Húsheild ehf. var stofnað árið 2007 í Hafnarfirði af Ragnari Lýðssyni, Ólafi Ragnarssyni og Ægi Val Haukssyni. Frá upphafi hefur markmið félagsins verið almenn byggingastarfsemi.
Starfsemin
Framan af byggði starfsemin að mestu á undirverktöku fyrir stærri verktaka ásamt verkefnum fyrir einstaklinga. Fyrirtækið var nokkuð fljótt komið í öflugan rekstur með á annan tug starfsmanna og fjölbreytt verkefni. Árið 2008 þurfti Húsheild að draga saman seglin vegna efnahagsástandsins sem ríkti næstu árin þar á eftir. Við tóku ár mikillar varnar þar sem útistandandi kröfur fyrirtækisins fengust fæstar greiddar og við tóku þrengingatímar og erfiðleikar við að standa í skilum við birgja og banka. Við tóku þung ár í rekstri með fáum verkefnum sem skiluðu litlu. Engan stuðning var að fá, hvorki hjá ríki eða bönkum, þó vilji fyrirtækisins til að standa í skilum hafi verið augljós. Árið 2009 urðu breytingar á eignarhaldi þegar Ægir Valur Hauksson dró sig út úr rekstri fyrirtækisins og við það varð fyrirtækið að fullu í eigu feðganna Ragnars og Ólafs.
Verkefnastaða
Á árunum 2011-2015 batnaði verkefnastaðan og ákveðin kaflaskil urðu í rekstri Húsheildar árið 2015. Á því ári náðust samningar um alla smíðavinnu við byggingu Fosshótels Jökulsárlóns í Öræfasveit. Var það langstærsta verkefni Húsheildar til þessa og í kjölfar verkefnisins ákváðu feðgarnir að einbeita sér að stærri verkefnum og einblíndu á dreifðari byggðir um land allt þar sem ásókn stærri verktaka er að jafnaði minni.
Eigendur
Breytingar urðu aftur á eignarhaldi og rekstri Húsheildar árið 2018 þegar Ragnar Lýðsson féll frá. Hilmar Ragnarsson keypti hlut föður síns af systkinum sínum en hann hafði verið starfandi sem verkstjóri hjá fyrirtækinu þrjú ár þar á undan. Árið 2018 flutti fyrirtækið jafnframt höfuðstöðvar sínar í Skútustaðahrepp.
Eigendur fyrirtækisins í dag eru bræðurnir Ólafur Ragnarsson framkvæmdastjóri og Hilmar Ragnarsson húsasmíðameistari og byggingastjóri og starfa um 50 manns hjá fyrirtækinu. Helstu stjórnendur auk eigenda eru Runólfur Þór Jónsson húsasmíðameistari, Einar Bjarni Ramos Björnsson verkefnastjóri, tæknimaður og smiður og Róbert Kjartansson húsasmíðameistari.
Öryggismál
Öryggismál hafa verið í brennidepli í rekstrinum og fram til þessa hafa engin óhöpp átt sér stað sem leitt hafa af sér varanlegt líkamlegt tjón eða innlögn á sjúkrahús. Af þessu eru stjórnendur fyrirtækisins stoltir og verður rík áhersla lögð á að fylgja þessum árangri eftir af festu á komandi árum. Stjórnendur fyrirtækisins þakka þennan árangur helst reyndum og vandvirkum starfsmönnum með vinnusiðferði í hæsta gæðaflokki.
Viðskiptavinir og birgjar
Nokkrir stærstu viðskiptavinir Húsheildar frá upphafi eru Eykt, Sjóvá, Íslandshótel, Skútustaðahreppur, Icelandair Hotels, Rarik, Ríkiskaup, Félags- og skólaþjónusta Snæfellsbæjar og Framkvæmdasýsla Ríkisins. Helstu birgjar fyrirtækisins á Íslandi eru Byko og Húsasmiðjan en á undanförnum árum hefur í ríkara mæli verið samið beint við erlenda aðila um ýmis aðföng og tæknilega aðstoð. Auknar kröfur verkkaupa varðandi framleiðslu, umhverfisvottanir og utanumhald um þá þætti hafa verið vaxandi þáttur í rekstri fyrirtækisins sem aukið yfirbyggingu.
Þróun
Fyrirtækið hefur eins og flestir aðrir einsett sér að fylgja eftir þeirri tækniþróun sem hefur á undanförnum árum tekið stórstígum framförum og meðal annars tekið í notkun viðamikið verkefnastjórnunarkerfi sem gerbreytt hefur allir umgjörð og stýringu verka. Jafnframt hefur fyrirtækið þróað og aukið tækjabúnað sinn til að vera sem best búið undir verkefni víðs vegar um land. Húsheild rekur sína eigin steypustöð sem hægt er að flytja hvert á land sem er í minni og stærri verkefni. Kranabílum og flutningatækjum hefur fjölgað í takt við stækkun og fjölgun verka og allur búnaður uppfærður eftir því sem efni og hentugleiki stendur til. Einnig hefur fyrirtækið lagt sérstakt kapp á að taka að sér flókin hönnunarverkefni og opinber verkefni sem krefjast mikils rekjanleika. Fyrirtækið hefur því í dag talsverða reynslu af Breeamvottun og Svansvottun og tekur hverju slíku verkefni fagnandi.
Sérstaða
Sérstaða fyrirtækisins er helst fólgin í hreyfanleika og sveigjanleika og litlu breytir af hvaða toga verkið er. Verkefnastaða fyrirtækisins er afar góð í dag. Bygging þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi er vel á veg komin og bygging gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri er að hefjast. Afar spennandi og stór verkefni eru í farvatninu og hefur fyrirtækið til að mynda keypt lóð og fasteign í Auðbrekku í Kópavogi sem verður eitt af verkefnum Húsheildar á næstu árum, en þar stendur til að byggja nokkurn fjölda íbúða.
Stefna
Stefna fyrirtækisins er að byggja reksturinn upp jafnt og þétt með það að leiðarljósi að kapp sé best með forsjá, þar sem megináhersla er lögð á vönduð og góð vinnubrögð.
Gildi Húsheildar eru: Gæði og áreiðanleiki.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd