Byggingarfyrirtækið Húsvirki hf. var stofnað árið 1981. Stofnendur þess eru Einar Einarsson, múrarameistari, Hans B. Guðmundsson, húsasmíðameistari, Gunnar Dagbjartsson, húsasmíðameistari og Stefán B. Gunnarsson, múrari.
Starfsemin
Húsvirki hefur aðallega byggt upp íbúðarhúsnæði ásamt skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Fyrirtækið hefur verið lítið á útboðsmarkaði, en byggt starfsemi sína á lóðakaupum að mestu og þannig byggt á eigin reikning og selt á frjálsum markaði.
Húsvirki var eitt af níu fyrirtækjum sem stofnuðu Víkurhverfi hf. sem fékk úthlutað 23 ha landi og sá það um skipulagningu svæðisins. Þar hefur Húsvirki byggt fjölbýlishús, raðhús og einbýlishús u.þ.b. 120 íbúðir. Annað stórverkefni var Lækjarsmári 2-4-6 og 8 í Kópavogi. Þar byggði fyrirtækið 134 íbúðir í háhýsum. Þessi háhýsi voru einangruð að utan og klædd með álkæðningu. Húsvirki hf. var eitt af fyrstu fyrirtækjum til að nota slíka klæðningu við íbúðarbyggingar sem seldar voru á frjálsum markaði.
Eigendur og stjórnendur
Eigendaskipti urðu á fyrirtækinu á vormánuðum árið 2013 þegar Hermann Arason, Ingþór Óli Thorlacius og Valdimar Grímsson keyptu fyrirtækið af stofnendum. Byggingarstjóri fyrirtækisins er Ingþór Óli Thorlacius, framkvæmdastjóri er Hermann Arason og stjórnarformaður Valdimar Grímsson.
Verkefni
Fyrstu verkefni nýrra eigenda var uppbygging Boðaþings 1-3, 6-8, 10-12, 14-16 og 18-20, samtals 162 íbúða í Kópavogi. Íbúðirnar standa við Hrafnistu í Kópavogi og eru hugsaðar fyrir 55 ára og eldri. Húsvirki hefur lagt lokahönd á byggingu fjölbýlishúss við Sogaveg 73-75 og 77 í Reykjavík, en þar er um að ræða 45 íbúðir. Næstu verkefni eru bygging fjölbýlishúsa í Hraunbæ 143 í Reykjavík, samtals 58 íbúðir. Samhliða því er unnið við endurbætur og viðbyggingu fjölbýlishúss að Dunhaga 18-20 í Reykjavík. Þar verða 21 íbúð. Áætluð verklok eru í byrjun árs 2022. Í undirbúningi er einnig bygging 8 íbúða við Drangsskarð 15 í Hafnarfirði.
Boðaþing
Fjölbýlishúsin í Boðaþingi eru ein af þeim húsbyggingum sem Húsvirki hefur byggt. Húsvirki og Hrafnista (DAS) fengu þessum reit úthlutað til skipulagningar fyrir Þjónustumiðstöð eldri borgara í Kópavogi, hjúkrunarheimili, öryggisíbúðir og svo almennar íbúðir. Um er að ræða fimm hæða fjölbýlishús með lyftum. Húsið er hannað með það fyrir augum að allt viðhald verði í lágmarki. Í hverju húsi eru 34-36 mjög rúmgóðar íbúðir, hannaðar með rýmisþörf fyrir 55 ára og eldri.
Gæðaeftirlit
Fyrirtækið styðst við gamlar hefðir við byggingar en fylgir örri þróun sem orðið hefur bæði við byggingaraðferðir og efnisval með tilliti til gæðavottana. Ein af megin áherslum fyrirtækisins er gott gæðaeftirlit svo viðhald verði sem minnst. Krafan er að stytta byggingartímann sem ýtir enn frekar á breyttar aðferðir og meira gæðaeftirlit.
Framtíðarsýn
Framtíðarsýn fyrirtækisins er að vera traust byggingarfyrirtæki sem leggur áherslu á vandaðar íbúðir á sanngjörnu verði. Byggingarmagn er í kringum 70-100 íbúðir á ári.
Mannauður
Hjá fyrirtækinu starfa alla jafna bæði launþegar og undirverktakar. Í upphafi verks eru gerðir samningar við undirverktaka sem fylgja verkinu eftir í samráði við byggingarstjóra og verkstjóra á staðnum. Allir undirverktakar eru iðnmeistarar og hjá þeim starfa bæði íslenskir og erlendir aðilar. Fjöldi launþega veltur á umfangi verkefna þá stundina.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd