HS Orka hf.

2022

HS Orka hefur verið leiðandi í framleiðslu á endurnýjanlegri orku í 40 ár. Hjá fyrirtækinu starfar öflugur hópur sérfræðinga með mikla reynslu á sínu sviði. Við eigum og rekum tvær jarðvarmavirkjanir, Orkuverið Svartsengi og Reykjanesvirkjun. Nýsköpun og frjó hugsun hefur ætíð verið grunnurinn í starfsemi fyrirtækisins og er grunnurinn að Auðlindagarðinum, þar sem við leggjum áherslu á að allir auðlindastraumarnir séu nýttir.

Starfsmenn og stjórnendur
Starfsmenn HS Orku eru rúmlega 70 talsins.
Stjórn fyrirtækisins:

  • Adrian Pike, stjórnarformaður
  • Bjarni Þórður Bjarnason
  • Ingunn Agne Kro
  • Heike Bergmann.

Sagan – Aðdragandinn
Á sjötta áratug 20. aldarinnar var þegar farið að ræða opinberlega um þá möguleika sem jarðhitinn gæfi Suðurnesjamönnum og nauðsyn þess að byggðarlögin sameinuðust um virkjun hans. Á bæjarstjórnarfundi í Keflavík 26. maí 1959 var kosin nefnd til að rannsaka möguleika á hitaveitu í Keflavík. Síðar á árinu var einnig kjörin hitaveitunefnd í Njarðvík.
Árið 1969 ákvað sveitarstjórnin í Grindavík að láta rannsaka Svartsengissvæðið með tilliti til jarðhita, sem átti að beisla til húshitunar í Grindavík. Voru árin 1971 og 1972 boraðar tvær holur norðan Grindavíkur, skammt frá Svartsengi. Þessar holur, sem voru 240 og 403 m djúpar, leiddu meðal annars í ljós að hér var um „há” hitasvæði að ræða (hiti var yfir 200°C undir 1.000 m dýpi) og vatnið sem kom úr holunum var salt (með um 2/3 af seltu sjávar).
Vegna seltunnar og hitastigsins var ljóst, að ekki var unnt að nýta vatnið beint eins og gert var í Reykjavík og víðast annars staðar, heldur varð að þróa varmaskiptaaðferðir til að nýta jarðhitann.

Stofnun HS
Hitaveita Suðurnesja var stofnuð 31. desember 1974, með lögum frá Alþingi, í þeim tilgangi að nýta jarðvarmann til húshitunar á svæðinu. Við stofnun fyrirtækisins skiptust eignarhlutar í fyrirtækinu þannig að ríkissjóður átti 40% og sveitarfélögin sjö, sem þá voru á svæðinu, 60%.
Árið 1975 var fyrst borað eftir köldu vatni og varmaskiptastöð reist í Svartsengi. Sama ár varð Ingólfur Aðalsteinsson ráðinn sem fyrsti starfsmaður fyrirtækisins en hann tók síðar við sem forstjóri. Bráðabirgðastöðin við Svartsengi var gangsett árið 1976 og heitu vatni hleypt á félagsheimilið Festi í Grindavík fyrst húsa á Suðurnesjum. Önnur merk tímamót í sögu fyrirtækisins voru árið 1978 þegar raforkuframleiðsla með jarðvarma hófst með gangsetningu tveggja 1MW gufuhverfla.

HS Orka verður til
Hitaveita Suðurnesja varð hlutafélag fyrst íslenskra orkufyrirtækja árið 2000. Í kjölfar breytinga á raforkulögum árið 2008, þar sem kveðið var á um aðskilnað samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi raforkufyrirtækja, var Hitaveitu Suðurnesja hf. skipt upp í tvö fyrirtæki; HS Veitur hf. og HS Orku hf. HS Orka á og rekur tvö jarðvarmaver, í Svartsengi og á Reykjanesi. Aflgeta jarðvarmaversins í Svartsengi er 74 MWe af rafafli og 150 MWth af varmaafli. Jarðvarmaverið var byggt upp í sex áföngum á árunum 1976–2015, en á vormánuðum verður varmaaflið aukið um 40 MWth. HS Orka er þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins með um 8% af framleiddri raforku. Árið 2015 hlaut HS Orka verðlaun Íslensku ánægjuvogarinnar í flokki fyrirtækja á raforku-sölumarkaði. Verðlaunin hafa verið veitt undanfarin 13 ár og hefur fyrirtækið hlotið þau í 12 skipti. Félagið hlaut forvarnarverðlaun VÍS og Vinnueftirlitsins árið 2015, en þau eru veitt fyrir framúrskarandi forvarnir, umhverfis- og öryggismál.

Eignarhlutir í HS Orku hf skiptast á eftirfarandi hátt

  • Jarðvarmi slhf 50%, Magma Energy
  • Sweden A.B. 50%*
    *Er 100% í eigu sjóða í stýringu hjá Ancala Partners

Orkuverið í Svartsengi
Staðsetning orkuversins dregur nafn sitt af áningarstað hestamanna til forna, en það er svæðið austan núverandi Grindavíkurvegar gengt orkuverinu. Sjálft orkuverið stendur á hrauni sem rann árið 1226 sem heitir Illahraun. Sunnan orkuversins er Þorbjarnarfell og austan við er Svartsengisfell og Selháls þar á milli og norðan hans Baðsvellir sunnan orkuversins.

Orkuverið á Reykjanesi
Framleiðsla orku frá Reykjanesvirkjun hófst í maí 2006. Vél 1 fór í rekstur um miðjan maí og vél 2 í lok maí. Orkuverið er hannað með tilliti til þess að því sé almennt stjórnað með fjargæslu frá stjórnstöð í Svartsengi. Reykjanesvirkjun er eingöngu raforkuver sem samanstendur af
2 x 50 MW tvístreymishverflum með sjókældum eimsvölum sem var nýjung á Íslandi og nota samtals allt að 2 x 2000 l/s, aðskilin dælukerfi (sem er álíka magn og meðalrennsli Elliðaánna).

Gildi HS Orku eru framsýni, heiðarleiki og metnaður
Hlutverk HS Orku er að þjóna atvinnulífi og heimilum með fjölnýtingu auðlinda á sjálfbæran hátt til virkjunar og sölu á vistvænni orku og öðrum afurðum til ávinnings fyrir viðskiptavini, samfélagið og fyrirtækið. Störfum með viðskiptavinum okkar og þeir gefa okkur hæstu einkunn.
• HS Orka ástundar heiðarleg samskipti, sveigjanleg, skilvirk og samhæfð vinnubrögð.
• HS Orka fræðir samfélagið um starfsemina og leggur sitt af mörkum til frekari framþróunar við nýtingu auðlinda.
• HS Orka leggur sig fram um gott samstarf við nærumhverfið.
• HS Orka þjónar hagsmunum viðskiptavina og landeigenda með því að skilja þeirra þarfir og koma til móts við þær. Berum virðingu fyrir auðlindum sem okkur er treyst fyrir og nýtum þær á ábyrgan hátt, með rannsóknum og skilvirku verklagi.
• HS Orka leggur áherslu á stöðugar umbætur og áreiðanleika í starfi.
• HS Orka vinnur í fullu samræmi við lög, reglugerðir og aðrar kröfur sem og vottað verklag.
• HS Orka þróar búnað og verklag byggt á skipulögðum rannsóknum, þekkingaröflun og nýsköpun.
• HS Orka leggur ríka áherslu á fyrirbyggjandi og ástandsbundið viðhald til að tryggja öryggi, áreiðanleika og endingu.
• HS Orka nýtir upplýsingatækni með markvissum hætti til hagsbóta fyrir reksturinn. Höfum á að skipa hæfasta fólkinu og erum eftirsóttasti vinnustaðurinn í starfsgreininni.
• HS Orka velur starfsfólk samkvæmt gildum fyrirtækisins.
• HS Orka leggur áherslu á símenntun, stöðuga þjálfun og framúrskarandi aðbúnað.
• HS Orka stuðlar að öryggis- og hollustuvitund starfsmanna sem starfa við fjölþætt og þverfagleg verkefni í viðkvæmu umhverfi.
• HS Orka metur frammistöðu kerfisbundið og veitir starfsmönnum hlutdeild í árangri þegar vel gengur.
• HS Orka býr starfsmönnum öruggan, vistvænan, fjölskylduvænan, frjóan og uppbyggjandi vinnustað.
• HS Orka gerir starfsánægju að sameiginlegu verkefni fyrirtækisins og starfsmanna þess og er í fararbroddi í starfsgreininni.

Brekkustíg 36
260 Reykjanesbæ
5209300
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd