Hótel Varmahlíð

2022

Hótel Varmahlíð er huggulegt fjölskyldurekið hótel, staðsett við þjóðveginn í hjarta Skagafjarðar. Við bjóðum 19 uppábúin herbergi, öll með sér baðherbergi og getum tekið við allt að 40 manns í einu. Við leggjum mikla áherslu á góða þjónustu og afslappað andrúmsloft jafnt á hótelinu og í veitingasal þar sem morgunverður er borinn fram. Yfir sumartímann er veitingastaðurinn opinn öll kvöld, fyrir gesti og gangandi, þar sem lögð er áhersla á að bjóða upp á hráefni úr héraði í samstarfi við Matarkistuna Skagafjörð. Yfir daginn bjóðum við gestum upp á vel valda létta rétti af matseðli ásamt ýmsum kaffidrykkjum og köku dagsins. Veitingasalurinn okkar tekur um 80 manns í sæti og hentar einkar vel fyrir mannamót af öllu tagi, veislur, fundi eða smærri ráðstefnur.

Eigendur og starfsfólk
Veitingarekstur hefur verið rekinn á staðnum frá 1935 og gistiþjónusta allt frá árinu 1941. Ýmsir aðilar hafa komið að gistihúsa- og veitingarekstrinum en árið 2017 kaupa Stefán Gísli Haraldsson og Unnur Gottsveinsdóttir hótelið. Stefán er heimamaður, frá bænum Brautarholti sem er rétt fyrir utan Varmahlíð, Unnur flutti í Skagafjörð árið 2008 til þess að vinna á Hótel Varmahlíð og hefur frá því búið í Skagafirði. Yfir sumartímann starfa um 10 manns hjá Hótel Varmahlíð. Alla jafna eru gestir hótelsins yfir sumartímann að mestu erlendir ferðamenn. Yfir vetartímann eru um 2 starfsmenn ásamt starfsfólki í hlutastarfi. Starfsemi hótelsins yfir vetrartímann hefur aukist jafnt og þétt en þá þjónustar hótelið til dæmis íþróttafélög í mat og gistingu, mat fyrir minni og stærri hópa og gistingu fyrir fólk sem er í vinnuferðum. Ásamt ýmsum hópum sem koma í mat og gistingu.

Starfsemin
Rekstur hótelsins er í höndum heimamanna og að sama skapi hefur meirihluti starfsmanna einnig verið heimafólk. Á veitingastað hótelsins er mikil áhersla lögð á hráefni úr héraði og hótelið er þátttakandi í verkefninu „Skagfirska matarkistan” en það vekur einmitt athygli á því besta sem hægt er að bjóða upp á úr nærumhverfinu. Stefán og Unnur hafa rekið hótelið í fjögur ár í sumar. Stærsta áskorunin hingað til er heimsfaraldur COVID-19 en þá var öllum forsendum fyrir rekstrinum kippt undan honum. Allt kapp var lagt á að sigla hótelinu á sem farsælastan hátt í gegnum þetta tímabil og vonandi sér fyrir endann á því von bráðar. Á þessum tíma hefur það aukist að Íslendingar nýti sér þjónustu hótelsins yfir sumartímann og er það mjög jákvæð þróun sem við vonum að haldi áfram meðfram komu erlendra ferðamanna. Þegar fer að rofa til í heiminum og heimsfaraldur verður á undanhaldi þá hafa eigendur fulla trú á því að erlendir jafnt sem íslenskir ferðamenn nýti sér þjónustu hótelsins í meira mæli ásamt því að hægt verður að halda ýmsa viðburði aftur en Hótel Varmahlíð hentar mjög vel fyrir ýmis konar fundar- og ráðstefnuhald ásamt því að þar eru haldnir dansleikir, jólahlaðborð, pítsahlaðborð og ýmsir fleiri viðburðir, ýmist opnir eða einkasamkvæmi.

2012

Hótel Varmahlíð í Skagafirði stendur á fallegum stað í hlíðinni fyrir ofan þjóðveginn í litla vinalega hverfinu í kringum þjónustumiðstöðina. Þarna gera flestir stuttan stans á leið sinni norður eða suður svo það er erfitt að láta þennan gamalgróna gististað framhjá sér fara.

Veitingarekstur hefur verið rekinn þarna frá 1935 og gistiþjónusta allt frá árinu 1941 og hefur hótelið ávallt verið í þjóðbraut. Ýmsir aðilar hafa komið að gistihúsa- og veitingarekstri þarna en árið 2006 kaupir Svanhildur Pálsdóttir hótelið.

Svanhildur hafði starfað sem kennari um langa hríð, borin og barnfædd í Varmahlíð. Ung að árum hafði hún starfað við hótelið og í henni blundaði áhugi á hótelrekstri svo þegar færið bauðst þá ákvað hún að slá til. Svanhildur hafði sínar skoðanir á hótel- og veitingarekstri og það endurspeglast í ásýnd og viðmóti Hótel Varmahlíðar svo ekki verður um villst. Mikið er lagt upp úr gæðum bæði hvað aðbúnað gesta og veitingastaðinn varðar. Hún gengur út frá því að bjóða upp á mat úr héraði og eru hæg heimatökin þar sem hennar ektamaður er bóndi og kornræktandi að Stóru-Ökrum 1 svo lambakjötið er ávallt ferskt af fjalli og heimaræktað kornið nýtt í brauðbaksturinn.

Svanhildur hefur tekið þátt í verkefni sem hefur verið nefnt Skagfirska matarkistan en það vekur einmitt athygli á því besta sem hægt er að bjóða upp á úr nærumhverfinu. Gestakokkar koma við og elda en sjálf er hún með fastan kokk að störfum en sú er einmitt heimamanneskja eins og aðrir sem að rekstrinum koma. Þeirra á meðal eru foreldrar Svanhildar.

Ýmsir viðburðir á þessum slóðum tengjast Hótel Varmahlíð og má til gamans nefna hið landsþekkta Hrossablót þar sem boðið er upp á skagfirskt hrossakjöt matreitt á ýmsan máta. Það þykir hið mesta lostæti að dómi þeirra sem reynt hafa. Þessi einstaki viðburður er jafnan haldinn í október ár hvert í samstarfi við Sögusetur íslenska hestsins.
Vetrarmánuðirnir eru rólegir á Hótel Varmahlíð en þó er bryddað upp á ýmsu fyrir heimamenn sem og aðra góða gesti. Þegar mest er að gera yfir sumarmánuðina eru að störfum allt að 16 manns við að þjónusta og sinna hótelgestum.

95% þeirra gesta sem njóta þjónustu Hótel Varmahlíðar eru útendingar. Hótel Varmahlíð er að þessu leyti mikilvægt við að skapa störf handa ungu fólki og stolt þess er sumpart að hafa reksturinn að öllu leyti í höndum heimamanna.
Hótel Varmahlíð hefur hentað vel til ýmissa funda og ráðstefnuhalds. Umhverfið er rólegt og útsýnið ægifagurt að vonum einkum þegar algræn skagfirsk náttúran skartar sínu fegursta.

Svanhildur leggur allt kapp á að gestunum líði sem best og fái notið þess besta sem sveitin hefur upp á að bjóða og hefur haft erindi sem erfiði.
Þegar hér er komið sögu er sjöunda starfsári fyrirtækisins að ljúka og að sögn hefur reksturinn gengið vel allt frá því Svanhildur tók við honum.

Hótelið hefur verið í samstarfi við aðra aðila í ferðaþjónustunni um afþreyingu og styttri ferðir um næsta nágrenni og beinir gestum sínum í reiðtúra, flúðasiglingar, á byggðasöfn, sundlaugar og annað sem erlendum gestum þykir mikils um vert að sjá og upplifa.

Hótel Varmahlíð er þriggja stjörnu hótel með 19 vistlegum gistiherbergjum sem skarta fallegu útsýni yfir sveitina. Við blasa græn tún og engi, fagrar ár og tignarleg fjöll. Herbergin eru með flestum þeim þægindum sem hótelgestir vilja njóta.

Hótelstýran og eigandinn Svanhildur Pálsdóttir horfir bjartsýn fram á veginn og ætlar Hótel Varmahlíð stóra hluti í framtíðinni.

Svanhildur Pálsdóttir hótelstjóri.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd