ILVA ehf.

2022

Saga ILVA nær til loka fimmta áratugarins, þegar Møbler og Tæpper A/S opnaði litla húsgagnaverslun í Kaupmannahöfn, en á þessum árum spruttu upp margar slíkar víðsvegar um borgina. Hugmyndir um stóra húsgagna- eða húsbúnaðarverslun eins og við þekkjum í dag voru ekki komnar upp á yfirborðið.

Verslanirnar
Árið 1974 opnaði húsgagnaverslunin JL Møbler og Tæpper A/S í Ishøj, 10.000 fm að stærð. Verslunin í Ishøj varð ein stærsta verslun í Danmörku og var þar með brautryðjandi í verslun og markaðssetningu á vörum sínum. Húsgagnavörulistar urðu á þessum tíma hluti af daglegu lífi Dana. Árið 1977 var nafninu breytt í ILVA og 10 árum síðar var opnuð stór verslun í Århus og var sú verslun upphafið af spennandi framþróun ILVA. Stórt og spennandi skref var stigið þegar bygging á nýrri verslun hófst í Århus. Verslunin var tilbúin árið 1993. Húsið var byggt frá grunni af lítt þekktri arkitektastofu í Århus sem seinna meir varð mjög þekkt, Schmidt, Hammer & Lassen. Verslunin fékk verðlaun fyrir arkitektúr og hefur síðan verið talin ein sú flottasta í Norður Evrópu. Opnunin á versluninni á Jótlandi hafði miklar breytingar í för með sér markaðs- og hugmyndafræðilega fyrir ILVA og í kjölfarið urðu ILVA verslanir þekktar fyrir hágæða nútímalega hönnun, mikil vörugæði og framúrskarandi þjónustu. Þessi atriði hafa síðan verið hornsteinar í viðskiptastefnu ILVA verslananna. Árið 1996 var versluninni í Lyngby breytt í nútíma húsbúnaðarverslun og gagnger endurreisn og stækkun verslunarinnar varð til þess að verslunarreksturinn styrktist. ILVA varð nú þekktasta og nýtískulegasta húsbúnaðarverslun í Danmörku. ILVA tekur enn eitt skref í áttina að verða ein sú stærsta húsbúnaðarkeðja með 22.000 fm vöru-, dreifingar- og stjórnunarmiðstöð í Greve árið 1997. Verslunin í Århus er stækkuð um rúma 2.000 fm árið 1999 til að fylgja eftir auknum vinsældum verslunarinnar og árið 2001 eru gerðar endurbætur og ILVA í Ishøj er tekin í gegn og stækkuð um 4.000 fm í samvinnu við Schmidt, Hammer og Lassen. ILVA í Ishøj er nú ein stærsta húsbúnaðarverslun í Norður Evrópu, alls um 16.000 fm. Árið 2003 kaupir fjárfestingarfélagið Advent International ILVA – sterkur fjárfestir sem hyggst útvíkka starfsemi ILVA á evrópskum markaði. 9. júní 2005 opnaði ILVA sína fyrstu verslun utan Danmerkur í Svågertorp, Malmö. Fyrsta verslunin í Englandi opnar í Lakeside, Thurrock 3. ágúst 2006. ILVA í Manchester opnaði nokkrum dögum seinna – eða 14. september, og svo þann 2. nóvember opnaði þriðja í Gateshead. ILVA lokaði verslunum sínum í Englandi árið 2007.

Sameiningar
Árið 2007 eignast íslenskir aðilar ILVA, í ágúst 2007 kaupir Lagerinn ehf. meirihlutann í ILVA og yfirtekur daglegan rekstur fyrirtækisins og ári síðar opnar ILVA á Íslandi, þann 4. október 2008. Árið 2009 sameinast ILVA og IDE møbler en halda áfram sitthvorum rekstri, árið 2019 renna fyrirtækin alveg undir sama hatt og er nú rekið sem ILVA. Á árunum 2010-2012 voru opnaðar þrjár verslanir til viðbótar í Danmörku og eru nú sex ILVA verslanir þar í landi. Jysk Group er eigandi ILVA í Danmörku en Lagerinn ehf. er eigandi ILVA á Íslandi.

Framtíðin
ILVA sér fram á meiri stækkun og útbreiðslu í framtíðinni og er unnið að opnun nýrrar verslunar á Akureyri í júní 2021. Sú verslun er 1.000 fm að stærð og verður staðsett við Austursíðu.
Framtíðarsýn ILVA er að halda áfram að framleiða vandaða og fallega hönnun og bjóða viðskiptavinum upp á klassíska danska hönnun í bland við smávörur sem eru í tísku hverju sinni. Mikil áhersla er lögð á að fylgja stefnum og straumum líðandi stundar og vera nútímaleg í innkaupum.

Starfsmenn
Í ILVA eru starfandi 40 starfsmenn og mikið er lagt upp úr góðri fyrirtækjamenningu og unnið er af virðingu og vinsemd í því að bæta þjónustu og daglegan rekstur í sameiningu með flottu teymi starfsmanna.

Umhverfisstefna
Umhverfisstefna ILVA er í stöðugri þróun og eru stjórnendur og starfsmenn meðvitaðir og upplýstir. Áhersla er lögð á flokkun og endurvinnslu og reynt er að lágmarka plast eins og kostur er. Einnig eru þessi gildi höfð í huga þegar pantað er frá birgjum og skiptir ILVA höfuðmáli að merkin sem seld eru í versluninni séu vönduð og með virka umhverfisstefnu.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd