Hringdu internet og símaþjónusta

2022

Hugmyndin að stofnun Hringdu ehf. varð til árið 2010 þegar Játvarður Ingvarsson sem var nýlega útskrifaður úr rekstrarverkfræði, ásamt frænda sínum Davíð Fannari Gunnarssyni, snjöllum forritara, fundu hjá sér þörf til að skapa sér eitthvað að gera. Áður höfðu þeir hannað eina heimasíðu (hestaleit), en á þessum tíma var ekki um auðugan garð að gresja í þeim efnum. 

Sagan og starfsemin
Systir Davíðs Fannars bjó í Mexíkó á þessum tíma og var hann að leita leiða til að geta verið í símasambandi við systur sína með ódýrari hætti og saman fóru þeir félagar að brjóta heilann um hvernig það gæti orðið.  Það fyrsta sem þeir gerðu var að koma upp batteríi sem hét þá callit.is sem byggði á fyrirframgreiddum símkortum sem hægt var að kaupa á völdum stöðum, t.d. á bensínstöðvum. Aðferðin til að geta hringt ódýrt byggði á kóða sem veitti aðgang að tilteknu símkerfi og þannig var hægt að hringja til útlanda fyrir lægra gjald.  Þessi símkort voru í sölu í u.þ.b. eitt ár en þá fóru þeir frændur að hugsa um hvort hægt væri að taka þetta eitthvað lengra. Það fór svo að þeir gerðu samning við Símann og hófu að selja aðgang að internetinu í gegnum ADSL ásamt heimasíma og settu sig niður með fyrirtækið að Grensásvegi 22.  Í ársbyrjun 2011 hófu þeir að selja áskrift að interneti og heimasíma. Það varð strax handagangur í öskjunni því það var farið hratt af stað með fulltingi foreldra þeirra félaga sem voru hluthafar í fyrirtækinu. Tækjabúnaður var fremur rýr í byrjun og ekki miklir fjármunir til að fjárfesta í nýjum svo það var gripið til þess ráðs að kaupa notaða routera og tæknivæðast eins ódýrt og kostur var. Viðskiptavinir tóku vel við sér þar sem Hringdu gat boðið betur en keppinautarnir og þannig tókst að renna stoðum undir reksturinn, þótt það tæki tíma og kostaði mikla vinnu. Í árslok 2011 fer Hringdu að bjóða upp á GSM-þjónustu í gegnum fyrirtækið Alterna en gengið var fremur brösugt og erfitt að keppa við aðra sem voru í hraðri þróun og farsímagjald fór lækkandi. Árið 2013 verða straumhvörf þegar Jon Von Tetzchner kemur inn í fyrirtækið með nokkrum gusti og þá komst hreyfing á hlutina. Hann er nú stór hluthafi í Hringdu. 
Nokkur ár í röð var Hringdu með ánægðustu viðskiptavinina samkvæmt neytendakönnun (Ánægjuvogin) auk þess sem tvö ár í röð var Hringdu valið fyrirtæki ársins og fyrirmyndar-fyrirtæki fjögur ár í röð. Játvarður Ingvarsson framkvæmdastjóri, vill meina að lykillinn að velgengni Hringdu sé að þakka því hvað starfsfólkið hefur verið ötult við að vera í góðu sambandi við viðskiptavinina og sér til þess að þjónustan og allt viðmót sé þeim að skapi. 
Hjá Hringdu starfa nú 36 manns og þar leggja allir sig fram um að veita viðskiptavinum fyrsta flokks þjónustu og starfsandinn innandyra er þægilegur. Starfsmannastefnan snýst um vellíðan og sveigjanleika. Meirihluti starfsmanna er ungt fólk sem ílengist í starfi fremur en að staldra stutt við svo starfsmannavelta er lítil. Styrkur Hringdu felst í stuttum boðleiðum og hraðri ákvarðanatöku.  Eins og í upphafi er ennþá mikil áhersla á að bjóða bestu mögulegu verðin á markaðnum ásamt því að gera eins vel við viðskiptavini hverju sinni eins og kostur er.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd