Farsæl fjárfesting í lyfjum
Invent Farma var stofnað af Friðriki Steini Kristjánssyni árið 2004. Ári síðar fékk hann til liðs við sig hóp fjárfesta til kaupa á lyfjaverksmiðjunum Inke og Laboratories Lesvi á Spáni af stórfyrirtækinu Procter & Gamble. Lyfjaverksmiðjurnar áttu sér langa sögu í spænsku atvinnulífi eða aftur til ársins 1937. Umsvif Invent Farma tók til tveggja lyfjaverksmiðja og markaðsfyrirtækisins Qualigen á Spáni, þróunarsetra á Indlandi og Íslandi, auk lyfjaskömmtunarfyrirtækisins Lyfjavers sem enn er starfandi á Íslandi. Höfuðstöðvar Invent Farma voru í Barcelona. Starfsmenn fyrirtækisins voru yfir fjögur hundruð, þar af 80 sérfræðingar í rannsóknum og þróun nýrra lyfja og lyfjaefna. Invent Farma er dæmi um velheppnaða fjárfestingu þar sem sérþekking á atvinnugrein og fjármálaþekking hafa leitt til farsællar niðurstöðu fyrir bæði fjárfesta og fyrirtækið sjálft. Ferðin var þó ekki án mótbyrs og fjármálakreppan 2008 reyndist erfið fyrir félagið, en sterkur rekstur og skýr stefna skilaði því yfir þann hjalla.
Vaxtatækifæri á Spáni
Friðrik Steinn er lyfjafræðingur að mennt og stofnaði samheitalyfjafyrirtækið Omega Farma á Íslandi árið 1990 og starfaði sem framkvæmdastjóri félagsins. Hann leiddi það áfram allt til ársins 2002 þegar það sameinaðist Delta og varð seinna að Actavis. Friðrik hafði langa reynslu af þróun samheitalyfja og hafði fyrir kaupin á lyfjaversksmiðjunum á Spáni leitað tækifæra í þeim geira víða um heim. Samheitalyfjanotkunin á Spáni var lítil í samanburði við mörg önnur lönd og taldi Friðrik að líklegt að markaðsþróunin þar yrði sú sama og í Evrópu og Bandaríkjunum. Hjá Invent Farma var lögð áhersla annars vegar á framleiðslu á virkra lyfjaefna svo sem innöndunarlyf og hinsvegar á tilbúin lyf, hylki, töflur og stungulyf ásamt tilheyrandi rannsókna- og þróunarstarfi. Fljótlega eftir kaupin var stofnað markaðsfyrirtækið Qualigen, sem selur lyf undir eigin vörumerki til apóteka á Spáni. Mjög kostnaðarsamt er að byggja upp eigið vörumerki til að markaðssetja eigin vörur en því meiri tækifæri fylgja ef vel tekst til. Því var mikið tap á Qualigen fyrstu árin í rekstri þess en síðar varð mjög góður viðsnúningur sem. Invent Farma varð á meðal tíu stærstu framleiðenda á Spáni. Spánn var stærsta markaðsvæði fyrirtækisins en helmingur veltunnar kom þaðan en aðrir mikilvægir markaðir voru Bandaríkin, Evrópa, Japan og Kórea.
Nýir fjárfestar koma að
Margir af upphaflegum hluthöfum Invent Farma töldu sig hafa náð markmiðum fjárfestingar sinnar og vildu róa á önnur mið og árið 2013 tókust samningar um sölu ríflega 60% hlutar til Framtakssjóðs Íslands og Horns II, sjóðs í rekstri Landsbréfa. Friðrik taldi talsvert verk óunnið og vildi áfram halda sínum hlut í gegnum fjárfestingarfélagið Silfurberg. Framtakssjóður Íslands og Horn voru sammála Friðriki um að auka mætti verðmæti fyrirtækisins enn frekar.
Forstjóri Invent Farma lét af störfum í kjölfar eignarhaldsbreytinganna, en aðrir lykilstjórnendur voru áfram við störf hjá félaginu. Fylgt var áfram sýn Friðriks um uppbyggingu félagsins samhliða því sem þekking og reynsla nýrra hluthafa nýttist í þeirri vegferð að auka virði félagsins. Árið 2014 var ráðist í að kaupa allt húsnæði og land sem áður var leigt og þar með spöruðust há leigugjöld. Öll lán sem tekin voru upphaflega hjá íslenskum banka voru endurfjármögnuð hjá spænskum bönkum á mun hagstæðari kjörum og skilyrðum sem gáfu félaginu frekara svigrúm til vaxtar. Markaðssetning nýrra lyfja skilaði sér svo í vexti tekna hjá Qualigen sem fór að skila mjög góðri afkomu. Á þessum tíma fór efnahagslíf á Spáni batnandi sem stuðlaði að hærra verðmati fyrirtækja og auknum viðskiptum á yfirtöku fyrirtækja. Á tæpum þremur árum frá því að Framtakssjóður Íslands og Horn komu inn haustið 2013 varð gríðarleg verðmætaaukning. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) fór frá árinu 2006 úr um 15 milljónum evra í tæpar 30 milljónir evra árið 2015 þegar ákveðið var að selja félagið.
Arðsemin kveikti áhuga
Arðsemi og vöxtur félagsins fór ekki fram hjá fjárfestum og áhugi á félaginu fór vaxandi og meðal þeirra sem sýndu félaginu áhuga var breski framtakssjóðurinn Apax Partners sem sendi óskuldbindandi tilboð í félagið. Fleiri sýndu félaginu áhuga og samhliða viðræðum við Apax var kannaður áhugi annarra. Sá áhugi leiddi til þess að Apax hækkaði tilboð sitt og varð niðurstaðan sú að hefja einkaviðræður við Apax Partners sem leiddu til samninga um sölu til þeirra síðsumars 2016. Silfurberg, félag í eigu Friðriks og eiginkonu hans, seldi stóran hlut en aðrir fjárfestar allt sitt.
Fram hefur komið opinberlega að hagnaður Framtakssjóðs Íslands af þessari fjárfestingu var umtalsverður. Verðmæti félagsins í krónum talið tvöfaldaðis frá 2013-2016, þrátt fyrir að krónan styrktist verulega gagnvart evru á tímabilinu.
Þekking skilaði árangri
Eins og fyrr kom fram höfðu þeir fjárfestar sem upphaflega tóku þátt í kaupunum fengið afar góða ávöxtun á sína fjárfestingu og þeir sem fylgdu Friðrik í framhaldinu náðu gríðargóðri ávöxtun á skömmum tíma. Það sem er einnig mikilvægt í þessu sambandi er að Invent Farma er í dag öflugt og arðsamt félag og í áframhaldandi uppbyggingu.
Lykillinn að því að sá árangur náðist helgaðist af eflingu markaðsstarfs og öguðum og faglegum vinnubrögðum í fjármálum og rekstri sem og í þróun lyfja og lyfjaefna. Krafa var gerð um fagmennsku og góða stjórnarhætti og félagið var alla tíð meðvitað um að það er þekkingarfyrirtæki sem byggir á að starfmenn búi yfir bestu þekkingu á hverjum tíma og nauðsyn þess að fjárfesta í rannsóknum og þróun. Kaupin á Invent Farma og sala eftir uppbyggingu félagsins hefur reynst eitt best heppnaða fjárfestingarverkefni Íslendinga á erlendri grund.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd