HS Veitur hf.

2022

Stofnun og hlutverk
HS Veitur voru stofnaðar 1. desember 2008 þegar Hitaveitu Suðurnesja var skipt upp og byggir fyrirtækið á sögu Hitaveitu Suðunesja sem var stofnuð á gamlársdag 1974. HS Veitur sjá um dreifingu raforku, dreifingu og sölu á heitu og köldu vatni auk þess að selja kalt vatn í heildsölu. HS Veitur starfa á Suðurnesjum, í Hafnarfirði og hluta Garðabæjar, í Árborg og í Vestmanneyjum. Fyrirtækið er í meirihlutaeigu opinberra aðila samkvæmt lögum nr. 58 frá 2008.

Eigendur
Ný lög voru samþykkt frá Alþingi í maí 2008 er varða breytingar á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði. Samkvæmt þeim var orkufyrirtækjum skylt að skipta starfseminni upp í a.m.k. tvö aðskilin fyrirtæki.
Eigendur HS Veitna hf. þann 1. júní 2020 eru:

  • Reykjanesbær 50,10% og fjóra stjórnarmenn
  • HSV eignarhaldfélag slhf. 34,38% og tvo stjórnarmenn
  • Hafnarfjarðarbær 15,42% og einn stjórnarmann
  • Suðurnesjabær 0,10%

Hlutverk fyrirtækisins
– Sér um dreifingu og sölu á heitu vatni.
– Sér um vatnsöflun, sölu og dreifingu á köldu vatni.
– Sér um dreifingu á rafmagni sem Landsnet afhendir inn á kerfið.
– Sér um dreifingu og sölu á heitu- og köldu vatni á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum.
– Sér um dreifingu á rafmagni á Suðurnesjum, í Hafnarfirði, hluta Garðabæjar, Vestmanna-eyjum og Árborg.

Þróun fyrirtækisins
– Hitaveita Suðurnesja var stofnuð á gamlársdag 1974.
– Árið 1985 sameinast rafveitur sveitarfélagana á Suðurnesjum Hitaveitu Suðurnesja auk þess sem fyrirtækið keypti allar eignir Rarik á svæðinu.
– Árið 2001 er fyrirtækinu breytt í hlutafélag, fyrst allra orkufyrirtækja á Íslandi, með samruna við Rafveitu Hafnarfjarðar.
– Árið 2002 voru Bæjarveitur Vestmannaeyja sameinaðar HS hf.
– Árið 2003 voru rafveituhluti Selfossveitna og vatnsveita Reykjanesbæjar sameinuð HS hf.
– Árið 2005 var sameining við vatnsveituna í Sveitarfélaginu Garði.
– Árið 2006 tók HS hf. við vatnsöflun fyrir Sveitarfélagið Voga en frá 1981 hefur HS hf. séð um vatnsöflun fyrir Grindavíkurbæ og frá árinu 2000 fyrir Sandgerðisbæ.
– Árið 2008 voru kaup á veitukerfum Keflavíkurflugvelli, en frá árinu 2006 eða við brotthvarf varnarliðsins hafði HS hf. séð um kerfin.
– Árið 2008, þann 1. desember, var Hitaveitu Suðurnesja hf. skipt upp í tvö aðskilin fyrirtæki, HS Veitur og HS Orku.
– Í upphafi árs 2014 hóf fyrsti starfsmaður HS Veitna störf en fram að því sinntu starfsmenn HS Orku allri þjónustu fyrir HS Veitur.
– Í upphafi árs 2015 fluttust 75 starfsmenn frá HS Orku yfir til HS Veitna og fullur aðskilnaður fyrirtækjanna orðinn að veruleika.

Starfsmenn og starfsstöðvar
HS Veitur reka 4 starfsstöðvar og alls vinna 95 manns hjá fyrirtækinu. Höfuðstöðvar fyrir-tækisins eru að Brekkustíg 36 í Njarðvík. Þar starfa 64 manns. Í Hafnarfirði starfa 14 manns, í Vestmannaeyjum 15 manns og í Árborg 5 starfsmenn. Markmið HS Veitna er að tryggja að vinnustaðurinn einkennist af fagþekkingu, verkkunnáttu, þjónustulund, starfsgleði, heiðarleika og umfram allt gagnkvæmri virðingu. Sett markmið nást ekki nema fyrirtækið hafi í sínum röðum hæft, áhugasamt og vel menntað starfsfólk, sem getur axlað ábyrgð og sýnt frumkvæði í starfi, brugðist við síbreytilegum þörfum og tekið virkan þátt í framþróun fyrirtækisins. Því leggja HS Veitur metnað sinn í að hlúa vel að starfsfólkinu til að viðhalda starfsánægju og góðum starfsanda. Hjá fyrirtækinu starfar öflugur hópur fólks og starfsmannavelta fyrirtækisins er mjög lág. Fyrirtækið leggur áherslu á að vera fjölskylduvænn vinnustaður og hefur sett sér sérstaka jafnréttisáætlun sem kveður á um að gæta skuli fyllsta jafnréttis kynjanna og á það meðal annars við um rétt til starfa, aðstöðu, menntunar og kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. Innan HS Veitna starfar öflugt starfsmannafélag sem leggur sitt að mörkum til að uppfylla félagslegar þarfir starfsfólks og viðhalda góðum starfsanda innan fyrirtækisins.

Gildi HS Veitna
Traust – Viðskiptavinir geta treyst því að fá góða vöru og þjónustu. Einnig geta birgjar og aðrir viðskiptavinir félagsins treyst því að félagið standi við það sem samið er um. Unnið er af heilindum, fagmennsku og samviskusemi auk þess sem heiðarleiki er ætíð hafður að leiðaljósi.
Virðing – HS Veitur bera virðingu fyrir viðskiptavinum og samstarfsfólki. Við stöndum við það sem við segjum og sýnum virðingu. Við keppumst við að ávinna traust viðskiptavina okkar, forðast hagsmunaárekstra og starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti í sátt við umhverfi og samfélag.
Framfarir – HS Veitur munu leita allra leiða til að vera í fararbroddi í þjónustu og nýjungum. Ákvarðanataka þarf að ganga hratt og vel fyrir sig og framkvæmdin jafnvel enn hraðar. Starfsfólk leggur áherslu á að efla sig í starfi, það leitast við að vera leiðandi á sínu sviði með framsækni, fagmennsku og framúrskarandi vinnubrögðum.

Framtíðarsýn
– HS Veitur afhenda tærustu afurðir þjóðarinnar undir kjörorðinu VIÐ FÆRUM ÞÉR ÞÆGINDIN HEIM inn á hvert heimili og fyrirtæki á þjónustusvæðum okkar sem endurspeglast í hugarfari og þjónustu fyrirtækisins.
– Þjónusta og samstarf við viðskiptavini byggir á gagnkvæmum hagsmunum.
– Möguleikar samskiptatækninnar nýttir til þess að þróa áfram hagkvæm samskipti og upplýsingamiðlun.
– Framsækin tæknileg umgjörð starfsseminnar og frumkvæði og samstarf við nýsköpunar- og fræðasamfélagið í þeim tilgangi að þróa áfram hagræna og tæknilega þætti veitukerfanna.
– Tillit tekið til velferðar og hagsmuna þeirra samfélaga sem eru á starfssvæði fyrirtækisins.
– Á heimasíðu fyrirtækisins www.hsveitur.is er að finna nánari upplýsingar, hægt er að sjá gjaldskrár, sækja um þjónustu og nýlagnir, sjá helstu verkefni og margt fleira.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd