Framsækni, virðing og fagmennska
IÐAN fræðslusetur var stofnað árið 2006 og varð til við samruna fjögurra fræðslumiðstöðva í iðnaði og ferðaþjónustu. Ári seinna bættist Fræðslumiðstöð bílgreina í hópinn. IÐAN fræðslusetur er í fararbroddi í símenntun iðngreina, með fræðslu, miðlun og þjónustu sem stuðlar að framþróun í iðnaði. Sérstaða þess eru sterk tengsl við atvinnulífið.
Mannauður og kjarnastarfsemi
Eigendur IÐUNNAR eru: Samtök iðnaðarins, Samiðn, MATVÍS, Grafía, FIT, VM, Bílgreinasambandið, Samtök ferðaþjónustunnar og Meistarafélag húsasmiða. Hildur Elín Vignir er framkvæmdastjóri IÐUNNAR fræðsluseturs og þar starfa á þriðja tug sérfræðinga í fræðslumálum og þróunarstarfi.
Kjarnastarfsemi IÐUNNAR er að bæta hæfni fyrirtækja og starfsmanna í bíl-, bygginga-og málmiðngreinum, prentiðnaði og matvæla- og veitingagreinum. Sviðsstjórar IÐUNNAR eru fimm og skipuleggja fræðslustarf fyrir sínar greinar. Þeir eru í samstarfi við lykilfólk í iðngreinunum, innlendar og erlendar menntastofnanir og systurfélög vegna sí- og endurmenntunaráætlana.
Kristjana Björg Guðbrandsdóttir stýrir prent og miðlunarsviði, Kristján Kristjánsson málm- og véltæknisviði, Ólafur Ástvaldsson sviði bygginga- og mannvirkjagreina, Ólafur Jónsson matvæla- og veitingasviði og Sigurður Svavar Indriðason stýrir bílgreinasviði. Á bak við hvert svið starfa sérfræðingar í sviðsstjórnum sem tryggja faglega framþróun í hverri grein.
Á hverju ári eru haldin á þriðja hundrað námskeiða og fræðsluviðburðir. IÐAN hefur hlotið EQM (European Quality Mark) gæðavottunina sem er staðfesting á því að námskeið IÐUNNAR standist evrópskar kröfur um gæði fræðsluaðila.
Alþjóðasamstarf og innlend samstarfsverkefni
Í öllu starfi IÐUNNAR fræðsluseturs er lögð áhersla á að nýta tæknina á skilvirkan hátt og þróa námsleiðir sem mæta þörfum atvinnulífsins á hverjum tíma. Nýsköpun og framþróun er því ríkur þáttur í starfi IÐUNNAR og vel er fylgst með helstu straumum og stefnum.
IÐAN tekur þátt í ýmiss konar samstarfi, formlegu og óformlegu, við stofnanir, fræðsluaðila og hagsmunasamtök bæði innanlands og erlendis. Tilgangurinn með samstarfinu er að miðla upplýsingum og sérfræðiþekkingu um menntamál í iðnaði, stuðla að nýjungum í fræðslustarfi og styrkja þróun og framkvæmd verkefna sem IÐAN vinnur að hverju sinni. Meðal þróunarverkefna sem IÐAN fræðslusetur hefur tekið þátt í er VISKA, raunfærnimat fyrir innflytjendur, Ævintýri í Evrópu, námsmannaskipti í Evrópu, NKK, jafnrétti og vinnustaðanám í iðn- og starfsgreinum og þátttaka í EQAMOB, gæðakerfi fyrir fyrirtæki sem taka þátt í námsmannaskiptum.
Betra aðgengi að námi
Á vegum IÐUNNAR fer fram greining á þörfum fyrirtækja fyrir þekkingu. Þjálfun og þekkingu er miðlað með hliðsjón af því sem hentar aðstæðum og þörfum hvers og eins, hvort sem um er að ræða kennslu í skólastofu, þjálfun á vinnustað eða einstaklingsbundna leiðsögn. Undanfarið hefur IÐAN fræðslusetur lagt áherslu á að efla framboð sitt á fjarnámi og vefnámskeiðum og betra aðgengi fólks og fyrirtækja á atvinnumarkaði að námi.
Náms- og starfsráðgjafar IÐUNNAR eru fjórir og sinna þeir raunfærnimati og náms -og starfsráðgjöf en taka að auki þátt í verkefninu Fræðslustjóri að láni og fara í fyrirtækjaheimsóknir til að meta þörf á símenntun og fræðslu.
Raunfærnimat er góður kostur fyrir fólk sem hefur reynslu úr atvinnulífinu en stutta formlega skólagöngu. Matið getur styrkt stöðu einstaklinga á vinnumarkaði og eflt sjálfstraust þeirra ásamt því að stytta mögulega nám til sveinsprófs eða starfsréttinda. Frá árinu 2007 hafa 2585 einstaklingar farið í gegnum raunfærnimat hjá IÐUNNI fræðslusetri.
IÐAN fræðslusetur er ein menntastofnana sem tekur þátt í Áttinni, vefgátt sem nokkrir stórir starfsmenntasjóðir hafa sameinast um. Þar geta fyrirtæki sótt um styrki til námskeiðahalds fyrir starfsmenn sína eða vegna námskeiða sem starfsmenn sækja.
IÐAN fræðslusetur hefur umsjón með gerð námssamninga og framkvæmd sveinsprófa fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins í bygginga- og mannvirkjagreinum, matvæla- og veitingagreinum, málmiðngreinum, upplýsinga- og fjölmiðlagreinum, snyrtigreinum, hönnunar- og handverksgreinum og bíliðngreinum
Gidi
Gildi IÐUNNAR fræðsluseturs eru framsækni, virðing og fagmennska. Mikil áhersla er lögð á að vera í fararbroddi, skrefinu á undan, og að nýta tæknina á skilvirkan hátt. Með öflugri símenntun móta einstaklingar starfsþróun sína eftir kröfum atvinnulífsins og með þeim hætti verður þekking þeirra verðmætari bæði fyrir þá sjálfa og samfélagið í heild.
Aðsetur
IÐAN er til húsa í Vatnagörðum 20 þar sem er bæði góð aðstaða til verklegrar og bóklegrar kennslu. Þar eru einnig skrifstofur og fundarherbergi. Námskeið fara einnig fram vítt og breitt um landið eftir óskum félagsmanna. Námskeið hafa til að mynda verið haldin í Landbúnaðarháskóla Íslands, Reykjanesbæ, Selfossi, Akranesi, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Sauðárkróki, Húsavík og Vestmannaeyjum
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd