Ísgel ehf

2022

Fyrirtækið Ísgel ehf. var stofnað 5. júlí 1999 á Hvammstanga og gert að hlutafélagi í desember árið 2000. Stofnendur félagsins eru Fríða Pálsdóttir, Bsc. hjúkrunarfræðingur og Guðfinna Ingimarsdóttir, fiskiðnaðarmaður. Fyrirtækið flutti til Blönduóss árið 2003 en var svo selt árið 2008 núverandi eigendum, sem eru Gunnar K. Ólafsson og Kristín Lárusdóttir, Zophonías Ari Lárusson og Katrín Benediktsdóttir.
Ísgel ehf. er fjölskyldufyritæki. Kristín og Zophonías eru systkini. Zophonías og Gunnar starfa við fyritækið ásamt fjórum starfsmönnum.

Þann 26. október árið 2006 birtist eftirfarandi grein í Viðskiptablaðinu
Framleiðslufyrirtækið Ísgel er til sölu en núverandi eigendur fyrirtækisins keyptu fyrir nokkrum árum fyrrum húsnæði verslunarinnar Vísis og flutti starfssemi sína til Blönduóss. Áður var fyrirtækið á Hvammstanga.
Fyrirtækið framleiðir meðal annars gelmottur, sem viðhalda kælingu ferskra matvæla á meðan á flutningi stendur, frystipoka, margnota kæli- og hitagelpoka og einnota kælipoka sem eru góðir fyrir íþróttafólk og í sjúkrakassann. Sú ímynd sem fyrirtækið vill halda á lofti er góð íslensk vara sem stenst kröfur viðskiptavina hvað varðar gæði og verð. Fyrirtækið kappkostar því að þjónusta viðskiptavini sína eftir þörfum og óskum hvers og eins, eins og kostur er, segir einnig á heimasíðu fyrirtækisins.
Svo sagði í Viðskiptablaðinu 2006 en vöruval hefur lítið breyst í tímans rás nema að í dag eru fleiri stærðir á mottum á boðstólum til að laga sig að þörfum kaupenda.

Aðföng og afhending vara
Aðföng eru frá innlendum birgjum en Ísgel flytur sjálft inn þurrefni sem notuð eru til að útbúa gellögin. Ísgel sér sjálft um flutning til viðskiptavina að mestu leyti en farnar eru tvær ferðir að meðaltali á viku hverri á Suðvestuhornið og oftar ef þarf.

Vörur
Í boði eru um það bil 25 vörunúmer, tveir megin vöruflokkar, annars vegar gelmottur sem notaðar eru tilað viðhalda kælingu og þá aðallega í flutningi á ferskum fiski með flugi og hins vegar heilsulína sem seld er í lyfjaverslunum og notuð bæði sem heitir og kaldir bakstrar á vöðvabólgu og önnur eymsl.

Velta og COVID-19
Staðan í dag er góð þótt reyndar hafi orðið 15% samdráttur árið 2020 og má kenna COVID-19 um. En árið 2021 fór vel af stað og veltan aldrei verið meiri og hefur aukist jafnt og þétt og að minnsta kosti sexfaldast frá árinu 2008.
Fylgt var fyrirmælum sóttvarnayfirvalda um sóttvarnir og takmarkaðan aðgang á meðan smitbylgjur gengu yfir.

Samfélagsmál
Ísgel ehf. styður vel við bakið á félagasamtökum og íþróttafélögum á Blönduósi og á sölu-svæðum sínum og eru einn aðal styktaraðili íþróttafélagsins Hvatar.

Aðsetur
Núverandi aðstaða Ísgels ehf. er á Efstubraut 2 á Blönduósi í nýlegu eigin húsnæði sem leysti það gamla af, að Húnabraut 21, árið 2012.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd