Sveitarfélagið Hrunamannahreppur er í Uppsveitum Árnessýslu og er einn stærsti hreppur sýslunnar (um 1400 km2). Hreppurinn nær frá miðjum Hofsjökli til suðvesturs milli Hvítár og Stóru-Laxár að ármótum ánna og skilja því Stóra-Laxá og Hvítá hann að frá nágrannasveitum. Kerlingarfjöll, ein helsta perla hálendisins, tróna á toppi hreppsins, uppi við Hofsjökul, á afrétti Hrunamannahrepps. Íbúar sveitarfélagsins eru 832 talsins og þar af rúmlega helmingur sem býr í þéttbýlinu á Flúðum. Sérstaða svæðisins er jarðhitinn og setur hann mark sitt á atvinnulíf, menningu og daglegt líf. Mikil upbygging hefur átt sér stað á undanförnum árum og fjölbreytt verkefni eru framundan í Hrunamannahreppi. Oddviti er Halldóra Hjörleifsdóttir og sveitarstjóri Jón G. Valgeirsson.
Flúðir
Þéttbýliskjarni myndaðist í kringum jarðhitann og nafnið er dregið af flúðum sem voru í Hellisholtalæknum, sem rennur í jaðri Flúða, en þær eru nú horfnar. Barnaskóli var byggður þar 1929, þriðji heimavistarskóli landsins og jafnframt sá stærsti. Jarðhiti var notaður til að hita upp húsið og elda mat. Flúðaskóli hefur undanfarin ár verið í fararbroddi í útikennslu allt árið og fengið viðurkenningu fyrir það starf. Aðstaða er góð í grenndarskógi skólans og nemendur vinna þar fjölbreytt verkefni.
Atvinnulíf
Atvinnulífið einkennist af fjölbreyttri matvælaframleiðslu. Hefðbundinn búskapur og garðyrkja bæði útiræktun grænmetis og í gróðurhúsum gerir Hrunamannahrepp að sannkallaðri matarkistu. Frumkvöðlar hófu þar meðal annars jarðarberjarækt og svepparækt og hægt er að versla hollan mat, beint frá bændum á Flúðum. Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein.
Afþreying
Mjög fjölbreytt afþreying er í boði á Flúðum og nágrenni, svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Í sveitinni er 18 holu golfvöllur, fótboltagolfvöllur, Samansafnið, hestaferðir, fell til að klífa og skipulagðar gönguferðir á sumrin. Gamla laugin „Secret Lagoon“ í Hverahólmanum á sér merka sögu, hún er elsta sundlaug landsins frá 1891. Laugin hefur verið endurgerð og er nú vinsæll baðstaður.
Menning og mannlíf
Fjölbreytt menningar- og félagslíf er í Hrunamannahreppi. Má þar nefna öflugt tónlistar- og kórastarf, félagsmiðstöð ungmenna, ungmennafélag, kvenfélag, félag eldri borgara, björgunarfélag, hestamannafélag og fleira. Á Flúðum er stórt félagsheimili og reiðhöll þar sem ýmsir viðburðir fara fram.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd