Húnaþing vestra er blómlegt sveitarfélag við Húnaflóa með ríflega 1.200 íbúa. Það var stofnað 7. júní 1998 þegar hinir gömlu hreppar Vestur-Húnavatnssýslu voru sameinaðir. Þann 1. janúar 2012 sameinaðist sveitarfélagið svo Bæjarhreppi í Strandasýslu en hafði áfram nafnið Húnaþing vestra.
Þjónusta, menning, mannlíf og náttúra
Húnaþing vestra einkennist af fjörðunum Hrútafirði og Miðfirði, sem eftir sameininguna við Bæjarhrepp eru báðir að öllu leyti í Húnaþingi vestra, og Húnafirði, en vesturhluti hans er í sveitarfélaginu. Á milli þeirra eru nesin Heggstaðanes og Vatnsnes. Svæðið er eitt gjöfulasta sauðfjárræktarsvæði landsins, en einn helsti atvinnuvegur sveitarfélagsins er landbúnaður. Sveitarfélagið hefur upp á fjölmargt að bjóða og er fjölskylduvænt samfélag, hvort sem þú ert að leita að góðum stað til að búa á, upplifa einstaka náttúru eða sögu og mannlíf í fögru umhverfi. Metnaðarfullt leik- og grunnskólastig er rekið í sveitarfélaginu, fjölbreytt tónlistarnám og mikið framboð af tómstunda- og íþróttastarfi. Ein af perlunum er Vatnsnesið, en þar má finna aðgengilegustu selaskoðunarstaði Íslands. Helsti þéttbýlisstaður sveitarfélagsins og sá stærsti er Hvammstangi en aðra byggðakjarna er einnig að finna á Laugarbakka, Reykjum í Hrútafirði og á Borðeyri. Hvammstangi er hlýlegur bær, með ríflega 600 íbúa, sem stendur um 6 km frá þjóðveginum við Miðfjörð á leiðinni út á Vatnsnes. Verslunarsaga staðarins er mikil og nær yfir rúmlega 100 ár og má finna gott dæmi um það hvernig verslað var í krambúðum hér áður fyrr á Verslunarminjasafninu. Á Hvammstanga er góð höfn og er þaðan gerður út sjóstanga- og selaskoðunarbátur. Hvammstangi er tilvalinn áfangastaður fyrir ferðamenn en þar má finna góða sundlaug, fræðslusýningu um seli í Selasetri Íslands og gott tjaldsvæði með þjónustuhúsi. Eins er finna alla helstu þjónustu á Hvammstanga eins og upplýsingamiðstöð, banka, pósthús, kjörbúð, heilsugæslu, bílaverkstæði og aðra nauðsynlega þjónustu. Nærri þjóðveginum ofan við Miðfjarðará stendur þorpið Laugarbakki. Þar er jarðhiti sem er nýttur fyrir þorpið, Hvammstanga og stóran hluta Miðfjarðar og Víðidals. Á Laugarbakka má finna hótel, tjaldvæði, félagsheimili og handverkshús.
Við vestanverðan Hrútafjörð má finna eitt minnsta og fámennasta þorp landsins, Borðeyri. Fram til ársins 2008 var þar samfelld verslun frá árinu 1846, þegar Borðeyri fékk verslunarréttindi, fyrir sveitirnar í kring. Borðeyri var mikilvæg útskipunarhöfn á tímum vesturferðanna og sauðaútflutnings en flestir vesturfarar fóru um borð í skip þar. Í dag er þar rekinn grunn- og leikskóli ásamt bílaverkstæði, eins er ferðaþjónusta í Tangahúsi. Riis hús er eitt elsta hús staðarins og var reist árið 1862 en það var gert upp að utan og setur mikinn svip á staðinn.
Sveitarstjórn
Þorleifur Karl Eggertsson, símsmiður, Ingveldur Ása Konráðsdóttir, þroskaþjálfi og bóndi, Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, atvinnuráðgjafi, Friðrik Már Sigurðsson, hestafræðingur, Magnús Magnússon, sóknarprestur, Sigríður Ólafsdóttir, bóndi og ráðunautur og Magnús Vignir Eðvaldsson, íþróttakennari.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd