Innnes er eitt stærsta matvæla-innflutningsfyrirtæki landsins. Fyrirtækið er að byggja nýtt hátæknivöru- og skrifstofuhúsnæði í Korngörðum 3 og hyggst fljótlega taka það að fullu í notkun. Þegar þetta er skrifað í nóvember 2021, á einungis eftir að taka skrifstofuhlutann í notkun en öll lagerstarfi Innness er þegar flutt inn í húsnæðið.
Sagan
Saga fyrirtækisins má segja að sé allt að því ævintýraleg og vöxtur þess frá stofnun hefur verið gríðarlegur. Allt hófst þetta með því að þrír ungir menn úr Hafnarfirði, Magnús Óli Ólafsson, Ólafur Björnsson og Guðmundur Rafn Bjarnason tóku þá ákvörðun að stofna innflutningsfyrirtæki með áherslu á matvörur frá Bandaríkjunum. Þeim félögum þótti fremur lítið af slíkum vörum á markaðnum á Íslandi svo það varð úr að Innnes var formelga stofnað 25. mars 1987. Nafngiftin var sótt í rammíslenskt örnefni með tilvísun til landsvæðis sem markast frá Kjalarnesi að Hvaleyrarholti og kallast einu nafni Innnes, auk þess sem bær uppi á Skipaskaga ber heitið Innnes. Þeir félagar steðjuðu á tvær stórar matvælasýningar í Bandaríkjunum vorið 1987. Önnur var í Seattle á vesturströndinni en hin við vötnin miklu í Chicago. Frá sýningunni í Chicago höfðu þeir upp úr krafsinu nokkur vörumerki frá Hunts-Wesson fyrirtækinu en í septemberbyrjun komust þeir í kynni við viðskiptamann af enskum ættum, Chris Clarke að nafni sem búsettur hafði verið í Bandaríkjunum um margra ára skeið en var í nýlega byrjaður í starfi hjá Hunt-Wesson. Sá komst á snoðir um fyrirætlan ungu mannanna frá Íslandi og ákvað að koma við á Íslandi á leið sinni til annarra viðskiptaerinda í Evrópu. Hann hitti þá félaga á fundi í Reykjavík og eftir opið og einlægt samtal tók hann þá ákvörðun að fara í viðskipti með nokkur vörumerki sem hann hafði upp á vasann eftir að hafa fullvissað sig um að þeir félagar mundu fylgja vörunum úr hlaði og tryggja þeim gott gengi á matvælamarkaðnum á Íslandi. Þessi ágæti maður studdi vel við starfsemi Innness og má að miklu leyti þakka honum það að Hunts-vörurnar náðu því flugi sem raun varð á. Með auknum vexti og velgengni Innness fékk fyrirtækið fleiri umboð fyrir matvörumerki bæði frá Evrópu og Bandaríkjunum. Eitt þessara vörumerkja er t.a.m. Filippo Berio sem er þekkt fyrir ólífuolíur; en einmitt árið 2019 átti Innnes 30 ára viðskiptaafmæli við það þekkta ítalska fyrirtæki og að sögn á Innnes á Íslandi lengsta viðskiptasögu við Filippo Berio. Á næsta ári verður Innnes ehf. 35 ára og verður haldið upp á það með pompi og prakt þegar þar að kemur.
Starfsemin
Innnes hefur vaxið jafnt og þétt á þeim árum sem það hefur starfað. Vörur þess hafa notið vinsælda meðal neytenda og kaupmenn víðast hvar tekið inn þær vörur sem það hefur upp á að bjóða. Þeir hjá Innnes hafa verið nokkuð séðir þegar kemur að því að velja vörur sem talið er að geti fallið í kramið hjá íslenskum neytendum. Einkum hafa tómatvörur og pasta verið með því allra vinsælasta á borðum landsmanna um langa hríð.
Á sínum tíma hafði Innnes frumkvæði um eitt og annað sem flestum þykir sjálfsagt að koma auga á í hillum stórverslana í dag. Ákveðin kaflaskil urðu í rekstri Innnes árið 1997 þegar Íslensk-ameríska keypti helmingshlut í fyrirtækinu og starfsemin flutti upp á Tunguháls, en þremur árum síðar gengu kaupin til baka. Magnús Óli hafði selt sinn hlut og Guðmnundur Rafn sömuleiðis svo Ólafur Björnsson var orðinn einn eigandi í félaginu. Þannig að 24. maí 2001 flutti Innnes frá Tunguhálsi upp í Fossaleyni þar sem starfsemin fór fram næstu 19 árin eða þar til hún flutti niður í Korngarða. Það hefur þótt hagkvæmt að hafa starfsemina þarna við bakkann þar sem skipin leggja að með gámana, vöruhús viðskiptavina í næsta nágrenni og ekki of langt að aka með aðföng til veitingahúsa í miðbæ Reykjavíkur. Svo þjónustan gagnvart viðskiptavinum er örugg, góð og hröð. Upp úr aldamótum var farið að bæta í hina fjölbreyttu flóru matvæla sem Innnes flutti inn og má þar t.d. nefna ýmsar frystivörur svo sem pítsur og brauðmeti ýmis konar. Á sama tíma sótti fyrirtækið inn á veitingamarkaðinn og má segja að þriðjungur af veltunni í dag komi úr veitingageiranum. Árið 2014 fór Innnes að höndla með grænmeti og ávexti bæði frá útlöndum og eins í góðu samstarfi við íslenska grænmetisbændur en svo fljótlega upp úr því bættist við frosið kjöt, úrvals kjúklingur frá Danmörku og fleira þess háttar. Í dag getur Innnes státað af því að vera með flest þau matvæli sem heimili eða veitingahús þurfa á að halda.
Sérstaða
Magnús Óli, sem gegnir nú starfi forstjóra Innness rifjaði upp þá daga þegar hann starfaði sem sölumaður hjá fyrirtækinu og þurfti þá sjálfur að setja upp svuntu og standa inni í stórmörkuðum að kynna vörurnar með því m.a. að leyfa fólki að smakka. Hann segir að með því hafi hann komist að því hvað það var sem hinn almenni neytandi kunni að meta. Það hafi verið hinn dýrmæti lærdómur hvað varðaði uppbyggingu fyrirtækisins og val á vörum til að flytja hingað til lands. Í því samkeppnisumhverfi sem ríkir á markaðnum í dag leggur Innnes áherslu á að gera hlutina öðruvísi og hefur vakandi auga með því sem er að gerast og hvað það er sem fólki líkar. Í þeirri viðleitni er, svo dæmi sé tekið, haldið úti vefsíðu sem er nefnd: „Gerum daginn girnilegan“ en þar eru birtar uppskriftir og kynntar ýmsar hugmyndir í matargerð sem kynntar eru af fagfólki og er mikil umferð um þá síðu. Íslendingar eru meðvitaðir neytendur og með strangar kröfur um gæði þegar kemur að matvöru og stjórnendur og starfsfólk Innness vilja mæta þeim kröfum skilyrðislaust. Magnús Óli segir Innnes brenna fyrir matargerð. Þar eru kokkar í vinnu að gera alls konar tilraunir í sérhönnuðu eldhúsi fyrirtækisins og fyrir vikið eru ávallt einhverjar nýjungar kynntar til leiks. Nýlegar hafa tekist samningar við írskt fyrirtæki um innflutning á úrvals steikum sem eru seldar í verslanir og veitingahús og búast má við fleiri nýjungum á þessu sviði þegar fyrirtækið flytur í nýja húsnæðið á næsta ári.Til að kóróna máltíðina er gott að reiða fram úrvals vín, en systurfyrirtæki Innness sem nefnist Vínnes sér fyrir því. Það hefur á boðstólum þekkt vörumerki bæði í bjór og vínum.
Mannauður og húsnæði
Innnes ehf. er stórt deildaskipt fyrirtæki sem rekur skýra starfsmannastefnu þar sem áherlsan er fyrst og síðast á gleði og fagmennsku, síðan er mikilvægt að hafa sveigjanleika, fjölbreytta menntun og reynslu. Eitt af því sem stjórnendur leggja áherslu á er að starfsmenn beri tilhlökkun í brjósti að mæta til vinnu og að verkefnin séu þess eðlis að þeir vilji einlæglega leggja sig fram. Hjá Innnes starfa um það bil tvöhundruð manns þegar afleidd störf og sumarafleysingar eru talin með.
Innnes ehf. er með eitt stærsta vöruhús landsins sem er nánast algjörlega sjálfvirkt hvar vélmenni sækja vörurnar upp í hæstu rekkana sem eru í tæplega þrjátíu metra hæð. Nýja húsnæðið er mjög tæknivætt en um leið sjálfbært og umhverfisvænt svo það eru spennandi tímar framundan hjá hinu framsækna matvælafyrirtæki sem vill þjóna viðskiptavinum sínum sem allra best og halda áfram að viðhalda almennum áhuga á matargerð. Til þess þarf að hafa úrvals hráefni og fyrir því verður séð á meðan Innnes heldur sínu striki.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd