Hvalfjarðarsveit

2022

Hvalfjarðarsveit nær yfir um 494 ferkílómetra landssvæði, frá Hvalfjarðarbotni í austri, Skorradal í norðri, Borgarfjarðarbrú í vestri og Akranesi í suðri. Íbúar eru um 650 og er 2/3 hluti þeirra í dreifbýlinu og 1/3 hluti í þéttbýliskjörnum sem eru þrír, Melahverfi, Hlíðarbær og Krossland. Að auki er mikill fjöldi sumarhúsasvæða í sveitarfélaginu.

Stjórnsýslan
Í sveitarstjórnarkosningum 2018 voru þrír listar í framboði, Á, H og Í listi. Meirihluta sjö manna sveitarstjórnar skipa Á og H listi en í sveitarstjórn kjörtímabilið 2018-2022 sitja Björgvin Helgason, oddviti, Daníel A. Ottesen, varaoddviti, Guðjón Jónasson, vararitari, Helga Harðardóttir, Brynja Þorbjörnsdóttir, ritari, Ragna Ívarsdóttir og Elín Ósk Gunnarsdóttir. Sveitarstjóri er Linda Björk Pálsdóttir.

Skólarnir
Leik- og grunnskóli Hvalfjarðarsveitar er starfræktur á tveimur stöðum með samtals um 130 börn og um 40 starfsmenn. Leikskólinn Skýjaborg í Melahverfi er tveggja deilda leikskóli með um 40 börn. Grunnskólinn Heiðarskóli við Leirá með um 90 nemendur í 1.-10. bekk. Skólinn er Grænfánaskóli með áherslu á umhverfismennt og útinám. Íþróttamiðstöðin Heiðarborg, staðsett við Heiðarskóla, er opin fyrir almenning að undanskildu sumrinu þegar sundlaugin að Hlöðum er opin. Á sumrin er rekinn vinnuskóli þar sem að jafnaði starfa um 20 ungmenni. Hvalfjarðarsveit tekur þátt í rekstri Tónlistarskólans á Akranesi. Kennsla fer einnig fram í Heiðarskóla fyrir þá nemendur sem þar eru.

Menningin
Í Hvalfjarðarsveit er góð þjónusta við aldraða og öflugt félagsstarf tvisvar sinnum í mánuði yfir vetrartímann. Áhersla er lögð á fjölbreytni auk fastra liða, s.s. þorrablóts og vorferðar auk sundleikfimi tvisvar sinnum í viku í Heiðarborg. Hvalfjarðarsveit á 10% eignarhlut í Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimili, sem staðsett er á Akranesi. Félagsheimili í eigu sveitarfélagsins eru þrjú, Miðgarður, Fannahlíð og Hlaðir. Að Hlöðum er rekið Hernámssetrið, vandað safn minja og minninga um einstaka og merkilega sögu hernáms áranna 1940 til 1945.
Sveitarfélagið heldur árlega Hvalfjarðardaga. Hvalfjarðarsveit á merka sögu og margir kunnir einstaklingar úr Íslandssögunni koma við í sveitarfélaginu. Hallgrímskirkja í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd er tileinkuð minningu sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar sem var sóknarprestur þar árin 1651-1669. Talið er að þar hafi hann ort Passíusálmana.
Leirá er fornt höfðingjasetur og kirkjustaður, þar bjó Magnús Stephensen landshöfðingi sem var áhugamaður um framfarir og rak hann m.a. prentsmiðju á Leirá, þá einu á landinu á þeim tíma. Jón Thoroddsen sýslumaður bjó einnig á Leirá þegar hann skrifaði íslensku skáldsöguna Pilt og stúlku. Innri-Hólmur er stórbýli, kirkjustaður og fornt höfuðból skammt
frá gangamunna Hvalfjarðarganga. Í Landnámu segir um Innra-Hólm að þar hafi verið reist kirkja nokkuð löngu fyrir kristnitöku. Brúin yfir Bláskeggsá í Hvalfirði er fyrsta steinsteypta brúin utan Reykjavíkur og ein elsta steinbrú landsins, byggð árið 1907.

Umhverfið
Náttúru- og útivistarperlur, fjölbreytt landslag og fjölda áhugaverðra staða er víða að finna í Hvalfjarðarsveit. Hvalfjörðurinn skartar mörgum fallegum gönguleiðum eins og í Botnsdal, Brynjudal, upp að fossinum Glym í Botnsá, hæsta fossi landsins með fallhæðina 198 metra. Síldarmannagötur er vinsæl gönguleið úr Hvalfirði yfir í Skorradal og fjallið Þyrill þar sem fundist hafa sjaldgæfir geislasteinar er í Hvalfirði. Álfholtsskógur nær yfir 75 ha. svæði. Þar getur almenningur notið útivistar í yndisskógi þar sem markmiðið er að bæta gönguleiðir, auka fjölbreytni, vekja athygli á sérstökum plöntum með merkingum og sérkennum í náttúrunni og útsýni. Aðstaða er í skóginum til að setjast niður, hvíla, borða nesti og una sér. Yfirlitskort, merkingar stíga og göngukort af gönguleiðum gera gönguferðir enn meira aðlaðandi. Grunnafjörður sem friðlýstur var árið 1994 í þeim tilgangi að vernda landslag og lífríki svæðisins, sérstaklega fuglalíf sem er þar mjög auðugt. Fjörðurinn er Ramsar svæði, það eina á Íslandi sem liggur að sjó, verndað skv. samþykkt um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi.

Atvinnulífið
Í Hvalfjarðarsveit eru landbúnaður, iðnaður og ferðaþjónusta helstu atvinnugreinarnar. Margskonar landbúnaðarstarfsemi er í sveitarfélaginu, kúa- og sauðfjárbú eru allmörg og hrossarækt víða stunduð ásamt rekstri eins svínauppeldisbús og tveggja kjúklingabúa.
Ferðaþjónusta er víðsvegar um sveitarfélagið, hótel eru rekin á Glym í Hvalfirði, Laxárbakka við Leirá og undir Hafnarfjalli. Á Bjarteyjarsandi má fá leiðsögn um búið, veitingar og gistingu. Hernámssetrið er einstök upplifun í Hvalfirði og yfir laxveiðitímann er veiðihúsið við Leirá þéttsetið. Sumarbúðir eru reknar af KFUM og K bæði í Ölver og Vatnaskógi, á Hvítanesi er boðið upp á sveitanámskeið fyrir börn á sumrin.
Á Grundartanga er öflugt atvinnusvæði með fjölþætta starfsemi og eina stærstu höfn landsins, Grundartangahöfn. Fyrirtækjum á svæðinu fer fjölgandi, eru nú um 20 og starfsmenn um 1.100 auk þess sem nærri sami fjöldi hefur atvinnu af þjónustu sem tengist starfseminni með óbeinum hætti. Svæðið er eitt best vaktaða iðnaðarsvæði í heimi. Lögð er áhersla á uppbyggingu fyrirtækja sem stuðla að framhaldsvinnslu afurða sem falla til á Grundartanga og endurnýtingu afgangsorku. Norðurál er stærsta fyrirtækið á Grundartanga með um 600 starfsmenn, fyrirtækið er eftirsóttur vinnustaður með fjölbreytt störf. Norðurál fyrirhugar enn frekari uppbyggingu á svæðinu. Elkem, járnblendiverksmiðjan á Grundartanga er með rúmlega 200 starfmenn en þar er framleitt hágæða málmblendi. GT tækni sinnir margskonar þjónustu og framleiðslu, þar vinna um 80 manns, gámaflutningafyrirtækið Klafi ehf., fóðurverksmiðja Líflands, Vélsmiðjurnar Héðinn og Hamar eru á svæðinu svo eitthvað sé nefnt af þeim fjölda fyrirtækja sem þar eru. Hvalstöðin í Hvalfirði, var reist árið 1948 og er öllum húsakosti henni viðkomandi, m.a. bryggju og bröggum frá stríðsárunum, vel við haldið af Kristjáni Loftssyni og fjölskyldu.

Niðurlag
Hvalfjarðarsveit er öflugt sveitarfélag með góða innviði og grunnþjónustu. Samfélagið er fjölskylduvænt með fjölbreyttu atvinnulífi, menningu, stórbrotinni náttúru og landslagi. Nægt lóðaframboð er til staðar, bæði í þéttbýliskjörnum og á atvinnusvæðinu á Grundartanga auk þess sem sumarhúsalóðir og aðrar lóðir í dreifbýli eru til staðar. Hvalfjarðarsveit býður alla velkomna í sveitarfélagið, þar sem lífið er ljúft.
www.hvalfjardarsveit.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd