klúbbum, fjölskyldum og hverjum sem er. Nefna má mörg sérhæfð verkefni okkar meðal annars akstur skólabarna fyrir grunnskólana í Reykjavík, Vinnuskóla Reykjavíkur og leikskólakstur. Hjá okkur er góð reynsla og þekking á hvers konar ferðamöguleikum og erum við fús til að veita ráðgjöf í þeim efnum.
Tilvalið er að leita til Hópferðamiðstöðvarinnar ef leið hópsins liggur á árshátíðina, þorrablótið, eða þá í sælkeraferð, vettvangsferð, skíðaferð, jólatrésferð, á fundi og ráðstefnur. Hafið samband á [email protected] og við sendum tilboð um hæl.
Hópferðamiðstöðin hefur verið meðal brautryðjenda í ferðaþjónustu og fólksflutningum á Íslandi. Starfsfólk ferðaskrifstofunnar byggir á áratugareynslu og veitir úrvalsþjónustu. Fjölhæfur bílakostur TREX er eins og hann gerist bestur á Íslandi. Sú staðreynd ásamt lipru og þaulvönu starfsfólki tryggir fyrsta flokks þjónustu.

Hesthálsi 10
110 Reykjavík
5876000
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd