Ísfélag Vestmannaeyja hf. var stofnað 1. desember árið 1901 og er elsta starfandi hlutafélag landsins. Tilgangur félagsins var að byggja og reka íshús til geymslu á beitu og vinna þannig bæði útgerðarmönnum og bæjarfélaginu gagn.
Sagan
Árið 1896 bjuggu í Vestmannaeyjum innan við 600 manns. Línuöldin svokallaða skall hratt á og helsta beitan á línu var gota, ýsa og langa. Síldin, hin mikla tálbeita, var ekki til taks enda erfitt að geyma hana þar sem engin voru frosthúsin. Skipshafnir byggðu sér kofa úr torfi og grjóti og söfnuðu þar snjó og ís á veturna. Í þessum kofum var síldin geymd, ef hún bauðst. Um aldamótin mátti finna slíka kofa víðs vegar um Heimaey. Hins vegar var lítið um snjó á veturna þá sem nú og höfðu menn oft mikið fyrir að afla hans og færa í kofana. Mönnum varð því fljótlega ljóst að beitugeymslur sem þessar voru ekki líklegar til árangurs til lengri tíma. Íshús, líkt og víða þekktust, þyrftu Eyjamenn að eignast. Sunnudaginn 15. september 1901 var haldinn almennur fundur í kauptúninu þar sem umræðuefnið var bygging íshúss. Fundurinn var vel sóttur og létu menn í ljós mikinn áhuga á málinu. Eftir nokkra umræðu gáfu sig fram 45 fundarmenn sem reiðubúnir voru að leggja fram hlutafé til stofnunar hlutafélags um íshúsið. Fór svo að samtals safnaðist hlutafé upp á 1.400 krónur. Kosin var fimm manna nefnd til að undirbúa stofnun félagsins og kynna sér gerð íshúsa. Voru það merkir menn samtímans sem komu þar að; Magnús Jónsson, Sigurður Sigurfinnsson, Gísli Lárusson, Magnús Guðmundsson og Árni Filippusson. Þann 1. desember 1901 var boðað til stofnfundar þar sem samþykkt voru lög félagsins, teikningar, og kostnaðaráætlun íshússins og fyrsta stjórn félagsins kosin. Í hana voru kosnir; Þorsteinn Jónsson héraðslæknir, Árni Filippusson bókari, og Gísli J. Johnsen verslunarmaður. Varamaður var Magnús Guðmundsson útvegsbóndi. Ísfélag Vestmannaeyja er í meirihlutaeigu Fram ehf. Í stjórn félagsins eru, Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, sem jafnframt er stjórnarformaður, Guðbjörg Matthíasdóttir, Einar Sigurðsson og Sigurbjörn Magnússon. Framkvæmdarstjóri félagsins er Stefán B. Friðriksson.
Starfsemi
Félagið er með starfsemi í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn á Langanesi. Í Vestmannaeyjum er rekið frystihús sem er sérhæft til vinnslu á uppsjávarafla, s.s. loðnu, síldar og makríls. Frystigetan er um 450 tonn á sólarhring. Á milli uppsjávarvertíða er unninn bolfiskur, þ.e. þorskur, ufsi og ýsa, í frystar og ferskar afurðir. Einnig er í framleitt fiskimjöl og -lýsi úr loðnu, síld, makríl og kolmunna í fiskimjölsverksmiðju félagsins. Framleiðslugeta verksmiðjunnar er um 1.200 tonn af hráefni á sólarhring. Á Þórshöfn er rekið öflugt frystihús þar sem unninn er bolfiskur og uppsjávarfiskur. Bolfiskvinnslan byggist á þorsk- og ufsavinnslu. Þar er einnig framleitt fiskimjöl og lýsi. Framleiðslugeta verksmiðjunnar er um 1.000 tonn af hráefni á sólarhring. Ísfélagið gerir út fjögur uppsjávarskip, tvö bolfiskskip og einn krókabát.
Ísfélagið hefur lagt mikla áherslu á uppsjávarveiði og hefur í dag yfir að ráða 20% af loðnukvóta á Íslandi. Lagt hefur verið í miklar fjárfestingar bæði til lands og sjós. Félagið hefur endurnýjað skipaflotann að öllu leyti frá árinu 2012 og í fiskimjölsverksmiðju félagsins í Vestmannaeyjum má nú finna eina fullkomnustu hreinsistöð í heiminum. Allt frárennsli frá verksmiðjunni og frystihúsi félagsins er hreinsað. Félagið á hlut í tveimur sölufyrirtækjum, annarsvegar Iceland Pelagic ehf., sem selur aðallega frystar uppsjávarafurðir og hins vegar StorMar ehf., sem selur ferskar og frosnar bolfiskafurðir til Evrópu.
Stjórnendur og starfsfólk
Framkvæmdarstjóri félagsins er Stefán Friðriksson. Fjármálastjóri er Örvar Guðni Arnarsson. Eyþór Harðarson er útgerðarstjóri. Björn Brimar Hákonarson er framleiðslustjóri frystihússins í Vestmannaeyjum og Siggeir Stefánsson framleiðslustjóri á Þórshöfn. Verksmiðjustjóri mjölverksmiðjunnar í Vestmannaeyjum er Páll Scheving og Rafn Jónsson verksmiðjustjóri á Þórshöfn. Hjá Ísfélaginu starfa tæplega 230 manns. Um 80 starfsmenn eru á Þórshöfn, um 50 eru á sjó og u.þ.b. 100 í landsvinnslu og á skrifstofu félagsins í Vestmannaeyjum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd