Huginn ehf. er útgerðarfélag sem stofnað var í Vestmannaeyjum af Guðmundi Inga Guðmundssyni og konu hans Kristínu Pálsdóttur sem voru þekkt fyrir dugnað og eljusemi. Með þeim í félaginu var einnig Óskar Sigurðsson eigandi Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Hann hafði mikla trú á Guðmundi Inga, þessum unga fullhuga sem með sjómannsblóð í æðum hafði starfað við sjósókn í Vestmannaeyjum. Á 27. afmælisdegi Inga, eins og hann var títt nefndur, festi hann kaup á sínu fyrsta fleyi sem kom til Eyja frá Ísafirði 22. október 1959. Það telst vera stofndagur útgerðarinnar.
Sagan
Huginn VE-65 varð mikið aflaskip og eitt leiddi af öðru þangað til þeir félagar létu smíða Huginn II í Noregi og það stóð ekki á aflabrögðunum. Huginn II VE-55 kom til Vestmannaeyja 1964. Hann var 216 tonna stálskip og varð tíðum aflahæsta skip Vestmannaeyja og Guðmundur Ingi fiskikóngur. Guðmundur Ingi tók nokkra snúninga í útgerð í félagi við aðra sem leiddi til þess að árið 1972 var fyrsti skuttogarinn smíðaður og keyptur til Vestmannaeyja. Enn var hann stórhuga og 1973 var gerður samningur um smíði á nýju stálskipi sem að sjálfsögðu hlaut nafnið Huginn VE-55. Það skip var selt til Rússlands árið 2003.
Áfram skyldi haldið til veiða og 1998 var samið við skipasmíðastöð í Síle um smíði á nýju fjölveiðiskipi sem hlaut sama nafn. Það var tilbúið til afhendingar í júnílok 2001 og Huginn VE-55 var farinn til til veiða fáeinum dögum síðar. Um þetta leyti voru synir Guðmundar Inga komnir að útgerðinni Hugin ehf. Guðmundur Huginn og Gylfi Viðar voru orðnir skipstjórar en Páll Þór framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Þarna varð breyting á eignarhaldi félagsins með aðkomu SR mjöls sem sameinaðist Síldarvinnslunni í Neskaupstað en að lokum keypti fjölskylda Guðmundar Inga hlut Síldarvinnslunnar sem fór yfir til Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum.
Rekstur Hugins ehf. var traustur og hagkvæmur og eigendur félagsins fylgdust vel með og tileinkuðu sér nýjustu tækni í veiðum á hverjum tíma til að auka afköst og bæta nýtingu aflans.
Makrílveiðar
Vegna fjölveiðieiginleika Hugins VE var horft til þess að veiða kolmunna og norsk-íslenska síld. Markverðast var hins vegar frumkvæði Hugins ehf. í makrílveiðum. Félagið tók þátt í rannsóknum á makríl og með fjárfestingum í fullkomnum veiðitækjum og nýjum vinnsluaðferðum tókst því að framleiða á annað þúsund tonn af hausuðum makríl fyrir Bandaríkjamarkað. Hjá Huginn ehf. hefur síðan þá verið varið miklum tíma og fjármunum til að afla þekkingar á makríl, makrílveiðum og makrílvinnslu. Framsýni Hugins í þessum efnum vakti athygli og og kom sér vel fyrir sjávarútveginn yfirleitt og auðvitað líka fyrir íslenskt þjóðarbú.
Það sannaðist hins vegar að „fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá“. Þessir frumkvöðlar þurftu síðar að sæta skerðingu aflaheimilda í makríl þegar stjórnvöld ákváðu að úthluta útgerðum, án nokkurrar reynslu við vinnslu og veiðar makríls, veiðiheimildum í makríl.
Eignarhald
Enn og aftur varð breyting á eignarhaldi Hugins árið 2021. Þá eignaðist Vinnslustöðin hf. allt hlutafé í Huginn ehf. ásamt aflaheimildum og gerir eftir það Hugin VE-55 út á síld, loðnu, kolmunna og makríl. Vinnslustöðin starfrækir félagið í óbreyttri mynd og skipstjóri á Hugin VE-55 er nú Guðmundur Ingi Guðmundsson (2022), alnafni afa síns. Nú er því þriðji ættliður skipstjórans tekinn við. Hinir eru bræðurnir Guðmundur Huginn og Gylfi Viðar.
Fjölskyldan hefur löngum verið trú og trygg sinni heimabyggð og talið mikilvægt að Huginn VE-55, hið sögufræga aflaskip, verði áfram gert út frá Vestmannaeyjum.
Ekki hefur hér allra verið getið sem komu að Huginn ehf. en á vef Vinnslustöðvarinnar:
vsv.is, er að finna ljósmyndir og brot úr sögu útgerðarinnar með aflatölum og ártölum auk fjölda ljósmynda af skipum og áhöfn.
Útgerðarfyrirtækið Huginn er með höfuðstöðvar sínar í Vestmannaeyjum. Fyrirtækið gerir út 1135,7 brúttórúmlesta nóta- og togveiðiskipið Huginn VE-55. Saga fyrirtækisins hófst árið 1959 þegar Guðmundur Ingi Guðmundsson og Óskar Sigurðsson keyptu 41 tonna trébát sem hlaut nafnið Huginn VE-65. Fimm árum síðar, eða árið 1964 létu þeir smíða fyrir sig nýtt 200 tonna stálskip í Noregi, Huginn II VE-55, sem reyndist mikið happaskip. Gamla trébátinn seldi fyrirtækið hins vegar til Suðurnesja. Með Guðmund Inga við stjórnvölinn var Huginn II oft aflahæst og Guðmundur oft Fiskikóngur Vestmannaeyja og aflakóngur Íslands. 1968 keyptu Guðmundur Ingi og eiginkona hans, Kristín Pálsdóttir, hlut Óskars í útgerðinni og alla tíð síðan hefur útgerðin verið í meirihlutaeigu fjölskyldunnar.
Nafn útgerðarinnar og skipa þess, Hugin má finna í goðafræðinni. Huginn var annar hrafna Óðins en eins og hrafninn forðum, skiluðu skip útgerðarinnar sínu verki með sóma og áhöfn heilli í land. Huginn aflaði frétta fyrir húsbónda sinn en skip útgerðarinnar afla með öðrum hætti en með jafn góðum árangri og hrafninn. Nafnið hefur reynst útgerðinni farsælt.
1973 var nýtt skip smíðað fyrir útgerðina í Mandal í Noregi og afhent útgerðinni ári síðar. Skipið fékk nafnið Huginn VE-55 og reyndist útgerðinni vel, eins og önnur skip í eigu þess. 1998 var svo ráðist í smíði á myndarlegu skipi í Chile, núverandi skip útgerðarinnar sem fékk sama nafn, Huginn VE-55 en eldra skipið var selt til Rússlands árið 2003. Útgerðin gerði bæði skipin út um tíma, m.a. á loðnuvertíð 2002. Núverandi skip er eitt af öflugustu skipunum í íslenska fiskiskipaflotanum, vel búið tækjum og sérstaklega útbúið til nóta- og flotvörpuveiða. Það var þó ekki fyrr en um mitt árið 2001 sem skipið var afhent en ytri aðstæður, m.a. gengi íslensku krónunnar, urðu til þess að tafir urðu á afhendingu og smíði skipsins.
Við þessar aðstæður breyttist eignarhald útgerðarinnar. SR mjöl bættist í hluthafahópinn með 14% eignaraðild, sem síðar var aukin í 43% árið 2002. Seinni hlutafjáraukningin var notuð til að setja niður vinnsludekk í nýja skipið. Eftir að Síldarvinnslan eignaðist svo SR-mjöl varð uppi ágreiningur um stefnu útgerðarinnar, sem endaði með því að fjölskylda Guðmundar Inga keypti hlut Síldarvinnslunnar vorið 2005 og seldi Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum 48% hlut. Á sama tíma breyttist hluthafahópur fjölskyldu Guðmundar Inga Guðmundssonar. Eftir þetta var eignaraðild þannig að Vinnslustöð Vestmannaeyja á 48% hlut í útgerðinni, Guðmundur Ingi Guðmundsson, Kristín Pálsdóttir og synir þeirra, Guðmundur Huginn, Páll Þór og Gylfi Viðar áttu 52%. Þannig er eignarhald Hugins í dag.
Guðmundur Ingi lést 14. júní 2006 á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja. Guðmundur Ingi greindist með Parkinson veikina tíu árum áður og var vistmaður á Heilbrigðisstofnuninni síðasta rúma árið.
Útgerðarfyrirtækið Huginn ehf. er gott dæmi um rekstur í sjávarútvegi þar sem yfirbygging er ekki að sliga fyrirtækið. Þar er meira hugsað um hagnýta hluti en ytra útlit. Stjórnendur fyrirtækisins hafa ekki leitast eftir því að vera í sviðsljósinu með rekstur sinn, heldur einblínt á að auka afköst og aflanýtingu og bæta aðbúnað starfsmanna sinna.
Páll Þór Guðmundsson hefur verið framkvæmdastjóri útgerðarinnar frá árinu 2001 en auk þess eru við stjórnvölinn bræður hans, þeir Guðmundur Huginn og Gylfi Viðar. Guðmundur Huginn hefur starfað hjá fyritækinu frá 17 ára aldri en hann útskrifaðist frá Stýrimannaskólanum 1980 og varð strax stýrimaður og afleysingaskipstjóri. Síðan 1995 hefur hann verið aðalskipstjóri Hugins VE-55 og jafnframt setið í stjórn útgerðarinnar. Gylfi Viðar hefur einnig starfað lengi hjá útgerðinni, eða frá 18 ára aldri. Hann lauk námi í Stýrimannskólanum 1989 og hefur verið stýrimaður og afleysingaskipstjóri síðan 1995.
Páll Þór útskrifaðist frá Stýrimannskólanum 1986 og starfaði sem stýrimaður og afleysingaskipstjóri á togurum áður en hann tók við sem framkvæmdastjóri Hugins. Bræðurnir hlutu gott uppeldi Guðmundar Inga og hafa erft hæfileika föður síns til að fiska. Stjórn fyrirækisins er þannig skipuð að Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson er stjórnarformaður en aðrir stjórnarmeðlimir eru Páll Þór Guðmundsson, Sindri Viðarsson, Guðmundur Huginn Guðmundsson og Gylfi Viðar Guðmundsson
Fyrirtækið hefur undanfarin ár nær eingöngu stundað uppsjávarveiðar á síld, loðnu, makríl og kolmunna. Þá fór útgerðin fremst í flokki í tilraunaveiðum á makríl og gulldeplu, sem reyndist ágæt búbót. Hjá útgerðinni starfa rúmlega 30 manns, langflestir í áhöfn skipsins.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd