Húsasmiðjan ehf.

2022

Húsasmiðjan hefur verið leiðandi í sölu á heimilis- og byggingavörum í 65 ár. Í dag er Húsasmiðjan leiðandi í sölu á heimilis-, garð- og byggingavörum og býður upp á mjög breitt vöruúrval í 16 verslunum um land allt. Fyrirtækið leggur sem fyrr ríka áherslu á að bjóða upp á góðan vinnustað og nýta til hins ítrasta hæfni, frumkvæði og þekkingu samhents hóps um 500 starfsmanna. Húsasmiðjan rekur í dag 16 verslanir undir merkjum Húsasmiðjunnar, 6 útibú undir merkjum Blómavals og 4 verslanir undir merkjum Ískrafts, auk vefverslana fyrir þessi vörumerki.

Mannauður
Fyrirtækið var stofnað árið 1956 af Snorra Halldórssyni byggingameistara. Fyrst í stað var fyrirtækið timburvinnsla og framleiddi m.a. einingahús. Ekki leið á löngu þar til Húsasmiðjan hóf sölu á timbri og tengdum vörum og á örfáum árum óx fyrirtækið og varð fljótlega nokkuð umfangsmikil starfsemi í kringum þjónustu við byggingariðnaðinn á Íslandi sem þá var í miklum vexti. Fyrirtækið var framsækið og virkt í ýmsum þróunarverkefnum á níunda áratugnum og þjónusta við byggingariðnaðinn og einstaklinga í framkvæmdum jókst hratt. Þessi þróun leiddi til opnunar á fyrstu byggingavöruverslun fyrirtækisins í Súðarvogi og stuttu síðar opnaði stórverslun Húsasmiðjunnar í Skútuvogi. Á árunum sem fylgdu í kjölfarið fjölgaði verslunum Húsasmiðjunnar og opnuðu verslanir Húsasmiðjunnar m.a. í Hafnarfiðri árið 1991 og í Keflavík árið 1996. Verslunum Húsasmiðjunnar hélt áfram að fjölga m.a. með kaupum á byggingavöruverslunum SG, Steina hf. og hinum gamalgrónu byggingavöruverslunum KEA svo nokkur séu nefnd. Húsasmiðjan verður þannig á örfáum árum með verslanir um land allt þar sem boðið er upp á fjölbreytt úrval af heimilis- og byggingavörum.
Húsasmiðjan og Blómaval sameinast árið 1999 þegar fyrirtækið kaupir rekstur Blómavals í Sigtúni. Þar var markmiðið að styrkja Húsasmiðjuna enn frekar á neytendamarkaði og hjálpar það fyrirtækinu að sækja fram af krafti og bjóða upp á enn fjölbreyttara vöruúrval.
Á þessum árum er Húsasmiðjan þegar orðin mikilvægur þjónustuaðili á landsbyggðinni með fjölda verslana um land allt. Húsasmiðjan hefur það að markmiði að þjóna öllu landinu, ekki síst landsbyggðinni með flest það sem snýr að byggingu, viðhaldi og rekstri heimila.

Eigendur
Fjölskylda Snorra Halldórssonar selur reksturinn árið 2002 og á árunum 2002-2011 verða nokkrar breytingar á eignarhaldi Húsasmiðjunnar. Árið 2011 kaupir svo danska byggingavörukeðjan BYGMA Húsasmiðjuna. Margt er líkt með sögu fyrirtækjanna. BYGMA er danskt fjölskyldu fyrirtæki með ríflega 60 ára sögu. Sama fjölskyldan hefur rekið fyrirtækið frá upphafi. Húsasmiðjan er hluti af BYGMA Group sem starfrækir BYGMA verslanir í Danmörku, Svíþjóð, Færeyjum, Grænlandi og Húsasmiðjuna á Íslandi. Má segja að fyrirtækið hafi aftur orðið fjölskyldufyrirtæki eftir þetta og nýtur þess í dag að hafa traustan bakhjarl með mikla trú á framtíð fyrirtækisins. Eigendurinir hafa það að markmiði að bjóða upp á góða þjónustu og gæðavörur fyrir íslenskan byggingariðnað og almenna neytendur. Með kaupum BYGMA á Húsasmiðjunni má segja að rekstrargrundvöllur fyrirtækisins hafi verið tryggður eftir nokkur erfið ár eftir efnhagshrunið og algjört hrun á byggingamarkaði árið 2008.
Árið 2017 opnaði Húsasmiðjan t.d. glæsilega Fagmannaverslun ásamt timbursölu í Kjalarvogi 12-14, steinsnar frá stórverslun Húsasmiðjunnar og Blómavals í Skútuvogi. Verslunin er sett upp að fyrirmynd BYGMA í Danmörku þar sem fagmenn og byggingariðnaðurinn fær sérstaka verslun sérsniðna að sínum þörfum með tilliti til vöruúrvals og söluráðgjafar í stærri bygginga verkefnum. Frá árinu 2016 hefur Húsasmiðjan starfrækt vefverslun og hefur sala á vef farið vaxandi ár frá ári. Með aukinni þjónustu og sífellt stækkandi vöruvali hafa neytendur nýtt sér vefverslun í meira mæli en áður og er ljóst að vefverslun mun halda áfram að aukast mikið á næstu árum. Húsasmiðjan hefur kynnt ýmsar nýjungar í vefverslun og var til dæmis fyrsta byggingavöruverslunin á Íslandi sem bauð upp á kaup og heimsendingu á timbri árið 2019. 

Framkvæmdatjórn Húsasmiðjunnar árið 2020
Árni Stefánsson forstjóri, Magnús Guðmann Jónsson framkvæmdastjóri fjármálasviðs, Guðrún Tinna Ólafsdóttir framkvæmdastjóri verslanasviðs, Pétur Andrésson framkvæmdastjóri vöru-sviðs, Kenneth Breiðfjörð framkæmdastjóri fagsölusviðs, Magnús Magnússon markaðsstjóri, Hinrik Arnar Hinriksson gæðastjóri og Brynjar Stefánsson framkvæmdastjóri Ískraft.

Umhverfismál og umhverfisvæn byggingavara
Mikil vakning hefur orðið í umhverfismálum undanfarin ár og er byggingamarkaðurinn engin undanteking. Húsasmiðjan hefur sett sér metnaðarfull markmið í umhverfismálum og leitast við að starfa í sátt við umhverfið, m.a. með því að minnka stöðugt vistspor rekstrarins og virðiskeðju fyrirtækisins með markvissum ákvörðunum og aðgerðum. Húsasmiðjan hefur verið hluti af Samfélagsskýrslu BYGMA, móðurfélagsins í Danmörku, síðan 2017 ásamt því að gefa út samfélagsuppgjör fyrir Húsasmiðjuna og tengd fyrirtæki á Íslandi. Í samfélagsuppgjöri Húsasmiðjunnar fyrir árið 2020 kom fram að fyrirtækið minnkaði losun koltvísýringsígilda um 12% milli ára sem þótti sérstaklega góður árangur. Aukin áhersla hefur verið sett á að bjóða gott úrval af umhverfisvænum byggingavörum og lausnum sem henta m.a. í Svansvottaðar byggingar. Markvisst er leitast eftir samstarfi við birgja sem huga að umhverfinu, eru vottaðir og framleiða vörur með eins umhverfisvænum hætti og unnt er. Markmið Húsasmiðjunnar er jafnframt að kynna umhverfisvænar vörur markvisst, bjóða upp á nýjungar, tryggja sýnileika umhverfisvænna vara og lausna.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd