Hveragerði

2022

Menning, heilsa, umhverfi – Blómabærinn Hveragerði
Hveragerðisbær er ört vaxandi sveitarfélag þar sem íbúar njóta lífsgæða landsbyggðarinnar í fallegu og sérstöku umhverfi. Gróskumikill gróður, heitir hverir, gufustrókar og fjallahringurinn mynda fallega umgjörð utan um bæjarfélagið. Þorpsmyndun hófst í Hveragerði árið 1929 og áttu þeir miklu möguleikar sem fólust í heitum hverum og uppsprettum ríkulegan þátt í því. Hveragerðishreppur var stofnaður 1946 og varð bæjarfélag árið 1987. Árið 1986 voru íbúar Hveragerðis 1.462. Íbúum hefur fjölgað jafnt og þétt í Hveragerði og í byrjun árs 2022 eru þeir orðnir rúmlega 3.000.

Bæjarstjórn:

  • Friðrik Sigurbjörnsson, landfræðingur, forseti bæjarstjórnar
  • Eyþór H. Ólafsson, verkfræðingur, form. bæjarráðs
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, blómaskreytir
  • Njörður Sigurðsson, sagnfræðingur
  • Sigrún Árnadóttir, grunnskólakennari
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, æskulýðsfulltrúi

Bæjarstjóri frá 2006:

  • Aldís Hafsteinsdóttir

Jarðhitinn skapaði tækifæri
Fjölbreytilegar tilraunir til nýtingar jarðvarma í atvinnurekstri einkenna sögu Hveragerðis. Jarðhitasvæði í miðjum bænum og næsta nágrenni skapa Hveragerði sérstöðu meðal þéttbýla á Íslandi og þó víðar væri leitað. Nýting jarðhitans til suðu, baksturs, þvotta og húshitunar mun í upphafi hafa laðað marga til búsetu í Hveragerði. Matur var soðinn og brauð bökuð í gufukössum við hveri eða húshlið og allt gerði þetta að verkum að búseta í kringum hverina var fjárhagslega hagstæð. Rithöfundar og skáld flykktust í hið nýja bæjarfélag og mynduðu þannig í árdaga byggðar fyrstu og einu listamannanýlenduna á Íslandi. Skáldabærinn Hveragerði varð til.

Upphaf garðyrkju
Fyrsta tilraun til þurrabúðarlífs í Hveragerði tengist byggingu ullarverksmiðju við Reykjafoss í Varmá sem var í rekstri frá 1902-1912. Árið 1906 var sett upp lítil vatnsknúin rafstöð til ljósa og gatan að þjóðvegi við Ölfusréttir upplýst ári síðar, fyrsta götulýsing í dreifbýli á Íslandi.
Garðyrkjustöðin í Fagrahvammi markar upphaf ylræktar í Hveragerði og þar hlutu margir sína fyrstu skólun. Garðyrkjuskóli ríkisins á Reykjum útskrifaði fyrstu garðyrkjufræðingana vorið 1941. Margir þeirra sem og verkamenn úr Fagrahvammi reistu garðyrkjustöðvar í Hveragerði. Í Hveragerði voru 7 garðyrkjustöðvar í rekstri árið 1940 en 20 árið 1950. Garðyrkja efldist mjög á fimmta áratugnum og blómabærinn Hveragerði varð til. Á undanförnum árum hefur garðyrkjustöðvum farið fækkandi enda voru flestar þeirra staðsettar miðsvæðis í Hveragerði á lóðum sem í dag eru afar eftirsóknarverðar til búsetu.

Vinsæll áfangastaður ferðamanna
Snemma var gestkvæmt í Hveragerði þegar þangað flykktust íbúar nærliggjandi sveitarfélaga til að kaupa garðyrkjuafurðir. Þetta er ennþá eitt af sérkennum bæjarins einkum snemma sumars þegar kaupendur sumarblóma fylla þar götur. Úr þeim jarðvegi spratt m.a. Blómaskáli Paul Michelsens þar sem nú er verslunin Blómaborg og garðyrkjustöðin Eden, stofnuð 1958. Eden var einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins um árabil. Það var mikið áfall þegar Eden brann til grunna þann 22. júlí 2011. Á svæðinu er nú risin blómleg íbúðabyggð.
Hveragerði er enn í dag vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Hótel og gistiheimilum hefur farið mjög fjölgandi á undanförnum árum og nálgast fjöldi gistirúma nú 700 í bæjarfélaginu. Þar er Hótel Örk lang stærsta hótelið með um 170 herbergi, eitt stærsta hótel landsbyggðarinnar. Þar eru glæsilegir veislusalir og ríkir möguleikar til ráðstefnuhalds. Nýjasta viðbótin við gistirými í Hveragerði er Gróðurhúsið sem opnaði 2021. Þar eru um 50 gistiherbergi en auk þess mathöll, verslanir, bar, ísbúð og fjölbreytt þjónusta. Ferðamenn flykkjast enn til Hveragerðis og nú ekki síst til að njóta fjölbreyttra veitinga á einhverjum af hinum fjölmörgu veitingastöðum bæjarins.

Vinnustaðir bæjarins
Stærsti vinnustaður bæjarins fyrir utan bæjarfélagið sjálft er Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands. Árið 1950 byrjaði Landspítalinn rekstur leirbaða í Hveragerði og Náttúrulækningafélag Íslands hóf starfsemi heilsuhælis árið 1955 undir stjórn Jónasar Kristjánssonar, læknis. Þar hefur síðan verið óslitinn rekstur og njóta nú á þriðja þúsund einstaklinga þjónustu stofnunarinnar á hverju ári. Nú hyggja forsvarsmenn Heilsustofnunar á mikla uppbyggingu og í bígerð er bygging fjölda íbúða þar sem íbúar munu njóta fjölbreyttrar þjónustu frá stofnuninni.
Ás, dvalar- og hjúkrunarheimili hefur verið rekið í Hveragerði frá árinu 1952. Þar eru nú um 100 heimilismenn. Hjúkrunarheimili var opnað í tengslum við starfsemina árið 1998 með 26 rýmum. Í tengslum við Ás er rekin dagdvöl fyrir aldraða í samvinnu við Hveragerðisbæ.
Á árinu 2022 munu framkvæmdir hefjast við nýtt hjúkrunarheimili og þar með munu allir sem þar dveljast búa í einbýli með sér baðherbergi.
Fyrirtækið Kjörís ehf. hóf starfsemi í Hveragerði árið 1969 og var Hafsteinn Kristinsson fyrsti framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Kjörís er nú starfrækt í um 5.000 fm húsnæði og er með starfsstöðvar á Akureyri og Ísafirði. Kjörís er nú langstærsta iðnfyrirtækið í bænum.

Fleiri íbúar, aukin þjónusta
Með fjölgun íbúa og auknum fjölda ferðamanna sem hafa viðdvöl í bænum í lengri eða skemmri tíma hefur skapast grundvöllur fyrir fjölbreytta þjónustu.
Í Hveragerðisbæ fjölgar nú sem aldrei fyrr. Á árinu 2021 nam fjölgunin um 8% sem var mesta fjölgun á Íslandi það árið. Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er hvergi byggt meira, hlutfallslega, en í Hveragerði. Hefur bæjarstjórn lagt áherslu á fjölbreyttar húsagerðir sem falla vel að þeirri byggð sem fyrir er í bæjarfélaginu. Reglur eru um hæðir húsa og að jafnaði er gert ráð fyrir að hús séu ekki meira en 2 hæðir. Framundan er enn meiri uppbygging þegar framkvæmdir við annan áfanga í Kambalandi munu hefjast sem og uppbygging á þéttingarreitum innanbæjar. Einnig er nú verið að byggja á nýju athafnasvæði sunnan þjóðvegar en framundan er flutningur Suðurlandsvegar og mun það gjörbreyta ásýnd bæjarfélagsins.

Fjölbreytt afþreying og menning
Hveragerði býður upp á margvíslega afþreyingu fyrir alla aldurshópa. Útivstarsvæðið inn í Dal er vinsælt og góðar gönguleiðir í og við bæjarfélagið eru hvetjandi til útivistar. Hveragarðurinn, Lystigarðurinn Fossflöt, Golfvöllurinn Gufudal, Sundlaugin Laugaskarði og Listasafn Árnesinga eru allt viðkomustaðir sem gestum og íbúum þykir gaman að heimsækja.
Staðsetning bæjarins innan um ósnortna náttúru steinsnar frá höfuðborginni er vel til þess fallin að sækja staðinn heim og stunda útivist og heilsueflingu, verslun af einhverju tagi eða bara taka því rólega í fallegu og afslöppuðu umhverfi. Á sumrin er óvíða í bæjum landsins jafn fjölskrúðugur gróður og í Hveragerði og á veturna skarta garðyrkjustöðvarnar sínu fegursta þegar milda, fölgula lýsingu þeirra ber við himinn.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd