Brot úr sögu Iðnsveinafélags Skagafjarðar
Fimmtudaginn 11. febrúar 1965 voru nokkrir iðnsveinar mættir á fundi heima hjá Birgi Dýrfjörð, Knarrarstíg 4, Sauðárkróki, til þess að stofna iðnsveinafélag fyrir Sauðárkrók og nágrenni.
Stofnendur
Eftirfarandi menn höfðu tilkynnt þátttöku sína í félagsstofnuninni og skoðast þeir því hér með stofnendur: Erlendur Hansen rafvirki, Jón Friðriksson húsasmiður, Haraldur Friðriksson rennismiður, Birgir Dýrfjörð rafvirki, Þór Þorvaldsson húsasmiður, Hjalti Guðmundsson húsasmiður, Valur Ingólfsson húsasmiður, Bragi Þ Sigurðsson vélsmiður, Ingimar Hólm rafvirki,
Jón Dagsson múrari og Þorbergur Jósefsson húsasmiður. Fundurinn samþykkti eftirfarandi: „Ef einhverjum þessara manna ber að vera aukafélagi, eða uppfylla ekki skylirði til þátttöku sker A.S.Í. úr.“ „Birgir Dýrfjörð las upp uppkast að lögum félagsins og skýrði frá nauðsyn þess að stofna félagið.“ Þannig er texti á fyrstu síðu í fundargerðarbók félagsins. Birgir Dýrfjörð var fyrsti formaður, aðrir í stjórn voru Hjalti Guðmundsson og Haraldur Friðriksson. Tæpri viku síðar var svo haldinn framhaldsstofnfundur í sveinafélagi Skagafjarðar og voru þá komnir frá Reykjavík tveir félagar sem unnið höfðu þá vinnu sem þurfti til að koma félaginu á laggirnar, en það voru þeir Jón Snorri Þorleifsson, formaður Trésmiðafélags Reykjavíkur en hann hafði staðfært og samið drög að lögum félagsins og Snorri Jónsson framkvæmdarstjóri ASÍ. Kom fram í máli þeirra að stofnun félagsins væri liður í því að aðskilja gömlu meistarafélögin í launamenn og eigendur. Hafði þetta verið gert víða um land. Kristallaðist þetta í þeim ágreiningi sem varð út af verkfallsrétti. Töldu launamenn að sá réttur væri þeim ákaflega mikils virði og á engan hátt mætti semja hann frá sér. Nýir stofnfélagar bættust í hópinn á fundinum en það voru Guðmundur Sigurðsson húsasmiður og Sigurjón Þóroddsson húsasmiður. Á þessum fundi óskuðu gestir félaginu velfarnaðar í störfum sínum og langlífis.
Á haustdögum árið 1965 er að sjá að félagið hafi fyrst farið til viðsemjenda sinna og byggt á samningi sem kenndur var við Selfoss en breytt honum með þrem litlum frávikum. Næstu ár eru að sjá í gjörðabókum, ekki mikil átakaár, en eru þó haldnir nokkrir fundir árlega. Um 1970 er félaginu skipt upp í deildir, málmiðnaðardeild og tréiðnaðardeild. Deildaskipting var síðar lögð niður. Um 1984-85 eru umræður um merki félagsins og eru þær í gangi um nokkra hríð og snúast um gerð og útfærslu allt til 1986 er núverandi merki er klárað og samþykkt. Höfundur þess er Guðmundur Gunnarsson fyrrverandi formaður félagsins.
Um 1992 eignast félagið húseignað Sæmundargötu 7a með Verkamannafélaginu Fram og síðar með Öldunni – stéttarfélagi. Um þessa fasteign var stofnað félagið Sæmundargata 7a ehf. Fasteignin var seld Sveitarfélaginu Skagafirði í desember 2014. 1992 eignast félagið 10% hlut í íbúð í Reykjavík í félagi með öðrum stéttarfélögum í Skagafirði. Nokkrum árum síðar var síðan bætt við annari íbúð og eru þær ýmist í eigu sjúkrasjóða eða orlofssjóða félaganna og þjóna sem slíkar.
Eftirtaldir hafa gegnt stöðu formanns í félaginu:
1965-1969 Birgir Dýrfjörð
1969-1973 Hjalti Guðmundsson
1973-1975 Einar Sigtryggsson
1975-1978 Jón Snædal
1978-1980 Sigurður Frostason
1980-1981 Björgvin Magnússon
1981-1983 Sigurður Frostason
1983-1987 Guðmundur Gunnarsson
1987-1993 Hallur Sigurðsson
1993-1996 Sigurgísli Kolbeinsson
1996-2010 Páll Sighvatsson
2010- Björgvin Sveinsson
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd