Isavia

2022

Isavia ohf. er opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Félagið annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar. Dótturfélög þess annast síðan rekstur áætlunarflugvalla í innanlandsflugi og lendingarstaða á Íslandi, fríhafnarverslana og flugleiðsöguþjónustu í innanlandsflugi og alþjóðaflugi yfir norðanverðu Norður-Atlantshafi á 5,4 milljóna ferkílómetra svæði. Isavia samstæðan gegnir því mikilvæga hlutverki að annast rekstur og uppbyggingu á innviðum sem leggja grunn að flugsamgöngum Íslands, tengingum við umheiminn og flugi á milli heimsálfa.
Stjórnarhættir Isavia ohf. taka mið af lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, samþykktum félagsins og starfsreglum þeim sem stjórn félagsins setur sér. Isavia ofh. fylgir einnig almennri eigendastefnu ríkisins og sérstökum viðauka þar um sem snýr að Isavia ohf. Þá hefur félagið sett sér stefnu um samfélagslega ábyrgð.

Stjórn og framkvæmdastjórn Isavia ohf.
Í stjórn Isavia sitja Kristján Þór Júlíusson, formaður stjórnar, Matthías Páll Imsland, varaformaður stjórnar, Hólmfríður Árnadóttir, Jón Steindór Valdimarsson og Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir. Varafólk í stjórn eru Tómas Ellert Tómasson, Dóra Sif Tynes, Ingveldur Sæmundsdóttir, Sigrún Traustadóttir og Valdimar Halldórsson. Stjórnarfólk er kosið á hluthafafundi til eins árs í senn. Stjórnin setur sér ítarlegar starfsreglur þar sem helstu verkefni og valdsvið stjórnar og forstjóra eru skilgreind. Starfsreglurnar eru endurskoðaðar og samþykktar á ári hverju. Stjórnin hefur æðsta vald í málefnum félagsins á milli hluthafafunda samkvæmt lögum og samþykktum. Stjórn metur störf sín með reglubundnum hætti, verklag og starfshætti, framgang félagsins, frammistöðu forstjóra og skilvirkni undirnefnda. Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga félagsins og dótturfélaga þess.
Í framkvæmdastjórn Isavia ohf. sitja forstjóri, aðstoðarforstjóri, framkvæmdastjóri þjónustu og rekstrar, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar og framkvæmdastjóri fjármála og mannauðs.

Isavia ohf. – móðurfélag samstæðunnar
Forstjóri Isavia ohf. hefur með höndum stjórn allrar daglegrar starfsemi félagsins samkvæmt stefnu og fyrirmælum stjórnar. Rekstur móðurfélags Isavia grundvallast á tveimur kjarnasviðum Keflavíkurflugvallar, þ.e. annars vegar Viðskipti og þróun og hins vegar Þjónusta og rekstur, og tveimur stoðsviðum ásamt skrifstofu forstjóra. Stoðsviðin eru Fjármál og mannauður og Stafræn þróun og upplýsingatækni.
Forstjóri Isavia er Sveinbjörn Indriðason.
Aðstoðarforstjóri Isavia er Elín Árnadóttir.
Viðskipti og þróun annast samskpti við flugfélög og leiðaþróun, viðskipti og markaðsmál, rekstur og uppbyggingu innviða og mannvirkja ásamt flugvallaþróun og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar. Framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar er Guðmundur Daði Rúnarsson.
Þjónusta og rekstur annast öryggisstjórnun, flugvernd, þjónustu við farþega, flugvallarþjónustu og rekstur flugturnsins á Keflavíkurflugvelli. Framkvæmdastjóri þjónustu og rekstrar er Anna Björk Bjarnadóttir.
Fjármál og mannauður annast mannauðsmál, reikningshald, fjárstýringu, áhættustýringu, hagdeild, fjármögnun, lögfræðileg málefni og innkaup. Framkvæmdastjóri fjármála og mannauðs er Ingibjörg Arnarsdóttir.
Stafræn þróun og upplýsingatækni annast upplýsingatæknirekstur félagsins og leiðir stafræna þróun. Framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni er Bjarni Örn Kærnested.
Heimilisfang Isavia ohf. er Dalshraun 3, 220 Hafnarfirði. Vefsíða: www.isavia.is

Dótturfélög Isavia ohf.
Dótturfélög Isavia ohf. eru þrjú – Isavia ANS ehf., Isavia innanlandsflugvellir ehf. og Fríhöfnin ehf. Félögin eru í 100% eigu Isavia ohf. Þau eru rekin í takt við eigendastefnu fyrir dótturfélög Isavia ohf., samþykktir þeirra og starfsreglur stjórna.
Isavia ANS ehf. sinnir flugleiðsöguþjónustu í innanlands- og alþjóðaflugi í flugleiðsögusvæði yfir Norður-Atlantshafi. Isavia ANS rekur sértæka þjálfunardeild fyrir flugumferðarstjóra, flugfjarskipti, fluggagnafræði og flugupplýsingaþjónustu, ásamt því að sinna flugprófunarverkefnum á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Heimilisfang félagsins er Nauthólsvegur 66, 102 Reykjavík. Framkvæmdastjóri er Kjartan Briem.
Isavia innanlandsflugvellir ehf. annast rekstur innanlandsflugvalla og lendingarstaða á Íslandi. Heimilisfang félagsins er Reykjavíkurflugvöllur, 102 Reykjavík. Framkvæmdastjóri er Sigrún Björk Jakobsdóttir.
Fríhöfnin ehf. rekur fjórar verslanir á Keflavíkurflugvelli, þrjár fyrir brottfararfarþega og eina fyrir komufarþega. Verslanirnar eru opnar þegar áætlunarflug er um flugvöllinn. Fríhöfnin leggur áherslu á fjölbreytt úrval innlendra og alþjóðlegra vörumerkja. Heimilisfang félagsins er Keflavíkurflugvöllur, 235 Keflavíkurflugvelli. Framkvæmdastjóri er Þorgerður Þráinsdóttir.

2020-2022 hjá Isavia
Árið 2020 var krefjandi fyrir rekstur flugvalla og flugleiðsögu um allan heim. Heimsfaraldur COVID-19 tók völdin í daglegum athöfnum fólks og fór Isavia ekki varhluta af því. Fækkun farþega á árinu nam um 81 prósenti. Áhersla var lögð á yfirveguð viðbrögð og að standa vörð um störf hjá félaginu og innviðina sem það rekur. Lykilatriði var að ganga ekki nærri rekstrinum í niðurskurði. Ekki var þó hægt að komast hjá uppsögnum sem náðu til um 300 starfsfólks, aðallega á Keflavíkurflugvelli. Fjármögnun félagsins var tryggð og fé til framkvæmda.
Þrátt fyrir að árið 2021 hafi áfram borið einkenni kórónuveirufaraldursins þá mátti engu að síður sjá skýr batamerki á rekstri flugvalla og flugleiðsögu frá árinu þar á undan. Síðasta ársfjórðung ársins 2020 þá fóru að meðaltali um 600 farþegar um Keflavíkurflugvöll á degi hverjum. Á sama tímabili 2021 var þessi meðaltalstala komin í um 9.064 farþega á dag sem er um 58% af daglega meðaltalinu á seinasta ársfjórðungi ársins 2019. Árið 2022 var endurheimtin í júlí og ágúst orðin ríflega sá fjöldi sem var sömu mánuði 2019 fyrir heimsfaraldurinn. Flest flugfélög sem flugu til Keflavíkurflugvallar fyrir kórónuveirufaraldurinn hafa snúið aftur. Framkvæmdir hafa verið miklar og verða það áfram á næstu árum enda Keflavíkurflugvöllur að stækka þannig að bjóða megi enn betri þjónustu fyrir farþega og flugfélög sem er grunnurinn að fjölgun flugtenginga. Tengistöðin á Keflavíkurflugvelli er drifkrafturinn þegar kemur að flugtengingum og því þarf að tryggja að hún standi undir þeim tækifærum sem fylgja tengiflugfélögunum á Keflavíkurflugvelli. Það er bein fylgni milli fjölda flugtenginga og hagvaxtar, lífsgæða og velsældar á Íslandi þannig að þessi áhersla á tengistöðina er ekki bara mikilvæg fyrir Isavia og tengiflugfélögin heldur fyrir alla landsmenn. Til viðbótar við rekstur Keflavíkurflugvallar fór rekstur Fríhafnarinnar ekki varhluta af áhrifum kórónuveirufaraldursins enda mjög háður ferðalögum til og frá Keflavíkurflugvelli. Vel tókst til við að aðlaga reksturinn að breyttu umhverfi og því til viðbótar hefur félagið verið vel í stakk búið til að takast á við þær áskoranir sem hafa fylgt endurheimtinni.
Tekjur Isavia Innanlandsflugvalla ehf. koma að stærstum hluta úr þjónustusamningi við íslenska ríkið um rekstur þeirra. Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á reksturinn en íslenska ríkið, sem þjónustukaupandi, tók þá ákvörðun að draga ekki úr þjónustustigi í innanlandsflugvallakerfinu og mætti þeirri ákvörðun með sérstökum viðbótargreiðslum til félagsins til að mæta tekjufalli frá notendum. Þá hefur verið ráðist í framkvæmdir á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum.
Stærsti hlutinn af tekjum Isavia ANS kemur úr samningi um yfirflugsþjónustu yfir Norður-Atlantshafið. Sá samningur gerir ráð fyrir sveiflujöfnun tekna og gjalda þannig að áhrif kórónuveirufaraldursins jafnast að stórum hluta út.

Stefna Isavia
Tilgangur Isavia ohf. er að leiða flugvallarsamfélag sem eykur lífsgæði og velsæld á Íslandi og framtíðarsýnin er að tengja heiminn í gegnum Ísland. Stefnuhringurinn er áttaviti um áherslur félagsins til framtíðar. Hann hefur það að markmiði að tengja stefnuáherslurnar saman til að leiða félagið að framtíðarsýninni. Allar sjö stefnuáherslurnar í stefnuhringnum endurspegla megináherslur félagsins til framtíðar.

Nýjasta stefnuáherslan er áherslan á flugvallarsamfélagið. Isavia er aðeins eitt af þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem starfa á Keflavíkurflugvelli þar sem allir þurfa að vinna saman sem ein heild til að veita farþegum skilvirka og góða þjónustu. Félagið leiðir flugvallarsamfélagið og lætur hlutina gerast, tekur frumkvæði að því að vinna markvisst með viðskiptafélögum sínum að sameiginlegum árangri. Áhersla er á að viðskiptavinir séu í fyrirrúmi og þeim sé boðið upp á einstaka upplifun m.a. með snjöllum lausnum.
Keflavíkurflugvöllur er einn af lykilinnviðum landsins og því er lögð áhersla á að byggja upp og viðhalda innviðum hans til lengri tíma og bæta stöðugt nýtingu auðlinda með arðsemi og langtímahagsmuni að leiðarljósi. Um leið er stuðlað að nýsköpun og stöðugri framþróun í starfseminni. Áhersla er á að vera til fyrirmyndar í öryggis- og verndarmálum og hefur félagið sjálfbærni að leiðarljósi í öllu sem það gerir.
Hjá Isavia starfar samheldinn hópur starfsfólks sem leggur áherslu á uppbyggileg samskipti og samvinnu. Öflug liðsheild starfsfólks skilar sér í bættri fyrirtækjamenningu og meiri starfsánægju. Skýr stefna og framtíðarsýn er lykillinn að því að starfsfólk geti tengt störf sín við stefnuna og unnið eftir henni.
Isavia fylgir fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sérstaklega í stefnu sinni, þ.e. heimsmarkmiðum 8 um góða atvinnu og hagvöxt, heimsmarkmiði 9 um nýsköpun og uppbyggingu, heimsmarkmiði 13 um aðgerðir í loftslagsmálum og heimsmarkmiði 17 um samvinnu um markmiðin.

Sjálfbærnistefna Isavia
Í nýrri sjálfbærnistefnu Isavia er sjálfbærni höfð að leiðarljósi í öllu sem félagið gerir. Hún er ein af stuðningsstefnum félagsins og er sjálfbærni einnig ein af sjö stefnuáherslum í stefnu Isavia. Stefnan, markmiðin, mælikvarðarnir og aðgerðaáætlunin sem henni fylgir styðja við það að félagið nái árangri í sjálfbærni.

Sjálfbærnistefnan lýsir jafnvæginu milli umhverfis, samfélags og efnahags. Sjálfbærni-ferningurinn skiptist upp í fjóra þætti sem skipta mestu máli fyrir Isavia að leggja áherslu á miðað við heildarstefnuna og þá starfsemi sem félagið er í. Umhverfisþættinum var skipt í tvennt til að draga loftslagsmálin sérstaklega fram þar sem minnkun kolefnisspors þarf sérstaka athygli. Á árinu setti félagið það að markmiði að Keflavíkurflugvöllur væri orðinn kolefnalaus árið 2030. Í framhaldinu var unnið með stjórnendum að metnaðarfullri aðgerðaáætlun til næstu ára.

Mannauður hjá Isavia
Hjá Isavia starfar fjölbreyttur hópur fólks sem leggur sig fram við að skila vel unnu verki á hverjum degi. Félagið vinnur eftir mannauðsstefnu sem leggur áherslu á að stuðla að góðum starfsanda, almennri ánægju í starfi, góðri þjónustu við samstarfsfólk, farþega, flugfélög og aðra samstarfsaðila. Samhliða aukningu á flugi á ný eftir tímabil heimsfaraldursins fór starfsfólki félagsins að fjölga aftur á árinu.
Í árslok 2021 var fjöldi starfsfólks hjá Isavia og dótturfélögum 1153, sem skiptist þannig að 63% voru karlar og 37% voru konur. Meðalaldur starfsfólks var 42 ár og meðalstarfsaldur 8,6 ár.
Þrátt fyrir að COVID-19 faraldurinn hafi sett sinn svip á starfsemi Isavia má segja að starfsfólki og stjórnendum hafi tekist að halda í gleðina og litið á þær áskoranir sem fylgdi faraldrinum sem tækifæri fremur en ógn. Í ljósi mikilvægis þeirra innviða sem félagið ber ábyrgð á ríktu miklar sóttvarnarkröfur og var t.d. grímuskyldu starfsfólks á farþegasvæðum og í návist farþega. Allar aðgerðir Isavia í sóttvörnum voru gerðar með öryggi starfsfólks að leiðarljósi, en það er markmið Isavia að leita allra leiða til að vernda starfsfólk gegn smitum og um leið vernda þannig starfsemi félagsins. Stjórnendur og sérfræðingar sinntu starfi sínu að mestu í fjarvinnu en með hækkandi sólu árið 2022 og tilslökunum á sóttvarnaraðgerðum hóf fólk að mæta aftur á starfsstöðvar sínar. Starfsfólki stendur þó enn til boða að nýta sér kosti fjarvinnu í samráði við stjórnendur og hafa flestir nýtt sér þann sveigjanleika reglulega.
Í stjórnendaþjálfun var lögð áhersla á teymisvinnu, jafningjastjórnun og það að taka á málunum á uppbyggilegan og skýran hátt.
Öll félög innan Isavia samstæðunnar leggja áherslu á að efla starfsumhverfið og vinnustaðamenninguna með það að leiðarljósi að byggja upp góðan vinnustað þar sem ríkir menning sem styður bæði við árangur félagsins en tryggir ekki síður öryggi og vellíðan fólks í starfi.

Menningarvegferð Isavia
Móðurfélag Isavia hefur hafið vegferð til að bæta vinnustaðamenningu þess. Vegferðin hefur fengið yfirskriftina „saman á nýrri vegferð“ þar er vísað til þess að breyting á menningu fyrirtækja er vegferð sem hefur hvorki upphaf né endi og mun standa yfir í nokkur ár. Vegferðin er einnig liður í því að innleiða uppfærða stefnu Isavia sem stjórn félagsins samþykkti í lok árs 2021. Isavia hefur gert menningarsáttmála innan fyrirtækisins í stað þess að fyrirtækið setji sér sérstök gildi eins og algengt er.
Menningarsáttmálinn er leiðarljós og leiðarstef í hegðun starfsfólks Isavia og á að lýsa þeirri kjörmenningu sem er verið að innleiða. Sú ákvörðun var tekin af stjórnendum að greina þá vinnustaðamenningu sem er til staðar hjá félaginu og í framhaldinu hófst sú vegferð að komast í æskilega vinnustaðamenningu sem var ákvörðuð út frá skoðanakönnun meðal starfsmanna. Menningin er miðuð út frá einstaklingnum og horft er til þess að greina hegðun fólks, hvernig hegðun byggi upp samskipti og bæti þau og hvernig hegðun brjóti þau niður og skemmi fyrir. Þannig er einstaklingunum og fyrirtækinu gefið tækifæri til að vaxa og dafna.
Síðan vegferðinni var hrundið af stað hefur verið unnið í stórum og smærri hópum með vinnustofum í hverri einingu og þvert á fyrirtækið, til að greina það sem telst vera uppbyggjandi, drottnandi og óvirk menning. Markmiðið er að þróa uppbyggjandi hegðun meðal starfsfólks, auka sjálfsþroska þess og efla tengsl milli fólksins í fyrirtækinu. Starfsfólk fyrirtækisins er í sameiningu að móta og innleiða heilbrigða og uppbyggjandi fyrirtækjamenningu sem verði öllum til góðs.

2012

Opinbera hlutafélagið Isavia var stofnað 1. janúar 2010 og tók við rekstri Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða ohf. 1. maí 2010. Félagið rekur alla flugvelli, flugleiðsöguþjónustu og flugfjarskipti landsins og annast uppbyggingu þeirra með tilheyrandi flugstöðvum og mannvirkjum ásamt því að byggja upp og annast rekstur starfsemi sem er í beinum tengslum við flugrekstur. Þá annast félagið hagnýtingu Keflavíkurflugvallar í þágu öryggis- og varnarmála. Fjármálaráðherra fer með hlut ríkisins í félaginu en innanríkisráðherra ber ábyrgð á faglegri stefnumótun í samvinnu við stjórn félagsins. Flugmálastjórn Íslands fer með stjórnsýslu og eftirlit með loftferðastarfsemi félagsins. Fimm manna aðalstjórn og fimm manna varastjórn félagsins eru kosnar til eins árs í senn. Forstjóri Isavia ohf. er Björn Óli Hauksson rekstrarverkfræðingur.
Starfsemi Isavia skiptist í fimm svið: fjármálasvið, flugleiðsögu, flugvelli og mannvirki, Keflavíkurflugvöll, og Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Dótturfélög Isavia eru Tern Systems ehf., sem annast hugbúnaðargerð fyrir flugleiðsögukerfi og Fríhöfnin ehf., sem annast rekstur fríhafnarverslana. Starfsmenn félaganna eru alls um 700 og árleg velta er 13-15 milljarðar króna.

Saga félagsins
Flugmálastjórn Íslands var stofnuð árið 1945 og tók við rekstri Reykjavíkurflugvallar og flugstjórnarmiðstöðvar af breska flughernum árið eftir. Við tímabundið brotthvarf bandaríska herliðsins frá Keflavíkurflugvelli árið 1947 tók Flugmálastjórn einnig við ýmsum þáttum í rekstri Keflavíkurflugvallar sem að öðru leyti var falinn bandarísku fyrirtæki. Við stofnun bandaríska Varnarliðsins á Íslandi árið 1951 tók Bandaríkjaher við rekstri flugvallarins í samvinnu við Flugmálastjórn Íslands og hélst það skipulag til ársins 1953 er öll umsvif íslenska ríkisins á Keflavíkurflugvelli og umsjón með samskiptum við bandaríska varnarliðið færðust til utanríkisráðuneytisins.

Skipan flugmála á Íslandi breyttist árið 2006 með lögboðnum aðskilnaði flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstri frá stjórnsýslu- og eftirlitsstarfsemi Flugmálastjórnar og brottför Varnarliðsins. Nýtt opinbert hlutafélag, Flugstoðir ohf., tók við rekstri íslenskra flugvalla og flugleiðsöguþjónustu utan Keflavíkurflugvallar í ársbyrjun 2007 og rekstur Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar var sameinaður í ársbyrjun 2009 í öðru opinberu hlutafélagi, Keflavíkurflugvelli ohf.

Starfshópur á vegum samgönguráðuneytisins sem kannaði kosti þess að sameina félögin lagði til að þau yrðu sameinuð og voru lög þess efnis samþykkt á Alþingi í desember 2009. Gekkst samgönguráðherra fyrir stofnun nýs opinbers hlutafélags sem tók við öllum rekstri, eignum og skuldbindingum áðurnefndra félaga 1. maí 2010.

Stjórn Isavia.

Stjórn Isavia skipa:

  • Þórólfur Árnason formaður
  • Ragnar Óskarsson varaformaður
  • Arnbjörg Sveinsdóttir
  • Ásta Rut Jónasdóttir
  • Jón Norðfjörð

Framkvæmdaráð skipað forstjóra, framkvæmdastjórum og meðstjórnendum annast daglegan rekstur félagsins. Framkvæmdastjórar Isavia eru:

  • Elín Árnadóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs og staðgengill forstjóra
  • Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugleiðsögusviðs
  • Haukur Hauksson, framkvæmdastjóri flugvalla- og mannvirkjasviðs
  • Eiríkur Ómar, Sveinsson framkvæmdastjóri Keflavíkurflugvallar
  • Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar

Skrifstofa yfirstjórnar
Skrifstofa yfirstjórnar er forstjóra og stjórn til aðstoðar í störfum sínum. Skrifstofan hefur með höndum stjórnsýslumál og samskipti við opinbera aðila, umsjón með stefnumörkun, nefndum og ráðum og öryggis- og varnarskuldbindingum félagsins, samskipti við fjölmiðla ásamt sérverkefnum sem snerta félagið í heild.

Fjármálasvið
Fjármálasvið annast fjárhagslega umsýslu félagsins, skrifstofuhald, starfsmannahald, bókhald, tölulegar upplýsingar um starfsemina, hefur umsjón með öllum innkaupum og fjárfestingum og annast viðskiptaþróun og kerfisþjónustu og veitir öðrum sviðum félagsins viðhlítandi þjónustu.

Flugleiðsaga
Flugleiðsögusvið veitir öllum loftförum innan íslenska flugstjórnarsvæðisins örugga og hagnýta flugumferðar- og flugupplýsingaþjónustu auk leitar- og björgunarþjónustu. Sviðið hefur með höndum fjarskipti, tækniþjónustu og þróun búnaðar og verklags í flugleiðsögu ásamt útgáfu AIP-flugmálahandbókarinnar. Sérstök eftirlitsdeild annast flugprófanir og annað eftirlit.

Flugvellir og mannvirki
Flugvalla- og mannvirkjasvið hefur með höndum rekstur og uppbyggingu mannvirkja og búnaðar á öllum flugvöllum landsins sem þjóna innanlandsflugi ásamt björgunar- og slökkviþjónustu. Mannvirkjaþjónusta veitir öðrum rekstrarsviðum sérhæfða stoðþjónustu vegna viðhalds og nýbygginga.

Keflavíkurflugvöllur
Annast rekstur og uppbyggingu flugvallarmannvirkja á Keflavíkurflugvelli ásamt björgunar- og slökkviþjónustu.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Hefur með höndum rekstur og viðhald flugstöðvarinnar, viðhald annarra flugvallarbygginga, þjónustu við viðskiptavini flugstöðvarinnar, framkvæmd flugverndar og markaðssetningu flugvallarins.

Keflavíkurflugvöllur.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd