Hraðfrystihús Hellissands hf.

2022

Útgerðarfyrirtækið Hraðfrystihús Hellissands hf. á að baki yfir 70 ára sögu og er þetta því eitt af elstu fyrirtækjum á sínu sviði hér á landi. Óhætt er að segja að reksturinn hafi farið í gegnum marga öldudali sem styrk stjórn fyrirtækisins hefur staðið af sér. Hraðfrystihús Hellissands hf. er mikilvægur hlekkur í atvinnulífi í Snæfellsbæjar þá sérstaklega Rifs og Hellissands. Mörg heimili og þjónustufyritæki byggja afkomu sína á tilvist og velgengni Hraðfrystihúss Hellissands.

Sagan
Hraðfrystihús Hellissands ehf. var stofnað árið 1941 og stóð það á Hellissandi. Fyrir þann tíma hafði ekki verið fyrir hendi nein aðstaða til fullvinnslu sjávarafurða. Slæmar samgönguleiðir einangruðu plássið og var því erfitt að koma aflanum í burtu. Ekki voru neinir vegir til staðar undir Ólafsvíkurenni né fyrir Jökul og því talið eðlilegast að sæta sjávarföllum til að geta ekið fjöruna fyrir Ennið. Eina úrræðið var að íbúar og útgerðarmenn leiddu saman hesta sína og stofnuðu frystihús. Á fyrstu árunum gekk fyrirtækið í gegnum mikla erfiðleika og var oft á tímum stutt í gjaldþrot. Um miðja síðustu öld gegndi Sigurður Ágústsson starfi þingmanns fyrir Snæfellinga og ákvað hann að tala við vin sinn Rögnvald Ólafsson frá Brimisvöllum til að taka við rekstrinum. Með tilkomu Rögnvaldar árið 1950 var farið í það að fá aukið hlutafé inní fyritækið. Kristján Jóhann Kristjánsson hjá Kassagerð Reykjavíkur ásamt öðrum, lögðu inn aukið hlutafé í fyrirtækið. Hlutafjáraukningin varð til þess að skjóta styrkari stoðum undir reksturinn og koma fyrirtækinu á réttan kjöl. Með bættri samgöngum, stærri bátum og betri hafnaraðstöðu á Rifi fóru málin að snúast til betri vegar. Meiri afli barst að landi sem skilaði sér í tryggari atvinnu á svæðinu. Á sjöunda áratugnum þótti orðið nauðsynlegt að fullnýta afurðirnar betur með fjölbreyttari vinnsluaðferðum samhliða frystingu og var þá farið út í skreiðar- og saltfiskverkun auk þess að fiskimjölsverksmiðja hafði verið starfrækt frá árinu 1952. Þrátt fyrir dafnandi hag gekk reksturinn oft í gegnum miklar þrengingar. Árið 1983 varð fyritækið fyrir miklu tjóni þegar frystihúsið brann til grunna. Eftir það var tekin ákvörðun um að byggja nýtt frystihús á hafnarbakkanum við Rif og var það húsnæði tekið í notkun árið 1984.

Vinnsla
Árið 1987 fór Hraðfrystihús Hellissands að einbeita sér enn meir að rækjuveiðum, enda annáluð mið á Vesturlandi og Vestfjarðarmiðum. Á síðari hluta tíunda áratugarins kom mikið bakslag í rækjustofninn hér við land sem að olli því að veiðiheimildir minnkuðu mikið. Í kjölfarið lagði sjávarútvegsráðuneytið fram reglugerð um veiðar án seiðaskilju og gildir hún en í dag. Þetta varð til þess að Hraðfrystihús Hellissands hætti að stunda rækjuveiðar. Samdrátturinn lét einnig á sér kræla á öðrum sviðum vinnslunar. Vegna áherslubreytinga á markaði í kringum 1990 ákvað Hraðfrystirhús Hellissands að hætta að verka skreið og saltfisk. Árið 1990 til dagsins í dag hefur vinnslan nær einungis selt ferska þorskhnakka og sporða til Bretlands. Einnig eru seldir hnakkar og sporðar til Bandaríkjanna, Frakklands og Belgíu. Megnið af afurðum er flutt flugleiðina yfir til meginlandsins. Einnig er sjóleiðin líka notuð við flutning á fisk. Þorskveiðiheimildir fyrirtækisins eru í kringum 3.800 tonn og aðrar afurðir svo sem ýsa, ufsi, langa, keila, steinbítur og karfi eru hátt í 700 tonn.

Floti
Hraðfrystihús Hellissands fór seint út í það að gera út sín eigin skip. Árið 1980 keypti fyrirtækið ásamt Baldri Kristinssyni 230 tonna skip, Rifsnes SH-44, sem var útbúið öllum helstu veiðarfærum en var þó mest gert útá troll. Árið 1999 keypti Hraðfrystihús Hellissands hlutinn hjá Baldri og varð þá Rifsnes SH-44 í eigu Hraðfrystihússins. Helsti rekstrargrundvöllur Hraðfrystihúss Hellissands var að senda út ferskan fisk til meginlandsins og til að tryggja betri öflun á hráefni festi Hraðfrystihúsið kaup á 668 brúttótonna skipi árið 2008. Skipið fékk nafnið Örvar SH-777 og leysti það af hólmi eldra skip með sama nafni, var það skip keypt árið 1993. Árið 2013 festi Hraðfrystihús Hellissands kaup á 775 brúttótonna línuskipi sem fékk sama nafn og forveri þess Rifsnes SH-44, sem seldur var til Vísis í Grindavík. Með kaupunum var Hraðfrystihúsið að styrkja stöðu sína í hráefnisöflun. Þess má geta að bæði skipin eru í fullum rekstri og starfa 28 sjómenn um borð í skipunum og starfa í kringum 50 manns í vinnslu hraðfrystihússins árið 2020. Árið 2020 keypti hraðfrystihús Hellisands Esjar SH með rúmum 650 þorskígildum.

Stjórnendur og hluthafar
Árið 1974 hóf núverandi framkvæmdarstjóri Hraðfrystihús Hellissands, Ólafur Rögnvaldsson (f. 1954), störf hjá föður sínum en hafði hann verið viðloðandi fyrirtækið frá barnsaldri. Rögnvaldur Ólafsson féll frá árið 1994 og hefur Ólafur Rögnvaldsson stjórnað rekstrinum frá þeim degi. Ólafur Rögnvaldsson á þrjá syni, þá Rögnvald Ólafsson, Örvar Ólafsson og Jón Steinar Ólafsson og hafa þeir komið í auknum mæli að stjórn fyritækisins. Rögnvaldur hóf störf árið 1998, Örvar árið 2012 og Jón Steinar árið 2019. Ólafur Rögnvaldsson og fjölskylda hans eru eigendur alls hlutafjár í Hraðfrystihúsi Hellissands hf.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd