Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík var stofnað þann 3. febrúar árið 1867 af hópi 31 iðnaðar-manns í þeim tilgangi að koma upp duglegum handiðnamönnum, efla og styrkja samheldni meðal handiðnamanna á Íslandi.*
Félagið er því 155 ára og telst vera 3ja elsta starfandi félagið á Íslandi. Skráðir félagar eru tæplega 300 talsins.
Eftir félagið og félagsmenn liggja mörg glæsileg verk og vinna og má þar m.a. nefna stofnun Iðnskólans í Reykjavík árið 1904 sem fluttist í hús Iðnaðarmannfélagsins í Vonarstræti árið 1906. Styttu Ingólfs Arnarssonar sem afhent var Landsstjórninni árið 1924 og síðar lýst upp í tilefni 150 ára afmælis félagsins auk margra annarra verkefna, aðkomu að ýmsum réttinda- og félagsmálum o.fl.
Starfsemin
Yfirlýstur tilgangur félagsins er að efla menningu og menntun iðnaðarmanna og styrkja stofnanir sem starfa í þeirra þágu en einn af hápunktum starfs IMFR er veiting viðurkenninga til nýsveina í öllum iðngreinum sem skarað hafa framúr á sínu sviði.
Fyrsta veiting slíkra viðurkenninga fór fram árið 2007. Nú 15 árum síðar hafa 324 nýsveinar úr 28 iðngreinum verið heiðraðir.
Verndari hátíðarinnar er forseti Íslands en auk hans taka þátt í athöfninni ráðherrar, fulltrúi frá Borginni, heiðursiðnaðarmenn, meistarar, iðnaðarmenn og velunnarar. Félagið hefur notið velvildar Borgarinnar og fjölmargra fyrirtækja og einstaklinga með það að markmiði að gera umgjörð hennar sem glæsilegasta.
Samstarfsfélagar IMFR um nýsveinahátíðina eru sveinsprófsnefndir löggiltra iðngreina, félög meistara og sveina í löggiltum iðngreinum, starfsgreinaráð löggiltra iðngreina og samtök iðnaðarins.
Nánast allt starf félagsins er unnið í sjálfboðavinnu, stýrt af fimm manna stjórn, varastjórn og ýmsum nefndum. Má þar m.a. nefna viðburðarnefnd sem undirbýr og sér um stærri viðburði félagsins.
Félagið stendur að ýmsum viðburðum sem tengjast hinum ýmsu iðngreinum ásamt því að skipuleggja heimsóknir til fyrirtækja o.fl.
Aðsetur
Félagið á skrifstofu- og félagshúsnæði í Súðarvogi auk þess að eiga baðstofuloft í gamla Iðnskólahúsinu við Vonarstræti, sem endurbyggt var eftir stórbruna árið 1967.
*Úr sögu Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík, rituð af Gísla Jónssyni.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd