Into the glacier

2022

Ferðaþjónustufyrirtækið Into the Glacier ehf. var stofnað árið 2013 til að halda utan um verkefni tengt ísgöngum á Langjökli. Hugmyndin að ísgöngum á þessum slóðum á rætur að rekja til 2010 þegar tveir ferðaþjónustuaðilar á svæðinu fengu þá hugmynd að bora út göng hátt á jöklinum og selja aðgengi til ferðamanna. Hugmyndin er þó alls ekki ný þar sem tilraunir með mannvirkjagerð á Langjökli hafa farið fram í þó nokkurn tíma. Kristleifur bóndi í Húsafelli gerði tilraunir með stutt ísgöng neðst á jöklinum. Einnig höfðu menn prófað að grafa skurði með jarðýtum sem síðan voru lokaðir af með tréhlemmum. Því hefur sú hugmynd að búa til mannvirki á jöklinum verka myndi sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn lengi verið til en loks ákvað fjárfestingarsjóðurinn Iceland Tourism Fund, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í ferðaþjónustu, að taka slíkt verkefni lengra. Þar sem um mjög sérhæft verkefni var að ræða var flókið að fá öll nauðsynleg leyfi til að fræsa út göng í jöklinum. Sú vinna tók langan tíma en um áramótin 2013/2014 voru hlutirnir farnir að skýrast.

Framkvæmdin
Veturinn 2014 þokuðust leyfismál í rétta átt og var þá ákveðið að setja verkefnið af stað fyrir alvöru. Verktaki í Borgarfirðinum tók að sér að fræsa út göngin og ráðið var inn starfsfólk til að byggja upp fyrirtækið. Margir komu að því að hanna göngin en þar sem framkvæmdin var sú fyrsta sinnar tegundar var afar takmörkuð þekking til staðar til að byggja á. Einnig þurfti að huga að aðstæðum á jökli en ferðalög á jökli geta verið mjög varhugaverð. Sem dæmi má nefna að verktakar sem unnu við fræsingu gangnanna urðu oft að eyða öllum deginum í það eitt að komast að opinu með hjálp GPS tækja vegna lítils skyggnis og ófærðar á jökli. Þegar komið var á staðinn var oftar en ekki búið að snjóa yfir gangnaopið og því þurfti að eyða deginum í það eitt að grafa opið upp að nýju. Það tók alls um 14 mánuði að fræsa út göngin en 4-6 manna teymi var við vinnu alla daga vikunnar. Ýmsir aðilar komu að verkinu enda þurfti að hanna göngin sjálf, leggja rafmagn og ljós í veggi sem og skipuleggja ferðirnar. Eftir að allri þessari undirbúningsvinnu var svo aflokið var fyrsta almenna ferðin farin í júní 2015.
Sérstaklega mikil vinna fór í það að hanna lýsingu gangnanna en ekkert sólarljós sleppur í gegnum ísinn til þess að lýsa þau upp. Því var ákveðið að best væri að nota LED borða sem felldir voru inn í ísveggina til þess að skapa ljós sem bæði myndi virðast náttúrulegt en myndi einnig ekki geisla miklum hita frá sér. Þess má geta að lýsing gangnanna vann Dark Awards lýsingarverðlaunin 2016. Ísgöngin á Langjökli eru stærstu göng sinnar tegundar í heiminum en þau eru um 550 m löng, staðsett í 1260 m hæð yfir sjávarmáli. Til að komast upp jökulinn allt árið um kring þurfti að vanda val farartækja þar sem aðstæður eru mjög krefjandi. Úr varð að Into the Glacier sameinaðist fyrirtækinu Ice Explorer sem sérhæfði sig í jöklaferðum á 8 hjóla trukkum. Trukkarnir eru af gerðinni MAN og voru áður meðal annars notaðir sem flugskeytapallar. Í dag er Into the Glacier með 7 stóra trukka af þessari tegund í rekstri ásamt öðrum tækjum sem nýtast við viðhald eins og gröfu, jarðýtu og snjóbíl.
Mannauður
Fyrirtækið hefur vaxið gríðarlega frá 2015 þegar það hóf störf með 2 trukka og örfáa starfsmenn. Þegar þessi grein er skrifuð starfa um 30-35 starfsmenn hjá Into the Glacier allt árið um kring. Farnar eru 3 brottfarir á dag allan ársins hring frá Húsafelli.
Reist hafa verið tvö starfsmannahús þar sem starfsmenn gista á vöktum og allt viðhald fer fram í vélaskemmu félagsins sem var reist árið 2017. Móttökuhús var reist við jökuljaðarinn þaðan sem ferðirnar fara yfir sumartímann en á veturna er farið frá Húsafelli. Into the Glacier rekur einnig vélsleðaleigu og er með daglegar ferðir á vélsleða upp jökulinn með viðkomu í ísgöngunum.
Tvær starfstöðvar eru hjá félaginu í dag. Skrifstofan er í Reykjavik en 7 starfsmenn vinna þar. Aðal starfstöðin er þó í Húsafelli en um 10-20 manns mæta þangað á vakt alla daga ársins. Stór þáttur af almennum rekstri fyrirtækisins er samlífi við náttúruöflin en veður getur verið mjög erfitt þar sem göngin eru staðsett í yfir 1200 metra hæð yfir sjávaramáli. Hefur þá gott samstarf við veðurstofu Íslands verið mikilvægur þáttur í rekstri fyrirtækisins en einnig vinnur fyrirtækið eftir eigin greiningum á veðri.
Gríðarleg uppbygging hefur átt sér stað hjá fyrirtækinu síðustu ár og talsvert hefur verið fjárfest í innviðum til þess að tæki og tól séu ávallt í lagi og að viðskiptavinir fái góða þjónustu. Viðtökur ferðamanna hafa farið fram úr öllum væntingum en milli 55 – 70 þúsund ferðamenn heimsækja ísgöngin í Langjökli ár hvert.
Þessi gríðarlega uppbygging hefur reynst nauðsynleg þar sem fengist er við síbreytilegar og oft mjög erfiðar aðstæður. Þá bæði vegna veðurs en einnig þar sem jökullinn sjálfur hefur tekið miklum stakkaskiptum síðustu ár. Má þá telja að loftslagsbreytingar spili stóran þátt í breytingu hans en hann hefur hopað mikið frá því fyrirtækið hóf starfsemi sína fyrst.

Framtíðin
Eins og stendur er þó fyrirtækið á ákveðnum tímamótum enda uppbyggingunni að mestu lokið og við tekur tímabil þar sem einblínt er á áframhaldandi vöruþróun og upplifun ferðamanna. Af nógu er að taka þar sem Húsafell og nálæg svæði bjóða upp á marga möguleika sem tengjast jöklaferðamennsku. Vefsíða: www.Intotheglacier.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd