Skólinn var stofnaður 1941 og hvatamenn að stofnun skólans voru konur í Bandalagi kvenna í Reykjavík með Ragnhildi Pétursdóttur í fararbroddi. Það hafði lengi verið draumur kvenna í Reykjavík að stofnaður yrði Húsmæðraskóli í Reykjavík. Andstaða hafði lengi verið á Alþingi við að Húsmæðraskóli væri í Reykjavík. Umræða var um að ungar stúlkur utan af landi gætu lent hér í klandri og veseni og ílengst í borginni. Bandalag kvenna skipaði framkvæmdanefnd á haustmánuðum 1940 sem auglýsti eftir framlögum til stofnun Húsmæðraskóla. Framkvæmdanefnd hélt fund 3. jan 1941 og fjallaði um bréf frá Hermanni Jónassyni fosætisráðherra sem sagði að hann og hans ráðuneytti myndu ganga frá þessum málum. Bjarni Benediktsson borgarstjóri tók einnig vel í málaleitan kvennanna. Bandalagskonur voru þá búnar að koma auga á húsið að Sólvallagötu 12 og höfðu skoða það. Þær létu hendur standa fram úr ermum og þann 23. janúar 1941 festu þær kaup á húsinu. 15. febrúar var endanlega gengið frá kaupunum. Kaupverðið var kr.100.000. Við undirritun samnings var greitt kr. 33.000 en peningur sem safnast hafði var kr. 22.642 það sem upp á vantaði lánaði Halldór Kr. Þorsteinsson skipsstjóri í Háteigi (eiginmaður Ragnhildar). Eftir þetta skiptist rekstur skólans sem hér segir ríkið 75% og borgin 25%. Viðgerðir og breytingar kostuðu kr. 500.000. Viðgerðir tók lengri tíma en ætlað var þannig að skólinn tók ekki til starfa fyrr en 7. febrúar 1942. Byggt var við skólann 1950 þar sem kennslueldhús var á neðri hæð fyrir nemendur utan úr bæ en er nú vefstofa og handavinnustofa á efri hæð var stækkuð. Skólinn hefur starfað óslitið síðan þá, ýmist sem heilsársskóli eða sem annarnám og með ýmsum námskeiðum. Árið 1977 tók mennta og menningarmálaráðuneytið alfarið við rekstri skólans og nafni skólans breytt í Hússtjórnarskólann í Reykjavík.
Skólastarfið og námið
Námsframboð og skólareglur hefur breyst í tímans rás. Skólastjóri býr ekki lengur í skólanum eins og áður var. Í skólanum er húsvörður og allir nemendur eru með lykil að húsinu meðan á námi stendur svo þeir geti nýtt sér aðstöðu og tæki til heimavinnu, eins og td. vefstóla og saumavélar og ekki síst til að vera saman í sínum frístundum. Heimavist er í skólanum fyrir 15 nemendur og notfæra nemendur sér það þótt þeir búi í Reykjavík en nemendur af landsbyggðinni ganga fyrir með húsnæði. Lögð er áhersla að kenna nemendum hagnýtt nám sem getur nýtst þeim í framtíðinni hvort þeir búa einir eða með öðrum. Nám við skólann er tvær annir. Hvor önn er 16 vikur í kennslu, eftir þann tíma eru próf og frágangur á húsnæði skólans. Nám á haustönn hefst upp úr miðjum ágúst og stendur fram í desember og vorönn hefst snemma í janúar og lýkur um miðjan maí.
Fög sem kennd eru er matreiðsla, ræsting, fatasaumur og annar vélsaumur, útsaumur, vefnaður, prjón, hekl, næringarfræði og vörufræði. Skóladagur hefst með morgunmat kl. 08:00, kennsla hefst kl. 08:30. Dagurinn er langur og kennt er án frímínútna, kennsla stendur til kl.16:20 eða 16:45 en á föstudögum lýkur kennslu kl.12:00.
Innifalið í skólagjöldum er; öll matvæli, allt efni til ræstinga, allt handavinnuefni, allt garn og efni í vefnað, prjón, hekl, útsaum og vélsaum. Allar bækur möppur og blöð ásamt ýmsum tækjum og tólum sem tengjast handavinnu.
Framtíðarsýn
Framtíðarsýn skólans er sú að hér verði áfram rekinn hússtjórnarskóli sem veitir nemendum fræðslu sem miðar að því að gera ungt fólk fært um að sjá um sig sjálft og geta lifað heilbrigðu lífi hvað varðar fæðuval og umgengni um umhverfi sitt.
Rekstur skólans
Skólinn er rekinn sem sjálfseignarstofnun með framlagi frá mennta og menningar-málaráðuneytinu. Stofnfé skólans eru málverk sem skólinn hefur fengið í gjöf í gegn um árin, og áður fyrr komu gamlir nemendur í skólann (þegar árgangarnir áttu afmæli) og gáfu peninga, t.d. í listaverkasjóð sem skólastjórar keyptu síðan málverk fyrir sem prýða skólann og veita ánægju. Stefnt er að því að gera samning við Mennta- og menningarmálaráðuneytið til nokkura ára um rekstur skólans. Undanfarin ár hefur samningur verið gerður til hálfs árs í einu sem er allkostar óviðunandi.
Nemendur og starfsfólk
Nemendur eru oftast á aldrinum milli 18 og 30 ára, oft koma þeir beint úr menntaskóla eða eru að taka sér frí í eina önn. Stundum eru nemendur að láta gamlan draum rætast og koma þegar lag er hjá þeim. Þetta er nám sem kemur öllum til góða og eru bæði kynin velkomin.
Við skólann starfa þrír kennarar í fullu starfi, þeir eru allir með framhaldsskólaréttindi og sérnám í sínum fögum, ásamt skólameistara.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd