Hjónin Sathiya Moorthy Muthuvel og Jothimani eiga Indian Curry House og vinna þar saman. Þau eru frá Suður-Indlandi, hann lærði þar í fjögur ár til kokks á sínum tíma, og vann á hótelum í Indlandi áður en hann kom til Íslands árið 1997. Hann vann í Reykjavík í nokkur ár og fór reglulega til Indlands að heimsækja fólkið sitt. Í eitt af þeim skiptum kynntist hann Jothimani sem varð síðar eiginkona hans. Þau giftu sig á Indlandi en bjuggu sér heimili á Akureyri og eiga þrjú börn sem öll eru fædd á Íslandi. Moorthy kom fyrst til Akureyrar 2004 sem gestakokkur á Akureyrarvöku, og líkaði svo vel að hann ákvað að setjast að á Akureyri. Þau hjónin opnuðu svo take away staðinn Indian Curry Hut með aðstoð góðra manna árið 2007. Árið 2017 breyttu þau síðan rekstrinum í veitingastaðinn Indian Curry House.
Vinnulag og framleiðsluferli
Indian Curry House er veitingastaður sem býður upp á indverskan mat frá ýmsum svæðum Indlands. Maturinn er blanda af mat frá Suður- og Norður Indlandi. Mikið er notað af fersku kryddi, mikið cumin, chilli og kóríanderkrydd beint frá Indlandi. Staðurinn rúmar 30 manns í sæti og er líka með take away þjónustu. Á veitingastaðnum vinna eigendurnir Moorthy og Jothimani, tveir Indverskir kokkar og fjórir til sex aðrir starfsmenn sem vinna við þjónustu í sal, uppvask og að búa til NANbrauð, en NANbrauðið fylgir með öllum réttum staðarins og nýtur mikilla vinsælda. Viðskiptin hafa aukist jafnt og þétt gegnum árin og tók auðvitað stóran kipp með tilkomu stækkunarinnar 2017. Fleiri og fleiri Akureyringar uppgötva staðinn og margir gestir af Reykjavíkursvæðinu koma og vilja prófa „litla indverska staðinn” eins og þeir segja. Erlendir ferðamenn eru líka fyrirferðamiklir í gestaflórunni.
Framtíðarsýn
Moorthy og Jothiani horfa björtum augum til framtíðar og haustið 2019 fóru þau af stað með undirbúning á opnun á öðrum veitingastað annars staðar á Íslandi. Þau áform voru lögð til hliðar vegna COVID-19 en vonir standa til að fljótlega verði hægt að taka þann þráð upp að nýju.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd