Íslenskir aðalverktakar ÍAV

2022

Íslenskir aðalverktakar eru elsta starfandi verktakafyrirtæki á Íslandi.

Saga ÍAV
Íslenskir aðalverktakar, ÍAV var stofnað af frumkvæði íslenskra stjórnvalda til að uppfylla samningsskyldur Íslands gagnvart Bandaríkjum Norður-Ameríku samkvæmt samningi um íslenska verktöku fyrir varnarliðið frá 1954.

Meginatriði þess samnings voru meðal annars:
Að allri verktöku á vegum varnarliðsins yrði hagað þannig að komið væri í veg fyrir neikvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf.
Að íslenskir verktakar, tilnefndir af ríkisstjórn Íslands, sæju um alla verktöku sem þeir væru færir um.
Að íslenskir verktakar tækju að sér rekstur á verktakabúðum og verkstæðum bandarísku verktakanna sem höfðu annast framkvæmdir þar.
Að fylgt yrði íslenskum stöðlum við hönnun á þeim mannvirkjum varnarliðsins sem ekki væru varnarmannvirki.

Markmið Bandaríkjamanna, fyrir hönd varnarliðsins, var að til væri íslenskur verktaki sem væri svo öflugur og vel búinn að hann gæti með stuttum fyrirvara tekið að sér framkvæmdir við hvaða verkefni sem þörf reyndist vera á.
Á fyrstu starfsárum ÍAV voru tæpast til í landinu þau tæki og verkþekking sem dugðu til varnarframkvæmda nema hjá Bandaríkjamönnum og verktökum þeirra. Því voru í framhaldinu fluttar inn til landsins ýmsar vélar og tæki sem ekki höfðu áður sést í íslenskri verktakastarfsemi. Íslenskir aðalverktakar sf. og ekki síður fyrirrennarar þeirra, Sameinaðir verktakar sf., stóðu einnig að fjölbreyttri menntun byggingarmanna með námsferðum til Bandaríkjanna og ýmsum öðrum hætti í tengslum við sérhæfð verkefni og áttu með því drjúgan þátt í framþróun íslenskrar verkmenningar. ÍAV hefur byggt heilt bæjarfélag á Keflavíkurflugvelli með öllum þeim mannvirkjum og stofnunum sem því fylgja. Meðal verka ÍAV á varnarsvæðum má nefna byggingu flugskýla, tugi fjölbýlishúsa, skóla, íþrótta- og kvikmyndahús, olíustöðva, sjúkrahús, sundlaugar, kirkju og lagningu vega og flugbrauta. Sprengiheld flugskýli fyrir orrustuþotur og ratsjárstöðvar eru meðal þeirra sérverkefna sem unnin voru fyrir NATO og sjóherinn sem rak herstöðina allt til ársins 2006. Ratsjárstöðvarnar sem eru á Bolafjalli, Gunnólfsvíkurfjalli, Stokksnesi og á Miðnesheiði voru reistar af ÍAV.
Allar þessar framkvæmdir voru unnar með góðum stuðningi íslenskra stjórnvalda og ekki síður Bandaríkjamanna sem vildu alla tíð stuðla að aukinni reynslu, þekkingu, færni og fagmennsku, við flóknar framkvæmdir sem ÍAV annaðist sem verktaki fyrir varnarliðið.
Eftir árið 1990 var ljóst að stöðugt stærri hluti varnarframkvæmda var fjármagnaður af Mannvirkjasjóði NATO. Ríkisstjórn Íslands samþykkti árið svo árið 1992 að útboð framkvæmda á vegum NATO yrðu opin fyrirtækjum í öllum aðildarlöndum bandalagsins.
Árið 1996 var tekin ákvörðun um að afnema í áföngum það fyrirkomulag að íslensk stjórnvöld tilnefndu verktaka til að semja um framkvæmdir á varnarsvæðum og að stefnt yrði að frjálsum útboðum verkefna í framtíðinni.

ÍAV í samtímanum
Frá stofnun og til dagsins í dag hefur ÍAV komið að hönnun og byggingu fjölda mannvirkja sem spanna allt svið byggingariðnaðar. Allt frá smærri viðhalds- og breytingaverkefnum að byggingu íbúða, hótela, verslunar- og skrifstofuhúsnæðis, gagnavera, vegaframkvæmda, brúarmannvirkja, jarðgangna, veitna, snjóflóðamannvirkja, hafna, virkjana, iðnaðarhúsnæðis, verksmiðja, flugskýla, skóla, sundlauga, íþróttahúsa og knattspyrnuhalla. ÍAV er stolt af verkefnum sínum og sérstaklega af tónlistarhúsinu Hörpu. ÍAV annaðist hönnunarstýringu og allar framkvæmdir við þá fallegu og verðlaunuðu byggingu.
ÍAV vinnur nú að margskonar verkefnum. Stærstu verk síðustu missera eru gerð Vaðlaheiðarganga, endurnýjun á Keflavíkurflugvelli ásamt stækkun Búrfellvirkjunar sem eru unnin í samvinnu við eiganda okkar sem samvinnuverk (e. joint venture).
Þjónustudeild fyrirtækisins leggur áherslu á fasteignaþjónustu, viðhaldsvinnu og endurbætur á fasteignum og verkefni tengd mannvirkjum meðal annars á Ásbrú, sem er gamla varnarsvæðið á Miðnesheiði. Starfsmenn hafa yfir að ráða viðamikilli þekkingu á byggingum og öðrum mannvirkjum á Ásbrú sem meðal annars felst í sérþjálfun með efni á borð við asbest og önnur spilliefni.
ÍAV rekur jarðefnanámur, malarvinnslu og sölu á þremur stöðum á suðvesturhorni landsins:
í Lambafelli í Þrengslum
í Stapafelli á Suðurnesjum
í Rauðamel á Suðurnesjum.
Í námunum í Lambafelli og Stapafelli eru seld bæði unnin og óunnin fyllingarefni til mannvirkjagerðar. Í námunni í Rauðamel eru unnin og seld fylliefni í steinsteypu og er sú framleiðsla með heimild til CE – merkingar á framleiðslunni.
ÍAV leggur kapp á að ávallt séu til staðar nýjustu upplýsingar um efnisgæði og kornakúrfur þess efnis sem selt er úr jarðefnanámum félagsins.

Stjórn og eigendur
ÍAV er nú alfarið í eigu fjölskyldufyrirtækisins Marti Holding AG í Sviss, sem er stofnað árið 1922. Marti Holding á um 80 fyrirtæki víðsvegar um heim sem eru öll rekin sem sjálfstæðar einingar. Í stjórn ÍAV sitja þau Daniel Schorro stjórnarformaður, Monika Koehli og Sigurður Ragnarsson. Framkvæmdastjórn ÍAV skipa þeir Sigurður R. Ragnarsson forstjóri, Valur Hreggviðsson framkvæmdastjóri á framkvæmdasviði, Einar Hrafn Hjálmarsson fram-kvæmdastjóri á jarðvinnusviði, Kristján Arinbjarnar framkvæmdastjóri tækni og þjónustu og Þóroddur A. Ottesen fjármálastjóri. Höfuðstöðvar ÍAV eru að Höfðabakka 9 í Reykjavík. ÍAV er einnig með skrifstofur í Reykjanesbæ, þar er einnig að finna járnsmíðaverkstæði, trésmiðju og vélaverkstæði.

Mannauður ÍAV
Hjá ÍAV leggjum við áherslu á þekkingu, færni, frumkvæði og fagmennsku.
Sérstaða ÍAV felst í þeim hæfileika og þeirri aðlögunarhæfni að taka margþætt verkefni, skilgreina og umbreyta í fullbúin mannvirki á skilgreindum tíma. Sérstaða ÍAV endurspeglast því í fjölbreyttri verkefnaskrá, sem ber vott um metnað og áhuga stjórnenda og starfsfólks á að takast á við flókin og krefjandi verkefni. Verkefnavalið gerir kröfu til ÍAV um að hafa á að skipa hæfu starfsfólki með þekkingu, reynslu og bestu fáanlegu menntun á þeim sviðum sem fyrirtækið starfar á. ÍAV leggur mikla áherslu á að ráða til sín kraftmikla og framsækna einstaklinga og bjóða þeim góða starfsaðstöðu við krefjandi verkefni.
Starfsmenn eru sérfræðingar á sviði byggingatækni og nýta sér allar nútímaaðferðir við framkvæmdir. Það er eftirsótt að vinna hjá ÍAV. Starfsfólki er gefinn kostur á krefjandi verkefnum sem fullnægja metnaði þeirra og reynslu. Starfsmenn sem starfa við uppbyggingu mannvirkja eru almennt iðnmenntaðir og stjórnendur á verkstöðum eru almennt með meistarapróf í iðngreininni. Verkefnastjórnendur eru svo með verk- eða tæknifræðimenntun. Unnið er markvisst að því að viðhalda og auka þekkingu starfsmanna með nýráðningum og með endurmenntun. Gefin er út á hverju hausti fræðsluáætlun ÍAV. Þá gefst einstaklingum og smærri teymum kostur á að sækja sértæk námskeið af eigin frumkvæði. ÍAV hefur útbúið sérsniðin námskeið til að styrkja eigin starfsmenn. Að jafnaði sækja 35% starfsfólks endurmenntun á ári hverju. Starfsmannafélagið, SÍAV, stendur fyrir reglubundinum viðburðum yfir árið og haldin er vegleg árshátíð ár hvert. Þá bjóðastt starfsfólki ýmis sérkjör fyrir tilstuðlan starfsmannafélagsins. Starfsmannafélagið á sumarhús í Miðengi í Grímsnesi og íbúð á Akureyri sem starfsmenn nýta sér allt árið.

Viðskiptavinir og hagsmunaaðilar
ÍAV hefur að leiðarljósi að bjóða hagkvæmar lausnir fyrir viðskiptavini með færni, frumkvæði og fagmennsku að leiðarljósi. ÍAV leggur áherslu á virðingu og traust í samskiptum við viðskiptavini og hagsmunaaðila.

Gæða- og öryggisvottun
Öryggis og heilbrigðismál eru forgangsmál í allri starsemi ÍAV. Lögð er áhersla á fræðslu áður en vinna hefst í hverju verkefni. Haldnir eru morgunfundir áður en vinna hefst hvern dag. Þar er farið yfir verkefni dagsins, verklag, samræmingu og hættur dagsins, til að tryggja að allir komi heilir heim. ÍAV er gæðavottað og ÍAV ber með stolti, allt frá árinu 2009, BSI vottun samkvæmt ISO 9001 gæðastjórnunarkerfinu, en samkvæmt byggingareglugerð nr. 112/2012 er gerð krafa um vottað gæðastjórnunarkerfi í byggingariðnaði. Virkt gæðastjórnunarkerfi, sem ýtir á stöðugar umbætur, er til hagsbóta fyrir alla. ÍAV er einnig með öryggisvottun, BSI vottað samkvæmt öryggisstaðlinum ISO 45001(áður OSHAS 18001) frá árinu 2014. Markmið með BSI vottunum ÍAV er að bæta framleiðsluferla og tryggja góða vöru til viðskiptavina og ekki síst að tryggja öryggi starfsfólks. Gæða- og öryggisvottun ÍAV hefur styrkt orðspor fyrirtækisins og eflt stöðu ÍAV, þegar leitað er eftir traustum aðalverktaka til hinna ýmsu framkvæmda.

ÍAV í samfélaginu
Fyrirtækið er virkur þátttakandi í samfélaginu, m.a. með stuðningi við íþrótta-, menningar-, æskulýðs- og líknarstarf, eftir því sem aðstæður leyfa hverju sinni. Einnig með þátttöku í kennslu á háskólastigi og í Endurmenntun HÍ, rannsóknar- og lokaverkefnum og stuðningi við iðnmenntun. Þá hefur ÍAV verið þátttakandi í faglegu starfi á starfssviði félagsins t.d. Verkefnisstjórnunarfélagi Íslands, Fasteignastjórnunarfélagi Íslands, Vistbyggðaráði, Verkfræðingafélagi Ísland, Félagi stjórnenda og í Samtökum Iðnaðarins og undirfélögum.

Samfélagsleg ábyrgð
ÍAV vill vernda náttúru landsins og tryggja að efni sé nýtt á besta mögulega hátt og úrgangur endurnýttur eins og kostur er. Til að ná fram þessu markmiði er leitast við að beita jafnt umhverfisvænum og hagkvæmum aðferðum í verkefnum. Áhersla er lögð á skilvirka nýtingu auðlinda og næmi gagnvart menningarlegum og samfélagslegum gildum.
Góð umgengni á verkstöðum og flokkun á úrgangi frá byggingastarfsemi er einn af kjarna ferlum í þessari stefnu.

Markaðsstefna
Mikið hefur breyst í rekstri ÍAV þau tæplega 70 ár sem fyrirtækið hefur starfað. Í upphafi var starfsemi fyrirtækisins einskorðuð við einn verkkaupa, en verkefnin fjölbreytt.
Í dag starfar ÍAV á nánast öllum sviðum verktöku fyrir breiðan hóp viðskiptavina. Það, ásamt stærð fyrirtækisins og þekkingu starfsmanna, skapar ÍAV mikla sérstöðu sem nýtt verður til þess að fyrirtækið verði áfram í fararbroddi á íslenskum verktakamarkaði.

Markmið og stefna ÍAV
ÍAV verði fyrsti valkostur verkkaupa/framkvæmdaaðila í framkvæmdum á Íslandi og eftirsótt verktakafyrirtæki að starfa fyrir. ÍAV verði eitt stærsta fyrirtækið á íslenskum verktakamarkaði, rekstur sé arðsamur og fyrirtækið njóti trausts hjá viðskiptavinum. ÍAV verði leiðandi í þróun nýrra leiða í samningum, fjármálum, efnisvali og útfærslum.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd